26.03.1927
Efri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Eins og þskj. bera með sjer, skiftist álit fjhn. í þrent, þar eð nefndarmönnum kom ekki saman um, hvað gera skyldi við frv. Að því er snertir nál. eins hlutans, á þskj. 164, er ekki að svo komnu máli hægt að segja neitt um það. Þar stendur bara, að ekki sje þörf á lagasetningu um þetta mál.

Áður en jeg tala um álit okkar þriggja nefndarmanna, sem viljum samþykkja frv., ætla jeg lítillega að minnast á nefndarálit annars minni hlutans, á þskj. 137. Það byrjar á því, að háttv. þm. (JJ) talar um, hvað mörg föst embætti frv. skapi á varðskipunum tveimur. Það mátti vera honum og öllum ljóst, þegar afráðið var að gera út varðskipin, að ef stöður skipverja yrðu kallaðar embætti, yrðu þau auðvitað að fylgja með. Jeg get ekki sjeð, að það sje út af fyrir sig varhugavert, þó að svo sje gengið frá, að skipverjar sjeu festir með sjerstökum launalögum, því að það er vitanlegt, að hvað sem öðru líður, þyrfti altaf að manna skipin, ef áfram á að halda starfi landhelgisgæslunnar. Meiri hluti nefndarinnar getur heldur ekki fallist á þá skoðun, að ekki yrðu höfð mannaskifti, ef ástæða væri til, eins og annarsstaðar. En það er miklu öruggara, að þeir, sem á skipunum starfa, starfi fyrir lögfest laun eins og aðrir starfsmenn ríkisins.

Eins og aths. við frv. bera með sjer, eru þessi launalög sniðin eftir bráðabirgðareglum um laun skipverja frá 1. júlí síðastliðið ár, en þær bráðabirgðareglur eru sniðnar eftir þeim kjörum, sem mennirnir hafa áður búið við.

Jeg vil þá víkja dálítið að þeim ummælum hv. 1. landsk. (JJ) í nál. hans á þskj. 137, að hættulegt væri, ef á varðskipunum festust yfirmenn, sem ekki væru nógu óháðir íslenskum útgerðarmönnum. Vitaskuld er ekki hægt að segja annað en að það væri hættulegt og óæskilegt, ef til þess kæmi, en það er ekki nauðsynlegt að halda þessu fram í þingskjali, án nokkurs tilefnis. Mjer finst þessi framsetning ákaflega óviðkunnanleg, af því að það er eins og það liggi mikill uggur á bak við hjá hv. þm. um, að slíkt eigi sjer stað.

Mjer er heldur ekki kunnugt um, að útgerðarmenn hafi „með vinboðum og veislufagnaði“, eins og hv. 1. landsk. kemst að orði, gert nokkra tilraun til þess að hæna að sjer yfirmenn varðskipanna eða á nokkum hátt reynt að leggja neinar tálsnörur fyrir þá, og verð jeg þó að álíta, að jeg sje þessum mönnum kunnugri en hv. 1. landsk. Þetta hjal hans um veislur og vináttubönd er að mínu áliti grímuklædd en í fylsta máta óviðeigandi aðdróttun, sem óhætt er að segja, að eftir atvikum komi ekki þessu máli neitt við. Nú er hv. þm. um leið að fárast út af því, að í frv. stjórnarinnar er gert ráð fyrir, að núverandi skipherrar haldi þeim launum, sem þeir hafa áður haft. En þegar hv. þm. Í öðru orðinu er að gera ráð fyrir, að þeir muni með veislufagnaði verða háðir útgerðarmönnum hjer, er ekki vel hugsunarrjett að telja eftir, að þeir sjeu sæmilega launaðir.

Að skipstjórar og stýrimenn væru hjer ráðnir á sama hátt og á sjer stað hjá Eimskipafjelagi Íslands, álítur meiri hl. nefndarinnar ekki vera til bóta. Hv. þm. heldur því fram, að þá verði hægra að losna við þá, ef ástæða þætti til. Þetta er ein meinlokan enn hjá hv. þm., en alt þetta sýnir, að hv. þm., sem að öðru leyti er mjög vel greindur maður, hefir ekki gefið sjer tóm til þess að athuga eða kynna sjer þetta strandgæslustarf, áður en hann gerði tillögur um launakjör því viðvíkjandi.

Það hefir verið farið vel og giftusamlega af stað með landhelgisgæslu okkar og núverandi yfirmenn hafa reynst ágætlega, enda hafa valist í þær stöður valinkunnir sæmdarmenn, sem áreiðanlega ljetu sjer ekki detta í hug að gangast fyrir veisluboðum eða öðru tildri, hvort heldur væri hjá útgerðarmönnum í Reykjavík eða „rökkurstund“ með kaffiboði hjá hv. 1. landsk.

Við þetta má því bæta, að hv. þm. hleypur yfir það atriði, sem mestu skiftir. Það er sem sje ekki hægt að taka hvaða skipstjóra sem er til þess að stjórna varðskipum ríkisins. Þar er ekki heldur hægt að skifta um menn á sama hátt og á vöruflutningaskipum eða skipum Eimskipafjelagsins. Skipherra á varðskipi hefir fengið sjermentun í þeirri grein að hafa á hendi eftirlit með landhelgisgæslunni. Það er þess vegna svo, að þetta verður að vera þeirra lífsstarf, svo fremi að ekki komi eitthvað það fyrir, sem veldur því, að þeir missi stöður sínar eða láti af þeim. Þeir hafa mentun fram yfir aðra skipstjóra, þannig að þó að þeir geti stjórnað öðrum skipum, er hinsvegar ekki hægt að taka hvern venjulegan skipstjóra og gera hann að skipstjóra á varðskipi. Það eru ekki svo fáar greinir, sem þessir menn hafa lœrt og tekið próf í, umfram þær, sem skipstjórar venjulega læra, og jeg get, ef þörf krefur, látið háttv. dm. vita, hvaða greinir þetta eru. Þessi sjermentun útheimtir venjulega 12 mánaða nám. Ef til vill er ekki ástæða til þess að orðlengja um þetta atriði, enda getur svo farið, að jeg þurfi að koma að því síðar. Aðeins vil jeg benda hv. dm. á það, að sú reynsla, sem fengin er í eftirlits- og björgunarstarfsemi okkar, bendir ótvírætt í þá átt, að heppilegt sje að geta haldið hinum sömu mönnum við það starf yfir lengri tíma og að mjög sje óheppilegt og jafnvel skaðlegt, ef tíð mannaskifti ættu sjer stað. Þetta á þó einkum við um björgunarstarfsemina, sem að vísu er nátengd landhelgisgæslunni, enda er og verður það annað veifið hlutverk varðeimskipanna að skifta sjer af björgun. Jeg ætla að vænta þess, að í framtíðinni staðfestist sú reynsla, sem þegar er fengin, og að ríkið megi lengi njóta starfskrafta þeirra manna, sem unnið hafa á þessu sviði undanfarin ár. Jeg sje þess vegna ekki neitt við það að athuga, þó að þeir sjeu gerðir fastari í sessi með þeim launalögum, sem hjer liggja fyrir.

Í niðurlagi nál. síns kemur háttv. 1. landsk. inn á sparnaðartill. sína, sem hann kallar svo, að því er snertir háseta á skipunum. Það er vitanlega rjett h já hönum, að það mætti spara á þessum útgjaldalið, en þó einungis — eftir minni hyggju — með því að beita misrjetti. Mjer finst ekki, að það sje hægt fyrir okkur að taka eina einustu stjett manna — sjómannastjettina . — Út úr og skattleggja hana með þegnskylduvinnu, sem ekkert kæmi við aðra landsmenn. Það eru fleiri, sem líta svo á; það veit hv. þm. Svo að þessi sparnaður, sem hann talar um í frv., er alls ekki til í raun rjettri, fremur en ef maður hjeldi því fram sem sparnaði fyrir ríkissjóðinn að láta hvern og einn borgara þjóðfjelagsins vinna ríkinu kauplaust. Slík sparnaðardæmi er enginn vandi að búa til.

Jeg ætla þá lítillega að minnast á þær brtt., sem meiri hl. hefir komið með. Raunar eru þær ekki stórvægilegar, en eru fram komnar til þess að jafna ofurlítið á milli yfirmanna í vjelarúmi og á þilfari á skipinu. Okkur virtist, að kaup 2. og 3. stýrimanns væri í frv. ákveðið heldur lágt, sömuleiðis kaup fullgildra háseta. Komum við því með þessa brtt. á þskj. 118, sem jeg vona, að hv. deild geti fullist á. Auk þeirra, sem jeg nefndi, er skipherra, 1. stýrimaður og vjelamenn. Hjer er þá um að ræða þá af skipverjum, sem maður getur ímyndað sjer, að verði um lengri tíma á skipunum. Aðrir hásetar en fullgildir hásetar standa yfir höfuð miklu skemur við á þesskonar skipum og hjer er um að ræða. Breytingin miðar að því, að þeir, sem eru farnir að verða sem fullgildir hásetar á þessum skipum, sitji frekar kyrrir, ef þeir telja sjer fært kaupsins vegna og annars. Meiri hl. vildi gera tilraun til að gera kjör þessara manna þannig, að þeir gætu við þau unað.

Síðasta brtt. nefndarinnar fer fram á, að starfstími þeirra af skipverjum, sem áður voru að staðaldri í þjónustu á björgunarskipinu „Þór“, áður en hann varð eign ríkisins, sje talinn starfstími í þágu ríkisins. Sú till. virðist svo sanngjörn, að jeg álít ekki þörf að svo komnu máli að orðlengja mikið um hana, með því að jeg álít viðurkenningu fengna fyrir því hjá þinginu, að starfsemi björgunarfjelags Vestmannaeyja á undanförnum árum hafi verið spor í rjetta átt, enda hefir ríkið nú tekið að sjer að halda henni áfram ásamt vörslu landhelginnar, og hagar henni á sama hátt og áður var hjá björgunarfjelaginu. Þeim mönnum, er áður unnu að þessu hjá björgunarfjelaginu og halda nú áfram eftir að ríkið hefir tekið alt þetta að sjer, sje reiknaður sem þjónustualdur hjá ríkinu sá tími, er þeir unnu í þjónustu björgunarfjelags Vestmannaeyja.