10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2148 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

78. mál, fræðsla barna

Flm. (Jón Guðnason):

Þetta litla frv. okkar hv. 2. þm. Eyf. (BSt) er komið fram í því skyni að gera fámennum hreppum hægara fyrir en nú er um að halda uppi hjá sjer barnakenslu. Á því hefir borið oft og tíðum, að minsta kosti í þeim sveitum, þar sem við flm. þekkjum til, að ekki hafa verið tök á því að halda uppi neinni opinberri barnafræðslu, vegna þess að börnin hafa verið svo fá, að ekki hefir verið hægt að hafa kensluna 24 vikur, sem hefir svo leitt til þess, að ekki hefir fengist sá kennari, sem mönnum líkaði. Hefir komið fyrir, að það hefir orðið að notast við ófullkomna kennara, vegna þess að hinir betri og færari voru ófáanlegir til þess að taka að sjer kensluna, er eigi var framfylgt ákvæðum laga um laun og skipun barnakennara.

Hinsvegar hefir það verið svo, að slíkir hreppar hafa ekki haft ástæður til þess að slá sjer saman í eitt skólahjerað til frambúðar, m. a. af því, að svo mikil áraskifti eru að því, hve mikið verkefni er til fyrir kennara. Þó að það sje ekki nægilegt þetta árið, þá getur það orðið næsta ár, o. s. frv. Auk þess eru áraskifti að því, hve mörg af skólaskyldum börnum þurfa hinnar opinberu fræðslu við og hve mörg hafa heimafræðslu. Í þessum sveitum hafa því komið fram óskir um það, að ákvæði yrði sett í fræðslulögin, sem heimili tveim eða fleiri hreppum að ganga í eitt skólahjerað til bráðabirgða. Að minsta kosti úr Dalasýslu var send áskorun til þingsins í fyrra í þessa átt, þó að ekki væri gaumur gefinn; að líkindum var það af vangá, en ekki af því, að nokkur væri mótfallinn þessari sjálfsögðu hagsbót fyrir fámenna hreppa. Jeg geri ekki ráð fyrir, að neinn hv. þdm. sje á móti því að samþ. þetta frv., og það því síður, sem jeg get sagt frá því, að frœðslumálastjóri hefir tjáð mjer í viðtali, að hann hafi orðið var við fleiri óskir í þessa átt, sem ekki gátu komið til framkvæmda, af því að það þótti skorta til þess lagaheimild. Hann er þess vegna meðmæltur því, að frv. nái fram að ganga.

Eins og menn sjá, þá er hjer ekki um neina stórfelda breytingu að ræða á fræðslulögunum. Þó að sjálfsagt sje að láta þau í heild reyna sig áður en þeim er breytt, þá sje jeg ekki, að þessi breyting saki, því að hún miðar aðeins til þess að lagfæra fyrirkomulagsatriði, sem ekki var athugað, þegar lögin voru sett.

Enda þótt þetta frv. sje flutt af okkur tveimur, sem eigum sæti í mentmn., þá er kannske rjett að gera þá till., að því verði samt vísað til mentmn. til athugunar, því að vera má, að breyta þurfi einhverju fleiru í sambandi við þetta, ef önnur ákvæði kynnu að koma hjer í bága við að einhverju leyti.