11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

24. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg tel mjer skylt að láta í ljós álit mitt um brtt. á þskj. 148. Till. er þess efnis, að sameina fræðslumálastjóraembættið einhverri kennarastöðunni við kennaraskólann. Um launakjörin samkvæmt þessari tillögu er ekkert nema gott að segja, ef skilja má tillöguna eftir orðanna hljóðan. Og myndi hver og einn þiggja þá launahækkun, sem hjer er um að ræða, með þökkum, ef hann væri þeirrar skoðunar, að hægt sje að sameina þessi tvö störf. En sá galli er á, að hjer er um tvö störf að ræða, sem hvort fyrir sig er fullkomið mannsverk.

það mun öllum ljóst, að kennarastaða við kennaraskólann er fullkomið starf. 5 stunda kensla á dag, leiðrjetting stíla, undirbúningur undir kenslustundir og ýmiskonar kvabb, sem skólastarfi fylgir. Að vísu er sumarið frjálst. En launin eru það lág, miðað við framfærslukostnað hjer í Reykjavík, að ekki veitir af sumrinu til uppbótar. Auk þess, sem það er að nokkru leyti nauðsynlegur hvíldartími fyrir kennarana frá hinum þreytandi störfum þeirra.

Um fræðslumálastjóraembættið er háttv. þingdeildarmönnum ekki eins kunnugt, og mun þar þó engu síður um fullkomið mannsverk að ræða.

Fræðslumálastjóri fær í hendur skýrslur um barnakenslu á öllu landinu. Hann á að kynna sjer, hvernig fræðslulögunum er fylgt, hvernig kenslu barna milli 8 og 14 ára er háttað o. s. frv. Eins og kunnugt er, eru fræðslulögin mjög teygjanleg, mikið frjálsræði gefið, ef fræðslukröfunum er fullnægt, og eftir fræðslulögunum frá síðasta þingi eru undanþágur frá skólaskyldu heimilaðar, ef hlutaðeigendur geta sjeð fyrir fræðslunni á annan hátt. Þessar nýju reglur um undanþágur og aðhald heimta mikla aðgæslu og kunnugleik af hálfu fræðslumálastjóra, sem eins og kunnugt er, á að hafa eftirlitið með höndum.

Þá hvílir á fræðslumálastjóra eftirlit með barnaprófum um land alt, skipun prófdómenda — um 300 — á hverju ári. Auk þess sem afskifti af prófum munu fara í vöxt með framtíðinni, ef sameiginleg próf komast á um alt land eða á stórum svæðum. Þá kemur á fræðslumálastjóra að vinna úr þeim prófgögnum, sem koma alstaðar af landinu. Skipun barnakennara og alt, er því fylgir, heyrir og undir hann. Með núverandi fyrirkomulagi þarf að setja og skipa milli 80–100 kennara á ári. Skipun skólanefndarformanna þriðjahvert ár heyrir og undir fræðslumálastjóra; og til þess, að það fari vel úr hendi, þarf mikinn kunnugleik. Auk þess stendur hann í brjefaviðskiftum við skólanefndir og kennara um margháttuð viðfangsefni. Hann þarf að skera úr deiluefnum og leiðbeina um kensluna, þegar þess er óskað. Þá koma og skólanefndarmenn og kennarar mikið til viðtals við hann, þegar þeir koma til Reykjavíkur, og ræða um ýms þau efni, sem skólastarfið gefur tilefni til. Að vísu er ekki vandasamt að leysa úr mörgu því, sem fyrir fræðslumálastjóra er lagt, en það tekur þó alt sinn tíma. Og hinar mörgu og margvíslegu fyrirspurnir, sem honum berast, sanna það best, að þörf sje að hafa mann, sem kunnugur sje fræðslulögunum og framkvæmd þeirra, sem allir geti snúið sjer til.

Reglugerðir og tilhögun á skólastarfi kemur undir álit fræðslumálastjóra. Og í því efni er mikið að starfa á næstu árum. Það þarf að gera starfs- og lesskrá fyrir alla skóla — eða skóla-„typur“ — alt eftir því, hve lengi þeir starfa og við hvaða skilyrði. Það hefir ekki verið gert ennþá, en má ekki dragast lengi úr þessu. Í sambandi við það þarf að koma kenslubókakerfinu í gott horf og finna leiðir til að gera þær ódýrari. Um þetta efni er mikil óánægja ríkjandi, sem vonlegt er. Þetta þrent: starfsskrá fyrir skólana, kenslubókakerfið og almenn sambærileg próf í einstökum námsgreinum á stórum svæðum og jafnvel um land alt, heimtar úrlausn á næstu árum. Fræðslulögin og fræðsluskyldan eru í sjálfu sjer einfaldir hlutir, en framkvæmdin er umfangsmikil og eftirlitið með henni getur ekkert aukastarf verið. Ágæti laganna fer einmitt eftir því, hvernig framkvæmd þeirra fer úr hendi.

Ýmislegt, sem lýtur að ytri aðbúnaði kenslunnar, heyrir undir fræðslumálastjóra. Skólahúsbyggingar, alt frá því er þörfin segir til sín um bætt ytri skilyrði fyrir kensluna og þar til að ríkissjóðsstyrkurinn hefir verið greiddur og húsið komið upp.

Það, sem hjer hefir verið talið, heimtar, að fræðslumálastjóri fari eftirlitsferðir. Af því leiðir, að hann má ekki vera bundinn hjer í Reykjavík allan veturinn, en skólakennarar eru rígnegldir niður meðan skólinn starfar.

Þá er eftirlit og tillögurjettur um unglingakensluna, sem sífelt fer vaxandi. Og þess mun vart langt að bíða, að heildarlög verði sett um unglingafræðslu bæði í svertum og kaupstöðum, þó ekki sje gert ráð fyrir, að skólaskylda fyrir unglinga verði lögtekin.

Þá er fræðslumálastjóri ráðunautur kenslumálaráðuneytisins um alt það, er það kann að óska, að sje rannsakað og gerðar tillögur um snertandi þessi mál. Hann þarf því að fylgjast með um erlend skólamál og vera nákunnugur skólamálum innanlands, og þarf helst að gefa út kennarablað til þess að halda uppi umræðum um uppeldismál o. fl.

Þó að það sje margt, sem fræðslumálastjóra er falið að gera samkvæmt fræðslulögunum, þá uggir mig samt, að hann verði jafnan dæmdur eftir þeim hluta starfs síns, sem ekki verður með lögum bundið, en ekki eftir þögmæltu skrifstofustörfunum, þó vel sjeu af hendi leyst.

Þegar nú þess er gætt, að fræðslumálastjóri er eftirlitsmaður og ráðunautur yfir 200 skólanefnda og um 300 kennara, unglingafræðslunnar og ráðunautur kenslumálaráðuneytisins í fræðslumálum, hlýtur það að liggja á augum uppi, að það er nægilegt starf fyrir einn mann. Væri því fremur þörf að fá honum aukna aðstoð en aukið starf.

Þrátt fyrir þá freistingu, sem fólgin er í bættum launakjörum — eins og tillagan felur í sjer —, þá geri jeg ráð fyrir, að enginn, —sem um þetta starf ætlar að sækja, telji æskilegt, að það sje sameinað öðru fullgildu starfi.

Af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram, og þá sjerstaklega af því, að hjer er um tvö fullgild störf að ræða, þá leyfi jeg mjer að leggja til við háttv. deild, að brtt. á þskj. 148 verði feld. Að öðru leyti mun jeg ekki hafa afskifti af þessu máli. Jeg mun ekki greiða um það atkvæði, vegna sjerstakrar aðstöðu minnar.

Að síðustu skal jeg geta þess, að það var ekki rjett hjá hv. þm. Borgf. (PO), að sá, sem gegnir starfinu nú, hafi gegnt því samhliða öðru starfi. Jeg hefi haft á hendi í vetur tæplega hálft kennarastarf, aðeins kent 2 tíma á dag, frá 8–10 á morgnana, og hefir mjer þótt það fullerfitt. Hefir það bundið mig hjer í Reykjavík, og er það óheppilegt. En svo hefir þetta orðið að vera og getur gengið til bráðabirgða, en er ekki hentugt til frambúðar.

Annars þykir mjer töluvert óviðfeldið, ef nú á að fara að rýra fræðslumálastjóraembættið á Íslandi, einmitt í sama mund og nágrannar vorir, Grænlendingar, hafa fengið sjerstakan fræðslumálastjóra.