26.03.1927
Efri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Það er að sumu leyti búið að taka af mjer ómakið að svara þessum tveimur hv. andmælendum frv., og þó einkum andmælum háttv. 1. landsk. (JJ), sem byggjast á því, að hjer mætti spara 30 þús. kr. með því að skylda nemendur stýrimannaskólans til þess að vinna kauplaust á varðskipunum. Við skýringu hæstv. forsrh. (JÞ) mætti bæta því, að þótt launin sjeu ákveðin með lögum, er ekki loku fyrir það skotið, að breyta megi þeim síðar, ef hv. 1. landsk. eða aðrir sjá sjer fært að flytja stýrimannaskólann um borð í varðskipin. Þetta atriði kæmi þá til athugunar, ef slík fyrirkomulagsbreyting á stýrimannaskólanum þætti tiltækileg. Það er því fjarstæða, að hjer sje verið að binda einhvern hnút, sem ekki sje hægt að leysa. Jeg veit ekki, hve oft síðan jeg kom á þing hv. 1. landsk. hefir vitnað hjer í orð tveggja útgerðarmanna úr Íhaldsflokknum, um það, að loftskeytatæki væru sett í togarana til þess að hægra væri að stjórna þeim við landhelgisveiðar. En auk þess hefir hann ótal sinnum mint á það í blaði sínu, svo að jeg hefði munað það, þó að hann hefði ekki endurtekið það hjer nú. Það skiftir nú raunar ekki miklu, hvort það eru íhaldsmenn eða framsóknarmenn eða jafnaðarmenn, sem segja eitt eða annað í þessa átt. En það má víst benda á margt annað gagnlegt, sem af loftskeytatækjunum leiðir, en það, að þau hjálpi togurunum til að veiða í landhelgi, þó að jeg fullyrði ekkert um nema einhver kunni að nota þau í því skyni. Jeg hefi aldrei verið við stjórn togaraútgerðar riðinn og hygg, að við sjeum báðir jafnókunnugir á því sviði, hv. 1. landsk. og jeg. En loftskeytin hafa oft komið að gagni þeim, sem enga togara eiga. Það hefir þráfaldlega verið hægt að ná í togara til að bjarga bátum aðeins af því að þeir höfðu loftskeytatæki. Í fyrra framkvæmdu togarar úr Reykjavík stórfelda björgun á bátum frá Stokkseyri. Það væri holt fyrir hv. 1. landsk. að hafa slík dæmi í huga, þegar hann er að leggja niður fyrir sjer, að þessi tæki sjeu eingöngu notuð til þess að greiða fyrir veiðum í landhelgi. Þessir háttv. andmælendur mínir (JJ, JBald), samherjarnir í þessari háttv. deild, virðast báðir haldnir af óvilja gegn útgerðarmönnum og hættir því jafnan til þess að ala í brjósti tortrygni gagnvart þeim. Það kemur altaf fram, ef mál er rætt, sem snertir útgerðarmenn hjer í Reykjavík eða annarsstaðar á landinu. Mjer finst það mjög óviðeigandi, því að jeg er kunnugur útgerðarmönnum bæði hjer á landi og sumstaðar annarsstaðar í Norðurálfunni og veit nokkuð um það, hvernig þeir koma fram gagnvart þeim, sem hjá þeim vinna. Og það er víst, að íslenskir útgerðarmenn standa síst að baki stjettarbræðrum sínum erlendis í umhyggju fyrir þeim, sem hjá þeim vinna. Og það mun vart dæmi meðal útgerðarmanna hjer nærlendis um jafnmikinn drengskap til að hjálpa meðbræðrum sínum og útgerðarmenn hjer sýndu með togaraleitinni miklu hjer um árið.

Þessi einstaka umhyggja, sem hv. 5. landsk. ber fyrir því, að íslensku varðskipin hremmi helst íslenska togara, held jeg að sje af þeim rótum runnin, að honum sje ósárt um það, þó að þeir fái skell. Hv. þm. sagði, að það væri viðkvæmt mál fyrir mjer, þegar talað væri um skipherrana á varðskipunum. Þetta er rjett hjá þessum hv. þm. Mjer er það altaf viðkvæmt mál, þegar jeg heyri drengskaparmönnum, sem jeg hefi þekt í fleiri ár, hallmælt af óhlutvöndum mönnum, þó aldrei nema þingmenn sjeu. Þetta má hv. þm. hafa eftir mjer.

Hv. 1. landsk. var að tala um ásókn útgerðarmanna og gaf í skyn, að útgerðarmenn ásæktu skipherra varðskipanna. Þessu neita jeg harðlega og skora á hv. 1. landsk. að færa sönnur á þetta með ljósum dæmum, ef hann getur, ella standi hann ómerkur þessara orða sinna. Hitt er jeg honum alveg samdóma um, að það sje nauðsynlegt fyrir Ísland og sjálfstæði þess, að enginn blettur falli á starfsemi þessara löggœslumanna okkar á hafinu. En þeir verða aldrei varðveittir frá slíkum tortrygnisgetsökum, sem menn eins og hv. 5. landsk. er altaf með í garð þeirra, hversu vandaðir sem þeir eru.

Skipherrar varðskipanna koma til með að standa undir lögum um varðeimskip ríkisins og sýslunarmenn á þeim, sem jeg vænti að verði samþykt á þessu þingi. Verður þá stjórnarinnar að hafa eftirlit með því, hvernig þeir standa í stöðu sinni, og álít jeg slíkt eftirlit best komið þar. Og jeg lít svo á, að best sje, að menn þessir sjeu fastráðnir samkvæmt lögum þar að lútandi og hafi aðhald hjá stjórninni, og sje henni ekki trúandi til að sjá fyrir sæmilegu aðhaldi, þá veit jeg ekki, hverjum ætti betur að vera trúandi fyrir því.

Í byrjun ræðu sinnar var háttv. 1. landsk. að tala um, að jeg vildi líða bæði drukna og ónýta embættismenn. Þessu hefi jeg svarað áður. Jeg veit, að í núgildandi lögum eru viðurlög við því að vera drukkinn á almannafæri, og sömuleiðis eru viðurlög við embættisafglöpum; þess vegna skoðaði jeg þetta ölvunarfrumvarp hans eins og hverja aðra árás á einstaka menn. Og jeg vildi síst verða til þess að fá honum og hans nótum það vopn í hendurnar, sem þeir gætu notað til þess að elta með einstöku andstæðinga sína, eins og dæmi eru til með aðstoðarlækninn á Ísafirði. Hann varð fyrir aðkasti þessara manna, en var sýknaður með dómi. Nei, þessum herrum eru síst fáandi í hendur þau vopn, sem þeir geta auðveldlega misbeitt til þess að skaða aðra.

Það er aldrei nema satt, að maður sá, sem var skipherra á Þór um tíma í fyrra, reyndist mjög vel. En að ekki hafi verið forsvaranlegt að láta hann hætta þegar hinn reglulegi skipherra kom, get jeg ekki fallist á. Hann hafði ekki þá sjermentun, sem þessir menn þurfa að hafa. (JJ: Sjermentunin er þá til bölvunar, úr því að hinir ná fleiri togurum). Hvað sem háttv. 1. landsk. segir um þessa sjermentun, þá er hún samt nauðsynleg, því að það er óneitanlega varasamt að hafa ósjermentaða menn með vopnuð skip úti á hafi, enda mundu aðrar þjóðir ekki þola okkur til lengdar að hafa varðskipin mönnuð öðruvísi en gerist annarsstaðar.

Þá voru þeir báðir, hv. 1. landsk. og hv. 5. landsk., að tala um, að þeir álitu það til lítilla bóta fyrir varðskipsformennina, þó að þeir hefðu verið „dátar“ í sjóliði Dana. Þetta hefir kannske átt að vera spaug hjá hv. þm., en þess ber að gæta, að allir yfirmenn hjá þeim þjóðum, sem annars ala upp „dáta“, hvort heldur er í sjóliðinu eða landhernum, hafa verið “dátar“ fyrst. En þessir menn, sem hjer um ræðir, eru meira en „dátar“. Þeir hafa tekið „reserve“-lautinantspróf, en slík próf eru talin nauðsynleg fyrir skipstjóra á vopnuðum varðskipum.

Það vill nú svo vel til, að jeg get upplýst fyrir hv. 1. og 5. landsk., í hverju þessir menn hafa tekið próf fram yfir venjulega skipstjóra, en jeg verð að nota útlend nöfn yfir þær fræðigreinar, því að jeg þekki ekki íslensk heiti á þeim. Það, sem því þeir hafa lært, er:

1. Teoretisk Artilleri.

2. Aktiv Söminelære.

3. Passiv Söminelære.

4. Elektroteknik.

5. Tjenestekendskab og Rapportstil.

6. Undervandsbaadsvæsen.

7. Flyvevæsen.

8. Sökrigshistorie & Taktik.

9. Retslære.

10. Radiotelegrafi.

11. Militær Uddannelse.

12. Signalering.

13. Legemsövelser.

14. Fartöjsövelser.

15. Orden med skriftlige Arbejder.

Þetta er nú ef til vill ekki þungt á metunum hjá þessum hv. þm., en jeg vildi geta þessa hjer, til þess að það sæist, að hjer er um sjermentun að ræða, er togaraskipstjórar hafa ekki, og skipstjórar okkar á millilandaskipum ekki heldur. Það er því hreinasti misskilningur hjá hv. 5. landsk., að hægt sje að taka óbreytta togaraskipstjóra til þess að fara með þessi skip. Að vísu gætu þeir stýrt þeim eins og hverju öðru skipi, en hinu íslenska ríki myndi ekki lengi haldast það uppi að halda úti varðskipum á þann hátt. Nei, því verður ekki neitað, að það útheimtist fleira til þess að stýra varðskipi en togara.

Þá var hv. 5. landsk. með dylgjur um skipstjórann á Óðni og nefndi Ólafsvík í því sambandi. Það hefir nú gengið svo síðan fyrst að landhelgisgæsla hófst hjer við land, að menn hafa verið misjafnlega ánægðir með hana. En það er einkum síðan Íslendingar byrjuðu sjálfir að hafa gæsluna á hendi, að vissir menn hjer í höfuðstaðnum hlaupa eftir hvaða söguburði sem til fellur, ef með honum er hægt að varpa einhverjum skugga á varðskipsforingjana íslensku.

Jeg get ekki fallist á, að Eimskipafjelagið sjái um útgerð þessara skipa. Jeg verð að telja hyggilegast, að þeim sje stjórnað beint frá stjórnarráðinu, því eins og kunnugt er, má ekkert vitnast um hreyfingar skipanna; er því óheppilegt, að fregnir um þau nái út til almennings.

Út af því, sem hv. 1. landsk. sagði um skipherrastöðumar á varðskipunum, að best myndi að gera þær ekki að föstum embættum, vil jeg spyrja hann, hvort hann haldi, að það verði til bóta fyrir landhelgisgæsluna, ef varðskipin skyldu verða látin hætta í bili sökum einhverra örðugleika, að skipstjórarnir færu þá t. d. að fá sjer vinnu á togurunum á milli.

Jeg held, að slíkt mætti ekki koma fyrir, og öruggasta ráðið sje því að fara þá leið, sem farin er í frv.

Jeg man nú ekki eftir fleiru, sem jeg þarf að segja þeim samherjunum í bili, en jeg mun ekki telja eftir mjer að standa upp aftur, ef ástæða gefst til.