29.04.1927
Efri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2151 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

78. mál, fræðsla barna

Guðmundur Ólafsson:

Jeg hefi komið fram með brtt. á þskj. 440. Það má segja um þessi lög eins og önnur fleiri, að þau eru ekki gömul, þegar þarf að breyta þeim. Þetta frv. er ljóst dæmi þess. Lögin voru samþ. á þinginu í fyrra og nú kemur fram frv. til laga um breytingar á þeim. Jeg verð að játa, að ef það frv. nær fram að ganga, þá taka lögin breytingum til bóta. Þó mundu þau batna enn meir, ef hv. deild vildi fallast á mína brtt., sem er í því fólgin, að þegar ekki er þörf á kennaranum allan námstímann, þá megi nota hluta hans til að kenna unglingum eða þá börnum innan skólaskyldualdurs. Nú hefir mjer verið bent á það af nefndinni, að þetta muni líklega að einhverju leyti koma í bága við launalög barnakennara, en jeg held varla, að varhugavert sje hvað það snertir að samþ. till. En ef hún skyldi koma í bága við launalögin, væri eins rjett að breyta þeim lögum eins og að standa á móti hagkvæmum breytingum á fræðslulögunum. Þó að nokkur bót sje í því, að tveir hreppar slái sjer saman um kennara, kæmi það ekki til greina nema um nágrannahreppa. En jeg get ekki skilið, að brtt. mín komi neitt verulega í bága við launalögin, því að jeg býst við, að fræðslumálastjóri gæti leyft þetta. Það er einmitt mjög hentugt að nota þennan tíma til framhaldsnáms, enda hefir slíkt verið gert sumstaðar þar, sem jeg þekki til.