05.03.1927
Efri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

4. mál, iðnaðarnám

Jón Baldvinsson:

Jeg veit ekki, hvar jeg á að byrja á andmælum hv. frsm. allshn. (JJós). Hann hefir varið alllöngum tíma til að sanna, að óhyggilegt sje að fara lengra en frv. ákveður, en heldur virðast mjer rök hans ljett á metunum og lítið sanna það, sem hann ætlaðist þó til. Það er rjett hjá honum, að samkvæmt frv. er hámarkið 60 stundir, sem iðnnema er ætlað að vinna á viku, en að frá þeim stundafjölda dragist einn kl.tími á dag, sem ætlaður er til kenslu, svo að þá verða það raunverulega 54 stundir á viku, sem iðnnemi verður að vinna lærimeistara sínum. En það þykir mjer óþarflega hátt. Þess vegna legg jeg til, að hámarkið færist niður í 48 stundir, og í þeim stundafjölda sje innifalin þessi eina klukkustund á dag. Með því verður vinnutíminn 7 stundir á dag, eða 42 stundir á viku, og það tel jeg mjög forsvaranlegt í alla staði.

Hann virtist telja það mikla rjettarbót, að frv. gerir ráð fyrir, að ekki sje unnið eftir kl. 6 síðdegis. En þetta er einhver meinloka hjá honum, sem jeg veit satt að segja ekki, hvernig hann hefir fengið út úr frv. því þó að vinnutíminn sje ekki nema til kl. 6, þá getur hann samt verið of langur. Eins sje jeg ekki neitt skaðlegt við það, þó unnið sje eftir þann tíma. Jeg sje t. d. ekkert á móti því, þó að iðnnemi vinni einhverja innivinnu til kl. 8 að kvöldi, ef hann hefir byrjað það seinna að morgninum. Það er engin trygging fyrir því, að iðnnemar vinni ekki of lengi, þó að þeim sje bannað að vinna eftir kl. 6, nema ef skilja á ákvæðið svo, að það gildi aðeins um eftirvinnu. Hjer er ætlast til að vernda piltana, en sú verndun næst best með því, að í frv. sje ákvæði, sem tryggi það, að nemendum verði ekki misboðið. Þess vegna held jeg, að það sje rjett, að hámarkið fari ekki upp úr 48 stundum á viku. það gæti meira að segja komið til mála að stytta vinnutímann eitthvað 2 fyrstu árin, en hann ætti þó aldrei að fara yfir 48 stunda hámarkið síðari árin.

Hv. frsm. (JJós) lagði mikið upp úr því, að mál þetta yrði skoðað frá báðum hliðum, en taldi hins vegar, að jeg liti að eins á það frá sjónarmiði iðnnema. En þar sem frv. virðist hugsað sem vörn fyrir nemendur og að í því eru mestmegnis ákvæði um að vernda rjett þess, sem minni máttar er, þá leiðir af sjálfu sjer, að líta verður á og athuga, hvernig þessari vernd verði komið fyrir á haganlegastan hátt, og það einmitt frá sjónarmiði nemendanna.

Við erum með frv. að reyna að ala upp góða, velkunnandi og hrausta iðnaðarmannastjett, og það tekst því aðeins, að búa nemendurna sem best undir starf sitt. Jeg skal taka það fram, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að jeg álít, að það tíðkist ekki að jafnaði, að nemendur sjeu ofþjakaðir með vinnu, en það á að fyrirbyggja það að slíkt geti komið fyrir.

Það er ekki langt síðan sorglegt dæmi kom fyrir, að ungling var svo misboðið — að vísu ekki við iðn, heldur almenna sveitavinnu — að hann nær aldrei aftur fullri heilsu. Það mál er nú fyrir dómstólunum. Og úr því þetta og annað eins gat komið fyrir, þá getur það líka komið fyrir enn. Þess vegna er nauðsynlegt að ganga svo frá þessu ákvæði, að það sje trygt, að ungum iðnnemum verði ekki misboðið með langri eða strangri vinnu. Margur eldri maður mætti eflaust muna, að ekki var altaf vel með sig farið á yngri árum, og sýpur af því seyðið á fullorðinsárunum.

Það er einmitt þungamiðjan í allri slíkri löggjöf, að fólki sje ekki ofþjakað með vinnu og hafi svo gott atlæti, að heilsa þess spillist ekki. Erlendis hefir verið ráðin nokkur bót á þessu með því að setja löggjöf um, að mönnum sje trygður hæfilega stuttur vinnutími og ýmsum ákvæðum um hollustuhætti, sem hjer er of langt upp að telja.

Jeg játa fúslega, að það sje nauðsynlegt, að menn læri handiðn sína vel. En skyldu ekki allir vita, að hægt er að læra á 4 árum með 48 stunda vinnu og kenslu á viku, og það til fullnustu, öll þau undirstöðuatriði, sem hægt er að byggja á, og það í hvaða iðngrein sem er.

Mjer finst hv. allshn. ætti að geta fallist á brtt. mínar og óþarft af henni að vera hrædd við að veita iðnnemum eðlilegar rjettarbætur. Hjer er ekkert óttalegt á ferðinni og enginn „bolsevismi“, sem öllu byltir á annan endann í landinu, þó að það komist inn í frv., að hámarksvinnutími iðnnema sje 48 stundir á viku.

Þá kem jeg að sumarleyfinu. Hv. frsm. (JJós) vildi hafa það frjálst og ekki bundið í lagaákvæði, hvað langt sumarleyfið skyldi vera, eða því hagað á annan hátt. Hann færði sem rök fyrir máli sínu, að hann vissi dæmi þess, að menn hefðu óskað að fá það á öðrum tíma. Þetta má vel vera, að einhverjir óski fremur að fá frí að vetrinum af sjerstökum ástæðum, sem fyrir hendi eru, og verður þá að semja um það við húsbóndann og án kaups, ef ekki fæst öðruvísi. En hjer er um sumarleyfi að ræða, og það verður að veitast að sumrinu, eða á meðan sumarveður er. Vilji menn frí á öðrum tíma, t. d. skreppa til útlanda, þá ætti að vera hægt að fá það að minsta kosti án kaups; en það á að vera algert samningsatriði milli aðilja.

Mjer finst, að farið sje fram á svo lítið með þessari breytingartillögu minni, að rjett sje að samþykkja hana. Þá er það fastákveðið, sem lærisveinar geta bundið sig við, og þá eru báðir lausir við að semja, en á því mun fara best, að báðir viti fyrirfram, út frá hverju sje að ganga.

Þá vildi jeg benda hv. frsm. (JJós) og fleirum á það, að um iðnnema gildir ekki sama og um verslunarþjóna yfirleitt. Um hásumartímann er yfir höfuð sáralítið að gera hjá sumum verslunum — að minsta kosti hjer í Reykjavík — og því afarlítill kostnaður við það að sjá af fólkinu til sumardvalar. En um iðnnema eða iðnaðarmenn víkur þessu öðruvísi við. Þeir vinna altaf vist verk á hverjum degi, sem færir peninga í vasa lærimeistarans. Þess vegna getur það verið bagalegt fyrir lærimeistarann að sjá af iðnnemanum og hann dragi það við sig að veita honum viku sumarleyfi, ef hann sjer, að hann getur kannske komist hjá því. Hjer er því alt öðru máli að gegna. Það kostar lærimeistarann eitthvað að veita sumarleyfi, en verslunareigandann sama sem ekkert. Þess vegna þarf að búa betur um hnútana hvað iðnnema snertir og tryggja þeim, að sumarleyfið verði aldrei minna en ein vika á ári.

Jeg held jeg hafi þá að mestu svarað því, sem hv. frsm. allshn. (JJós) hafði fram að bera fyrir nefndarinnar hönd, og læt svo skeika að sköpuðu, hvernig fer um brtt. mínar. Það sjest þá við atkvgr., hverjir vilja tryggja rjett iðnnema og hverjir ekki.