30.03.1927
Neðri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

37. mál, fjáraukalög 1926

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get verið þakklátur nefndinni fyrir meðferð hennar á frv. þessu, og sömuleiðis fyrir þá viðurkenningu hv. frsm., að hjer sje ekki nema um eðlilegar og nauðsynlegar fjárgreiðslur að ræða, jafnvel þó um smæstu upphæðirnar sjeu eitthvað skiftar skoðanir.

Hvað snertir brtt. nefndarinnar vil jeg benda á, að það er erfitt að framkvæma þessa greiðslu með breytingu á fjáraukalagafrv. fyrir 1926, því upp í það frv. eru ekki teknar aðrar upphæðir en þær, sem þegar hafa verið greiddar, og landsreikningnum fyrir 1926 verður lokað nú eftir 1. eða 2 daga. Er því erfitt að greiða þetta nú eftir þessum lögum. En mjer finst till. þessi eiga að koma við fjárlögin 1928.

Upphæðin, 1000 kr., skiftir ekki miklu máli hvað greiðslur ríkissjóðs snertir, en mjer finst ástæðulaust að ganga inn á þetta, þegar búið er að semja um afhendingu kirkjunnar. Mjer skilst því, að fjvn. vilji bara gefa hjer gjöf, sem að sjálfsögðu hefir það einkenni, eins og aðrar góðar gjafir, að þiggjandinn er alls góðs maklegur.

Annars vil jeg skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún vilji ekki taka till. þessa aftur nú og láta hana koma fram við fjárlögin fyrir 1928.