26.03.1927
Efri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Halldór Steinsson:

Þó að jeg sje ekki beinlínis mótfallinn frv. þessu, þá verð jeg að segja, að jeg tel það þýðingarlítið. Aðaltilgangurinn með því mun vera sá, að tryggja það, að á skipum þessum sje góð stjórn, svo að landhelgisgæslan fari sem best úr hendi. En jeg fæ ekki sjeð, að úr þeim göllum, sem á henni hafa verið, verði bætt með frv. þessu.

Jeg get að mörgu leyti tekið undir með háttv. 1. landsk. (JJ), að full ástæða sje til þess að heimta, að landhelgisgæslunni verði komið í betra horf en verið hefir, því eins og hún hefir verið, er ekkert undarlegt, þó að fram komi óánægjuraddir um það, hvernig hún er framkvæmd.

Reynslan hefir orðið sú, að enda þótt þrjú skip hafi átt að annast landhelgisgæsluna, þá hefir hún verið algerlega ónóg. Jeg er ekki þar með að segja, að skipstjórar skipanna háfi ekki gert skyldu sína, heldur hitt, að árangurinn af starfi þeirra hafi ekki nálægt því komið að fullum notum, og sem dæmi þess má geta, að frá því um nýár hefir altaf verið heill floti togara — 20–30 skip — óáreittur á norðanverðum Faxaflóa og sunnarlega á Breiðafirði. Í janúarmánuði mátti heita, að þetta svæði væri gæslulaust. Að vísu voru þá sjerstakar ástæður fyrir hendi með varðskipin. Óðinn var í Kaupmannahöfn til aðgerðar, Fálkinn í lamasessi hjer í Reykjavík og Þór að búa sig út fyrir vertíðina í Vestmannaeyjum. En síðan hafa bæði skipin Fylla og Óðinn skroppið þarna vestur til þess að líta eftir, en enginn sýnilegur árangur hefir orðið af þeirri gæslu, því að ekkert skip hefir verið kært, en það er margsannanlegt, að fjöldi þessara togara hefir verið fyrir innan landhelgislínu á þessum tíma. Það er því ekki að ófyrirsynju, þó að fram komi kröfur um betra eftirlit með landhelgisgæslunni en verið hefir, og jeg leyfi mjer að skora á stjórnina að hafa stöðugt eftirlit með starfsemi varðskipanna, svo að betri árangur verði af gæslunni hjer eftir en hingað til.