26.03.1927
Efri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Það er meira af vilja en mætti, sem hv. þm. Vestm. (JJós) og jeg tökum þátt í þessum umræðum. En þar sem hann hefir þó treyst sjer til að halda nærri 3/4 stundar ræðu, þá neyðist jeg til að segja fáein orð, þótt kvefaður sje jeg eins og hann. Jeg held jeg geti fylgt hans ræðu að því leyti, sem hann tók í henni lið fyrir lið þann skoðanamismun, sem er milli okkar í þessu máli, og fylgdi nál. mínu.

Fyrst mótmælti hv. þm., að um föst embætti væri að ræða; en slíkt er ekki hægt. Frv. tekur þetta einmitt fram. Þó að það sje reynt að segja, að það þurfi þessa tölu af mönnum á skipin, þegar þeim er haldið út, þá er þess að gæta, að jeg hefi í minni till. komið með nýtt atriði, sem er þess eðlis, að spara má í framtíðinni mjög verulegan hluta útgerðarkostnaðar. Hv. frsm. meiri hl. ber ekki við að rökstyðja það, hvers vegna hann og ef til vill hans flokksbræður vilja loka möguleika til þess að koma við miklum sparnaði fyrir landssjóð. Því að það hlýtur hv. þm. að vera ljóst, að ef nú eru sett þau lög, að hásetar geti æfilangt verið fastir starfsmenn á skipunum, ef þeir vilja, þá er ekki auðvelt að losna við þá, fremur en aðra þaulsætna verkamenn ríkisins. Hinsvegar er það á ábyrgð þingmanna að binda þetta varanlega, og það er einmitt sú mikla yfirsjón, sem meiri hlutinn gerir sig hjer sekan um. Það myndi enginn hafa út á þetta að setja, þótt því skipulagi væri haldið, sem nú er, ef ekki væri verið að byrgja fyrir, að seinna meir, þegar fjárhagurinn kynni að vera erfiðari, væri hægt að koma við þessum sparnaði, sem ekki er óverulegur, nefnilega 80 þús. kr. á ári.

Viðvíkjandi skiftum á mönnum? þarna yfirleitt er að vísu gert ráð fyrir því í kenningunni, að það megi víkja þeim frá sem öðrum embættismönnum. En hv. þm. Vestm. (JJós) meðal annara hefir tekið það fram frá sínu sjónarmiði við atkvgr. í hv. deild fyrir skömmu, að það sje ekkert sjerstaklega vítavert, þótt skipstjórar sjeu ölvaðir að starfi, og þar af leiðandi með sínum fulla rjetti á skipinu þrátt fyrir slík vansmíð. Þetta segi jeg ekki í sambandi. við þessi skip, heldur af því að hv. þm. (JJós) er búinn að sýna með þessu, hvað það þarf ákaflega mikið til frá hans sjónarmiði, til þess að maður í slíkri stöðu skuli gerður rækur.

Þar næst kom hv. þm. að þeim kafla míns nál., þar sem jeg benti á almenna röksemd í þessu máli, án tillits til þeirra manna, sem nú eru eða kunna að vera á nokkrum ákveðnum tíma. — Hv. þm. gat sjeð gott dæmi með því að líta 900 ár aftur í tímann, þegar Ólafur helgi vildi fá Grímsey að gjöf, og ýmsir voru hlyntir því, en Einar Þveræingur, sagði, að sjálfsagt væri það ágætur konungur, sem bað um eyjuna, en ekki væri víst, að ætíð yrðu ágætir konungar í Noregi, og benti á óheppilegar afleiðingar fyrir Ísland, ef miður góður konungur rjeði þar ríkjum. Jeg býst við, að hv. þm. Vestm. hefði verið einn af þeim mönnum, sem hefðu sagt: Við skulum gefa þessum ágæta konungi eyjuna, hann er vinur okkar Íslendinga. En Íslendingar voru svona hyggnir í fornöld, að þeir gengu inn á þá röksemd, að tiltrúin yrði að miðast við skipulagið og það, sem heilbrigð skynsemi yfirleitt benti á, en ekki við augnabliks ágæti. Þess vegna vakir fyrir mjer sú almenna röksemd, sem ekki verður móti mælt.

Jeg hefi ekki nokkra löngun til þess að kasta skugga á þá menn, sem nú stýra þessum skipum, fremur en þá, sem þar kunna að verða í framtíðinni. Skoðun mín á þessu er bygð á samskonar varfærni og kom Einari á Þverá til að mæla móti að gefa part af Íslandi.

Það, sem liggur til grundvallar þessari skoðun minni, er sú nauðsyn, að skipstjórar á þessum skipum viti, að það sje hægt að skifta um, ef þeir standa í raun og veru ekki vel í stöðu sinni, þó að jafnvel sje ekki hægt að sanna á þá ákveðin formsbrot. Jeg lít nefnilega svo á, að hver embættismaður eigi ekki að vera í sinni stöðu fyrir sjálfan sig, heldur fyrir landið — fyrir heildina — og eigi því altaf að meta heildina meira en einstaklinginn.

Viðvíkjandi viðhorfi íslenskra útgerðarmanna til landvarnanna býst jeg við, að hv. þm. (JJós) vilji ekki gera lítið úr því, sem tveir af flokksbræðrum hans hjeldu fram á Alþingi. Þeir lýstu því yfir, að íslenskir togarar væru langsamlega verstir um brot á landhelgislögunum. Annar lýsti því með ákaflega sterkum orðum, hvað þessir menn væru ágengir gagnvart hagsmunum síns eigin lands. Hann var útgerðarmaður úr Hafnarfirði. Sannarlega höfðu þeir enga ástæðu til að vera hlutdrægir gagnvart útgerðinni. Þessi fulltrúi útgerðarinnar sagði hreint og beint, að loftskeytatæki hefðu verið sett í íslenska togara sjer í lagi til þess að hægt væri að stjórna lögbrotunum úr landi. Þessu hefir aldrei verið mótmælt, hvorki þá eða síðar, þó að hlutaðeigendur ýmsir hefðu gjarnan viljað þvo af þennan dökka blett.

Ef hv. þm. Vestm. vill halda fram, að þessi útgerðarmaður úr Hafnarfirði hafi þarna skrökvað á íslenska útgerðarmenn, að þeir skipuðu skipstjórunum í landhelgina, þá er það mál milli þeirra; en jeg segi fyrir mig, að jeg trúi ekki öðru en að þessi orð hafi verið sögð í fullri alvöru og eftir bestu sannfæringu. En ef menn trúa, að dómur þessa manns sje rjettur, þá er ekki nokkur vafi á, að það er ákaflega mikil freisting fyrir skipstjórana á öllum tímum að gæta ekki fylstu óhlutdrægni gagnvart sínum löndum, einkum ef þeir eru á einhvern hátt háðir útgerðarhagsmunum. Og jeg efast ekki um, að háttv. þm. er ljóst, að fyrir okkar unga sjálfstæði og fyrir álit okkar lands og landgæslu sje það nauðsynlegt, að ekki rísi neinn skynsamlegur grunur í augum útlendinga um það, að það sje gert upp á milli innlendra manna og útlendra í þessum efnum. En vitaskuld hafa útlend skip ekki á nokkurn hátt svipaða aðstöðu og íslensk til þess að vara yfirmenn sína við varðskipum. Þeir hafa engin þau sambönd við land, að þeir geti stjórnað lögbrotunum þaðan.

Jeg býst ekki við, að hv. þm. geti neitað því, að það þurfi sjerstaklega gott skipulag til þess að standast það, sem felst í þessari ásökun samlanda okkar. Jeg tel þetta, að sumir útgerðarmenn bjóða skipstjórum sínum að veiða í landhelgi, æðimikla líkindasönnun fyrir því, að það mundi ekkert vera til sparað frá hálfu þessara manna, ef nokkur minsta leið væri til þess að veikja afstöðu yfirmanna varðskipanna, meðan þessi hugsunarháttur ríkir hjá útgerðarmönnum. Þess vegna álít jeg ágætt og sjálfsagt að veita þeim það heilbrigða aðhald með því að hafa þá ekki fastráðna, — að þeir geti ekki haft ástæðu til að hvíla á þeim kodda værðarinnar, að ekki komi til mála að skifta um þá. Jeg skal taka það fram í þessu sambandi, að það var alls ekkert gert við lækninn, sem í fyrra eða hitteðfyrra gat ekki bundið um beinbrot í 12 tíma, af því að hann var fullur. Fólk veit, að það er erfitt að fá skift um starfsmann, þótt hann brjóti, ef hann er í föstu embætti. Menn vita, hvað það gengur illa að fá lagt niður algerlega óþarft embætti. Einn helsti vínsali hjer á landi er í læknisstöðu. Hann hefir verið margdæmdur fyrir stórkostlega vínsölu. Í stað þess að leggja embættið niður hefir hæstv. forsrh. (JÞ) og formaður Íhaldsflokksins beitt sjer fyrir því hjer á þingi, að laun hans væru hækkuð, af því að það væri rjettlætiskrafa. Það er erfitt í þessu landi að fá rjettlæti framfylgt, þegar æðstu menn landsins leggja sig í líma við að gera sjerstakar ráðstafanir til að eyða úr ríkissjóði handa mönnum, sem hafa orðið brotlegir við sitt starf og lög landsins. Þessa skýring, dóm þessara tveggja kunnugu íhaldsmanna um það, hvernig sótt er fram af sumum togaraeigendum móti lögum landsins, það tel jeg nægilegt til þess að rökstyðja það á öllum tímum gagnvart þeim mönnum, sem hlut eiga að máli, að það þurfi að veita þeim það aðhald, sem fæst með þessu.

Jeg skal taka undir með hv. þm. Vestm., að fyrir mjer vakir ekki nein löngun til þess að spara á kaupi þessara manna. Aðeins benti jeg á það ósamræmi hjá hæstv. stjórn, að hún telur þetta einskonar sparnaðarfrv., en samhliða því setur hún núverandi skipstjóra á hærri laun en hún ætlar þeim, sem á eftir koma. Nú spyr jeg hv. þm. Vestm.: Hvaða meining er að hugsa sjer, að maður muni þurfa alt að 1/3 hærri laun nú, til þess að vera óháður, heldur en nýr maður þyrfti eftir 1–2 ár? Þarf hann ekki líka að vera óháður? Þarf hann ekki að lifa? Jeg er gjarnan með því að borga sæmilega skipstjórum og stýrimönnum, aðeins ef maður gerir alt, sem er skynsamlega hægt að gera til þess að tryggja það, að þeir í nútíð og framtíð gætu leyst sitt vandasama starf vel af hendi. Jeg álít nauðsynlegt, að það sjeu á hverjum tíma á þessum skipum allra bestu og duglegustu mennirnir sem völ er á. Býst jeg við, að hv. þm. Vestm. verði mjer sammála um það. En ef maður játar það, þá verður maður líka að játa hitt, að það er ekki heppilegt að binda starfið þannig, að sami maður geti verið 40 ár í því. Meðan hann er ungur, er hann ef til vill sá besti, en svo geta komið aðrir, sem reynast ennþá betur. Það hefir vakið talsverða eftirtekt, að ungur maður, sem tekur við í fjarveru annars eldri skipstjóra, sýnir strax merkilega hæfileika til þess að fanga brotlega skipstjóra, fram yfir það, sem menn eiga að venjast af hálfu skipherra á útlendu varðskipunum. Og jeg minnist þess ekki, að eldri íslenskir yfirmenn hafi unnið önnur eins frægðarverk og þessi ungi maður. Jeg verð að segja það, að það er harla leiðinlegt, ef slíkur maður á allan sinn aldur að vera undirmaður án þess að geta fengið tækifæri til að beita sínum góðu hæfileikum, af því að valdið er fyrirfram skorðað hjá vissum mönnum. Auk þess eru laun stýrimanna svo lág, að freisting er fyrir afburðamenn að fara á önnur skip, sem bjóða betri kjör og meiri framavonir.

Mjer er svo farið, að jeg álít embættin ekki til vegna mannanna, sem í þeim sitja, heldur vegna þjóðarinnar, og því beri fyrst og fremst að gæta hagsmuna hennar.

Þá fór hv. þm. um það nokkrum orðum, að af því að þessir skipstjórar væru sjermentaðir, væri einsætt að hafa þá fasta. Annars gætum við átt á hœttu að missa þá og standa slyppir uppi. En reynslan segir annað. Í forföllum yfirmanns í fyrra kemur undirmaður, er virðist hinum fremri.

Hv. þm. mun vera kunnugt um, að skipstjóranum á Þór tókst að ljúka því sjerfræðilega prófi á mjög stuttum tíma. Þetta sýnir, að dugandi menn geta fengið mikla þekkingu á skipunum sjálfum. Ekki mun þurfa að kvíða mannleysi.

Jeg vil benda á, að hæstv. landsstjórn er frjálslyndari í þessum efnum en hv. þm. Vestm., því að hún leggur fyrir Nd. frv. um að taka próflausa menn og gefa þeim rjett til þess að stýra skipum. Það væri t. d. eftir því ekkert því til fyrirstöðu, að við, hv. þm. (JJós) og jeg, ef við bara erum nœgilega í náðinni hjá hæstv. stjórn, og það veit jeg að hv. þm. er, fáum einhvern góðan veðurdag leyfi annar til þess að stýra Brúarfossi, en hinn Gullfossi. Þetta er eðlilega illa sjeð af skipstjórum, enda lítil ástæða til, þar eð kunnugt er, að mörg hundruð manna eru hjer færir um að stýra skipum, en hafa ekki færi á að komast að sem slíkir. Það hefir jafnvel komið til orða, að þeir lærðu skipstjórar sigli öllum flotanum í höfn og eftirláti hann hinum ólærðu, ef stjórnin heldur áfram að troða á rjetti þeirra.

Þegar nú hæstv. stjórn er svona væg í kröfunum, þá er það ósamræmi að rígbinda menn æfilangt í þessar stöður, svo að jafnvel menn með fullkominn lærdóm komi ekki til greina.

Háttv. þm. Vestm. neitaði, að um kunningsskap gæti verið að ræða milli útgerðarmanna og skipstjóra á þessum skipum. Jeg vil benda honum á, að hann segist vera persónulega vel kunnugur skipherranum á Þór, og hann er líka útgerðarmaður. Þótt jeg segi þetta, þá er það engin „krítik“ á þeirra samband. Jeg bendi aðeins á, að hjer liggur fyrir sönnun innan þessarar hv. deildar fyrir því, sem hv. þm. neitar. Það má aldrei falla grunur á, að varðskipstjórar sjeu háðir útgerðarmönnum.

Nú er spurningin: lítur nú útgerðin svo á, ef brot sannast upp á skipstjóra, þá eigi að kasta honum? Svarið er skjallegt á prenti frá einum flokksbróður hv. þm. (JJós), sem stendur framarlega í togarafjelagi. Einn togari þess var tekinn í landhelgi og skipstjóri dæmdur sekur í hæstarjetti. En útgerðarmaðurinn lýsti því yfir, að skipstjórinn væri svo góður veiðimaður, að hann vildi ekki, að hann færi frá. Þetta sýnir, að hann tók ekki nærri sjer, að lögin væru brotin.

Hv. þm. endaði með því að óska, að ekki yrðu tíð mannaskifti á þessum skipum. Jeg geri ekki ráð fyrir, að þau yrðu tíð, þótt samningum væri háttað eins og hjá Eimskipafjelaginu, að segja megi upp starfinu. Það er ekki notað nema út af beri. Þeir, sem standa sæmilega í stöðu sinni, eða vel það, sitja. Hinir eru látnir fara. Þennan möguleika til að skifta um, ef stjórnin hefir ástæðu til að halda annan mann hæfari eða finnur veilur á framkvæmd laganna, vill hv. þm. nema burt.

Röksemdir hv. þm. fyrir því, að verið væri að beita stýrimannaefni misrjetti með því að láta þau vera á þessu skólaskipi, voru engar. Það er sagt út í loftið. Stýrimannaefnum er nú gert að skyldu að sigla 3 ár áður en þeir fá inntöku í skólann. Stundum er erfitt að fá slík skiprúm, og jeg þekki menn, sem farið hafa á erlend skip til þess að fá þá verklegu æfingu, sem krafist er. Hvers vegna er þeim gert þetta að skyldu? Til þess að búið sje að þrautreyna, að þeir menn, er til þessa starfa veljast, sjeu virkilega hæfir og kunni alla nauðsynlega vinnu á skipi, er þeir eru orðnir yfirmenn. Þessar kröfur eru hliðstæðar því, að ungur læknir verður að kosta sig við verklegt nám á fæðingarstofnun ekki óverulegan tíma eftir próf, áður en hann er talinn fullgildur.

Er það þá þegnskylduvinna? Nei. Aðeins nám, sem miðar að því að gera manninn hæfari sem lækni, bæði hans sjálfs vegna og þeirra, er eiga að njóta starfs hans síðar meir.

Slíkt hið sama er að segja um varðskipin sem skólaskip. Jeg álít. það mundi vera tilvinnandi fyrir skipstjóra og stýrimenn að hafa átt kost á skiprúmi þar. Því að maður getur altaf ætlast til, að meiri sjómenska og betri stjórn verði á þessum skipum heldur en á einhverjum og einhverjum dalli, þar sem engin er trygging fyrir neinu nema því að vera látinn vinna. Það er beinlínis móðgun að bera það fram, að ekkert sjerstakt sje hægt að læra á þessum skipum. Yfirmennirnir eru þá allsendis ófærir til síns starfs. Þeir háfa að baki sjer lengri námstíma en aðrir skipstjórar, og störfum þeirra er þannig háttað, að þeir gætu gefið sjer meiri tíma til að sinna lærlingunum. Lærður skipstjóri gæti komið við á slíku skipi ekki aðeins verklegri æfingu, heldur líka bóklegri fræðslu, ef vilji væri á að sinna slíku.

Enginn, sem lítur hlutlaust á málið, getur kallað þetta þegnskylduvinnu. Það er nám og vinna. Hliðstætt er dæmið um lækninn, sem gengur á fæðingarstofnun sjer til fullkomnunar í list sinni og gefur ekki aðeins vinnu sína, heldur líka kostar sig sjálfur.

Þessi tilhögun, sem jeg fer fram á, á því að geta gert mennina hæfari til starfs síns um leið og hún leiðir ef sjer 30 þús. kr. sparnað á ári samkvæmt útreikningum, sem ekki hafa verið vjefengdir. Jeg gæti vel gengið inn á, að yfirmenn fengju þau laun, sem. ráðgert er í frv., eða jafnvel hærri, ef þörf gerist, ef aðeins opnuðust möguleikar til þess að þingið gæti beitt þeim strangleik, er því ber.

Jeg hefi flutt dagskrártill. í þá átt, að frv. verði ekki afgreitt sem lög, af því það lokar öllum sundum í framtíðinni.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira að sinni, en vænti þess, að hv. þm. Vestm. sannfærist um, að dagskráin sje rjettmæt og óforsvaranlegt af þinginu, úr því sein komið er um skuldir landsins og útgjöld, að tvísýnt er að ríkissjóður rísi undir þeim til lengdar, að fara þá að binda eyðslu fasta, ekki aðeins nú, heldur og framvegis.