12.02.1927
Efri deild: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Jón Baldvinsson:

Jeg verð að segja það, að mjer finst hæstv. stjórn hefði getað varið tíma sínum til undirbúnings þarfari mála en þessara launalaga. Jeg sje enga ástæðu til þess að fara að setja upp nýja launaflokka, þó að haldið sje út tveimur varðskipum. Það er líka beinlínis gengið á rjett starfsmannanna með þessum ákvæðum, því það er auðheyrt, að hæstv. forsrh. (JÞ) vill fá vinnu þeirra ódýrari með þessu móti en annars væri kostur. En þó ódýr vinna þyki eftirsóknarverð, ber líka að líta á hitt, að þess má jafnan vænta, að menn vinni betra starf, ef þeir eru ánægðir með kjör sín.

Þetta frv. er að mínu áliti algerlega óþarft, og jeg held, að það hefði a. m. k. getað beðið í nokkur ár að bæta þarna við nokkrum hundruðum embætta, sem vel getur orðið. Það er sýnilegt, að eftir frv. verða kjör starfsmannanna á þessum skipum verri en annara sjómanna á svipuðum skipum. Þeir fá aðeins fast mánaðarkaup; um eftirvinnu ekkert talað. Og gert er líka ráð fyrir meiri lækkun hjá þeim en öðrum sjómönnum. Það er aðeins kaup yfirmannanna, sem ekki lækkar. Skipstjórarnir halda sínum 1000 krónum á mánuði, þótt kaupið lækki um 121/2% hjá almennum sjómönnum, að því er sagt er.

Jeg endurtek það, að þetta er óþarft mál. Það á ekki sífelt að vaka fyrir stjórninni að fá sem ódýrasta vinnu, heldur sem best starf.