26.03.1927
Efri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg gat hvorugum nefndarhlutanum orðið samferða. Jeg get ekki fylgt hv. meiri hl., að samþykkja frv., því að margt er við það að athuga. Heldur ekki get jeg fallist á tilhögun þá, er hv. 1. landsk. (JJ) hugsar sjer, að gerð verði.

Jeg hefi þá ástæðu fyrir því að vera á móti till. hv. 1. landsk., að jeg álít óverjandi að taka menn og neyða þá til að vinna langan tíma fyrir ekkert.

Í þessu landi er það svo, að þótt kallaðir sjeu einhleypir menn, hafa þeir iðulega fyrir fjölskyldu að sjá, foreldrum og systkinum. Svo að ef farið væri að rannsaka, mundi það sýna sig, að ekki gætu nema sárfáir tekið þátt í þessu „námsskeiði“, nema skaða bæði sig og sína. Að fara að lögþvinga menn til slíks er óforsvaranlegt. Áður hefir verið feld till. í svipaða átt, sem sje þegnskylduvinnan. Þjóðin vill ekki sætta sig við að fara þá leið.

Jeg er á móti tilhögun hv. 1. landsk. og jeg er líka á móti dagskrártill. hans, þó að jeg geti samþykt að vísa frv. frá. Mín till. er sú, að frv. verði felt, af því að ekki er þörf á lögum um þetta. Hæstv. landsstjórn er ekki vandara að ráða starfsmenn á varðskipin en t. d. Eimskipafjelagsstjórninni á sín skip, eða eins og nú er á verslunarskip ríkisins. Af þeim ástæðum er ekki þörf á lagasetningu.

En það er um sjálft frv. að segja, að í því felst mikið misrjetti. Þar eru sett upp laun skipherra og ákveðin sem byrjunarlaun 500 kr. á mánuði, auk dýrtíðaruppbótar. En þau verða helmingi hærri hjá þeim núverandi skipstjórum. En jafnframt lækka laun skipverja meira en hjá stjettarbræðrum þeirra á verslunarskipunum samkvæmt þeim samningum, er Eimskipafjelagið hefir gert við háseta á skipum sínum. Með öðrum orðum: það, sem ríkisstjórnin ætlar að greiða, er í raun rjettri 100 kr. minna kaup á mánuði á varðskipunum heldur en á öðrum skipum ríkissjóðs.

En ef farið er að þrýsta laununum niður fyrir það, sem sanngjarnt er og alment er borgað, leiðir það til þess, að góðir og dugandi menn leita fyrir sjer annarsstaðar, og þótt ríkinu haldist á þeim í atvinnuleysinu, missir það af þeim jafnskjótt og rýmkast um hjá atvinnuvegunum. Það er til skaða, ef ekki er borgað svo hátt kaup, að sæmilegir menn fáist, því að þótt verið sje að hæla skipstjórunum, þá vel er gert, er þeirra þó ekki einna heiðurinn, heldur líka skipsmannanna, eins og í stríði, þá er sigurinn ekki herkænsku herforingjans eins að þakka, heldur líka vasklegri framgöngu liðsmannanna.

Hv. frsm. meiri hl. (JJós) hefir játað, að búast mætti við, að hásetar yrðu nokkuð lausir við á þessum skipum. En ekki nóg með það. Fullgildir hásetar geta ekki lifað og framfleytt fjölskyldu á þeim launum, er tilgreind eru í frv., og munu grípa fyrsta tækifæri, sem gefst, til að komast að öðru, ef haldið verður til streitu þeim launakjörum, sem hæstv. stjórn vill nú lögfesta. Það er líka gífurlegur munur, þegar kaupið er 100 kr. lægra á mánuði heldur en við aðra hliðstæða vinnu. Jeg get ekki láð þeim, að þeir vilji losa sig, ef nokkur tök eru á og völ á öðrum betri kjörum annarsstaðar.

Eimskipafjelag Íslands reynir yfirleitt að halda góðum mönnum, til þess að tryggja sjer gott starf, og borgar þeim því sæmilega.

Hv. frsm. meiri hl. talaði mikið um lærdóm og þekkingu þessara skipstjóra, sem nú stýra varðskipunum. Jeg held, að ýmsir fleiri sjeu færir til þess að gegna þessu starfi, og því ekki ástæða til að greiða þeim tiltölulega miklu hærra kaup en öðrum. Jeg ímynda mjer, að ýmsir togaraskipstjórar væru alveg eins færir um að taka að sjer stjórn þessara skipa eins og núverandi skipstjórar. Jeg get ekki skilið, að það sje sjerstaklega nauðsynlegur undirbúningur undir þetta starf að hafa verið dáti í liði Dana. Jeg held, að það væri engu síður mikilsvert að fá vana sjómenn í þessar stöður, sem þektu vel til togaraútgerðarinnar og vissu, hvenær togaranna er helst von í landhelgi.

Háttv. frsm. meiri hl. (JJós) var mjög reiður yfir því, sem einhversstaðar hefir komið fram og er víst drepið á í nál. hv. 1. landsk. (JJ), að hætta gæti stafað af vináttuböndum milli útgerðarmanna og yfirmanna á varðskipunum. Jeg er nú ekkert sjerstaklega hræddur um, að útgerðarmenn dragi þessa menn til sín með vinboðum og veislufagnaði, en jeg er samt ekki viss um, að skipstjórarnir reynist nógu sterkir á svellinu til að standast að fullu áhrif þessara voldugri manna og sýni nægilega árvekni í að verja strendur landsins. Það er ekki langt síðan kvartað var yfir ágengni 30–40 togara í landhelgi við Snæfellsnes, og eins og vant er, var talið, að Ísl. togararnir væru Verstir. Óðinn heldur þegar vestur. En þegar þangað kemur, eru allir togararnir horfnir, eins og þeir vissu nákvæmlega, hvers var von. En jafnskjótt og skipið snýr við til Reykjavíkur, koma þeir aftur í landhelgina í einni þvögu. Jeg segi ekki, að ákjósanlegast sje, að varðskipin taki sem flesta togara og dragi þá fyrir lög og dóm. En þeim má ekki farast mjög klaufalega að verja landhelgina fyrir ágengni togaranna, og það er alveg óþarfi að taka það illa upp, þó að ísl. varðskipin sjeu „kritiseruð“ eins og þau dönsku. Það hefir verið fundið mjög mikið að strandvörnum dönsku varðskipanna og þeim brugðið um sinnuleysi í starfi sínu. En þeim hefir aldrei verið borið það á brýn, að þau ljetu íslensku togarana sleppa, ef þau á annað borð hittu þá í landhelgi. En á þá leið var talað um núverandi skipstjóra á Óðni, meðan hann var á Þór.

Frá mínu sjónarmiði er enganveginn æskilegt að festa þessa menn í embættunum og borga þeim hærri laun en þörf er á, og það á kostnað hásetanna. En þetta er einmitt ósvikin íhaldsskoðun, að vilja launa fáeina menn hátt til þess að þeir geti kúgað aðra með lágum launum. Það er rjett hjá hv. 1. landsk., að í þessum lögum er ekki gert ráð fyrir, að skipstjórum megi segja upp, en það er gert ráð fyrir því í öðru frv., sem fyrir þinginu liggur. En það er ekki víst, að það frv. verði að lögum, þó að þetta verði samþykt, enda væri viðkunnanlegra, að um þetta væri ákvæði í því frv., sem fjallar um launakjör skipstjóranna. Um hina óæðri starfsmenn er ráðh. falið að gera ákvæði um kaup, er gildi til eins árs. Það eru nefndir „viðvaningar, óvaningar og vikadrengir“. Þetta er nú býsna skrítin upptalning og líkast því, að viðvaningar og óvaningar hafi samið frv. — Nú á stjórn ríkisins að hafa yfirumsjón á varðskipunum, þ. e. a. s., hún lætur einhvern skrifstofustjóra úr stjórnarráðinu hafa þetta eftirlit á hendi, en undir honum verður svo auðvitað einhver launaður starfsmaður. Væri nú ekki eðlilegra að fela Eimskipafjelaginu að sjá um þessa útgerð að því er snertir beinan rekstur skipanna, mannaráðningu og annað, sem ekki kemur undir skipstjóra. Jeg geri ekkert úr þeirri mótbáru, að þetta verði dýrara hjá Eimskipafjelaginu. Það verður ekki gert fyrir ekki neitt í stjórnarráðinu heldur. En það er nú svo um starfsmenn stjórnarráðsins, að þeim eru borguð fölsk laun. Aðalstarf þeirra er illa launað, en gert ráð fyrir, að þeir geti fengið svo og svo mikið af bitlingum, borgun fyrir endurskoðun og ýmislegt þess háttar. Jeg held, að betra væri að taka hinn upp, launa þeim sæmilega störf þeirra, svo að þeir gætu haldið sjer við þau og sýnt væri, hvað þeim er greitt í raun og veru, en ekki fara þessar krókaleiðir með uppbætur handa þeim, enda fá þeir venjulega helst uppbætur, sem best eru launaðir fyrir.

Jeg skal svo ljúka máli mínu með þeirri ósk, að hv. deild þóknist að fella þetta frv. Að vísu kynni jeg að geta fallist á, að yfirmenn skipanna væru settir í launaflokk, þótt jeg á hinn bóginn telji það alveg óþarft. Helst gæti það þó komið til mála. En það er ekkert vit í hinu, að setja hásetana í launaflokk, aðeins til þess að hafa af þeim nokkrar krónur.