28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2211 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil benda á, að forstjórn skipanna í landi er nú að mestu leyti eins hagað og háttv. 4. landsk. (MK) taldi æskilegast. Útgerð þeirra annast sami maður og sjer um öryggi skipa og skipaskrárnar.

Háttv. þm. fór ekkert fram á það, að sjálft ákvörðunarvaldið yfir ferðum skipanna væri í höndum þessa manns, enda er það best komið þar, sem það er nú, í höndum skrifstofustjórans í dómsmálaráðuneytinu. En þar sem þessi háttv. þm. taldi æskilegt, að þessum skipastól fjölgaði, þá er það ein ástæðan enn fyrir Alþingi til þess að setja lög þau, sem hjer eru til umræðu, og ákveða þar með laun þessara manna, en fá ekki stjórninni í hendur að ákveða þau í hverju einstöku tilfelli.