05.03.1927
Efri deild: 20. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

4. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg verð að líta svo á, og nefndin er þeirrar skoðunar, að ákvæði 9. gr. um sumarleyfi beri að skilja svo, að skylt sje að taka upp í samninga milli iðnnema og lærimeistara, eða öllu heldur milli þjóns og húsbónda, hvernig fara skuli um þetta atriði. M. ö. o., að þetta sje algerlega samningsatriði þeirra á milli.

Verði frv. þetta að lögum og hv. 5. landsk. (JBald) geti þá nefnt dæmi, þar sem húsbóndi skjóti sjer undan þeirri skyldu að veita iðnnema sumarleyfi, þá fyrst er ástæða til að breyta þessu í það horf, sem brtt. fer fram á.

Það er satt, að nefndin leggur mikla áherslu á, að ungir iðnnemar sjeu ekki látnir vinna eftir kl. 6 að kvöldi tvö fyrstu árin, sem þeir eru við nám. Þá eru þeir flestir 15 ára, óharðnaðir og því nauðsyn á slíkri vernd.

Þegar svo litið er á það, að vinna byrjar aldrei fyr en kl. 6 að morgni, og að tvær stundir dragast frá sem matmálstími, þá eru eftir í allra hæsta lagi 10 stundir, sem fara til vinnu, en frá þeim dregst svo aftur tími sá, sem fer til náms og teikninga, þá virðist það nægilega trygt, að nemendur 15–16 ára verði ekki þrælkaðir eða þeim ofboðið með vinnu.

Þá vil jeg mótmæla því, að frv. sje eingöngu hugsað sem einhliða trygging fyrir iðnnema. Jeg held miklu fremur, að frv. sje hugsað sem skynsamlegar reglur, er löggjafarvaldið setur um afstöðu lærimeistara og iðnnema hvors til annars. Lögin geta því alls ekki kallast einhliða. Lítum t. d. á 7. gr. par er nemanda lagt á herðar að sýna lærimeistara sínum trúmensku og hlýðni. Á öðrum stað er tekið fram, að lærimeistari skuli vaka yfir siðferði og hegðun nemanda. í 15. gr. er ákvæði um, að lærimeistari geti látið nemanda fara frá sjer, ef hann er dæmdur sekur um brot, sem svívirðilegt þykir, og nemandi geti hinsvegar yfirgefið lærimeistara sinn, ef hann gerir sig sekan í slíku broti. í 21. gr. er refsing lögð við, ef nemandi brýtur gegn settum reglum, og honum gert að greiða lærimeistara skaðabætur. Sömuleiðis er lærimeistara ákveðin refsing og gert að greiða skaðabætur, ef hann brýtur settar reglur. Öllum hlýtur að vera ljóst, að hjer er ekki um einhliða ákvæði að ræða. Það er tekið fult tillit til hagsmuna aðilja á báða bóga, enda væri það harla einkennilegt, ef eingöngu væru gerð ákvæði um skyldur annars aðilja, en rjettindi hins. Það liggur í augum uppi, að í lögum, sem sett eru um iðnaðarnám, verður að taka fult tillit til beggja aðilja. En eins og jeg hefi bent á áður, kveður þetta frv. ríkara á um rjett nemenda heldur en gert er í núgildandi lögum, og samt sem áður fellur um koll sú staðhæfing hv. 5. landsk. (JBald), að frv. sje einhliða. Ásakanir hv. þm. um, að nefndinni farist smásmugulega, hafa við engin rök að styðjast. Miklu fremur mætti segja, að brtt. hans færu í þá átt að vera smásmugulegar, þar sem hann vill ekki sætta sig við almenn ákvæði, vill t. d. binda sumarleyfi við vissa dagatölu, vissa mánuði o. s. frv. Jeg sje ekki neitt á móti því, að svona hlutir geti verið samkomulagsatriði, þar sem lögin beinlínis heimila nemendum að krefjast sumarleyfis.

Hv. þm. (JBald) talaði um útlend fordæmi. Hann sagði, að í útlöndum væru settar nákvæmar reglur um öll viðskifti lærimeistara og nemenda. Það má vel vera, að þetta sje rjett. En á það má líka líta, þótt menn, sem eru líkrar skoðunar og þessi hv. þm., sjeu sívitnandi í útlend fordæmi, að í fjölmennum iðnaðarbæjum erlendis hagar talsvert öðruvísi til en hjer á landi. Jeg tel vafamál, að ávalt sje rjett að hafa þessi útlendu fordæmi fyrir mælisnúru, og jeg efa mjög, að þau eigi eins víða við hjer á landi og sumir, þar á meðal hv. 5. landsk. (JBald), vilja halda fram.