28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. annars minni hl. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefir verið skýrt hjer í hv. deild, en jeg geri ráð fyrir, að það eigi eftir að skýrast betur. Hv. frsm. meiri hl. (JJós) og hæstv. forsrh. (JÞ) komu ekkert inn á aðalatriði málsins, en töluðu mest um aukaatriði þess. Jeg ætla mjer að gera að umtalsefni galla þá, sem jeg álít, að á þessu frv. sjeu — og geri það aðallega til þess að halda umr. í fastri rás þar til að atkvgr. kemur.

Við 1. gr. frv. er það að athuga, að laun skipherra í framtíðinni eru ákveðin miklu lægri en laun núverandi skipstjóra. Af þessu leiðir það, að ef skipstjórinn á öðru skipinu fellur frá og 1. stýrimaður á öðruhvoru skipinu tekur við skipstjórn í hans stað, þá kemur hann til með að hafa nálega helmingi lægri laun sem skipstjóri en starfsbróðir hans á hinu skipinu. Skipstjórar þeir, sem nú eru á varðskipunum, hafa nú 1000 kr. á mánuði, eða 12000 kr. á ári, en hinum nýju skipstjórum er ætlað samkv. frv. að hafa 6000 kr. byrjunarlaun á ári. Er því ljóst, að hjer er um hið mesta ranglæti að ræða um launakjör þessara manna. Ef rjett er að láta þá skipstjóra, sem nú eru, hafa þessar 12 þús. kr., þá ætti það alveg eins að vera rjett að greiða hinum nýju skipstjórum þau laun. — Þegar litið er á laun stýrimanna, þá verður ekki annað sagt en að þau sjeu of lág borið saman við laun skipstjóra. Jeg skal geta þess, að í þessum stöðum eru nú 2 mjög duglegir menn, og hefir að minsta kosti annar þeirra getið sjer frægðarorð fyrir dugnað sinn í þessari stöðu. En vegna þess, hve mikill munur er gerður á launakjörum þessara manna og skipstjóranna, þá er hætta á því, að landið missi þessa duglegu menn úr þjónustu sinni. Jeg vildi í þessu sambandi beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., hvort það máske sje meining hans, að frv. það, sem hjer er um að ræða, eigi að gilda um þessa 2 menn, t. d. þann manninn, sem tók svo marga togara í fyrra, er hann gegndi skipstjórastörfum í forföllum skipstjórans á öðru varðskipinu, eða hvort þeir eigi að halda þeim launum, sem þeir hafa nú. Jeg vil spyrja hæstv. ráðh., hvort skipstjóranum, sem var á Þór í fyrra og sem tók svo marga togara að ólöglegum veiðum, að slíkt hefir ekki verið gert fyr eða síðar, — jeg vil spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort þessum manni hafi verið nokkur sómi sýndur fyrir það afrek sitt, hvort hann hafi verið „krossaður“ eða hafi fengið nokkur heiðurslaun, þó að jeg lýsi því yfir, að jeg legg ekki mikið upp úr slíku. Og jeg vil biðja hæstv. ráðh. að skýra frá því, hve marga tugi þúsunda landið hefir fengið fyrir dugnað þessa manns. Og jeg vil spyrja hæstv. ráðh., hvernig það lítur út að bera saman þann togarafjölda, sem Fylla hefir tekið og varðskipið Óðinn á jafnlöngum tíma og þessi maður var skipstjóri á Þór. Það er mest hætta á því, að ríkið missi duglegustu mennina, ef þeir eru ekki vel launaðir. Jeg álít það sjálfsagt að greiða vel duglegum mönnum í landsins þjónustu, en lítið þeim, sem óduglegir eru, en hæstv. ráðh. virðist hugsa gagnstætt um málið.

Þá vil jeg minnast á laun háseta og kyndara. Er jeg þar á gagnstæðri skoðun við hv. 5. landsk. (JBald), er heldur því fram, að kaup háseta sje of lágt. Yfirkyndarar hafa eftir frv. að byrjunarlaunum 2100 kr. á ári, og eru það betri launakjör en sveitaprestar njóta eftir 10–12 ára nám. Miðað við þann tilkostnað, sem þessir menn hafa við það að búa sig undir starfið, þá verð jeg að játa það, að hæstv. stjórn hefir verið í fylsta máta rífleg, er hún ákvað þessi laun. Ef prestarnir væru jafnfíknir í há laun og læknarnir sýndu 1919, að þeir voru, þegar þeim með samtökum tókst að pína landið til þess að hækka launin, sem þó voru sæmilega há — og á jeg þar ekki hvað síst við spítalalæknana, sem hafa þreföld ráðherralaun — þá mundi þeim vafalaust takast að bæta kjör sín. Jeg vil leyfa mjer að beina athygli hæstv. landsstjórnar að því, að það að ákveða til frambúðar laun þessara manna nú á þessum tímum hruns alls verðmætis og kaups, og þar með að festa þessa menn um ófyrirsjáanlegan tíma, — það er hin mesta eyðsla á fje landsins. Nú hefir t. d. húsaleigan hjer í bæ lækkað að miklum mun, en hún hefir hingað til verið stór liður í útgjöldum manna hjer. En þó er nú með frv. þessu verið að festa laun þessara manna — með öðrum orðum að festa eyðsluna. Það er alveg ástæðulaust að láta kyndara hafa jafnhá laun undirbúningslaust eins og menn, sem varið hafa 10–12 árum æfi sinnar til þess eins að undirbúa sig undir starf sitt. Frv. er því óheppilegt að því leyti, sem það bindur launin og ákveður þau hærri en ástæða er til. Auk þess er það misrjetti í frv., að skipstjórar þeir, sem verða kunna í framtíðinni á varðskipunum, skuli verða að búa við langtum lægri launakjör en þeir skipstjórar, sem nú eru, en stýrimönnum er haldið niðri í launum og landinu með því gert erfitt um að halda þeim í þjónustu sinni. Við þetta bætist svo, að það á að svifta mennina, sem á skipunum vinna, þeirri vernd, sem sjólögin veita, með því að ofurselja þá dutlungum yfirmanna sinna.

Þá hefi jeg ekki frá andstæðingum mínum heyrt nein rök gegn því, sem jeg hefi haldið fram, að það væri óhófleg eyðsla að kasta burtu 30 þús. kr. árlega með því að amast við því, að stýrimannaskólanemendur geti verið við verklegt nám á þessum skipum. Aðsókn að stýrimannaskólanum er nú svo mikil, að þó að menn þyrftu að vera 1–11/2 ár við verklegt nám, þá myndu þeir sækja hann engu að síður, vegna þess hve launin eru há á eftir. — Það sjer ekki á, að hv. þm. sjeu íhaldssamir um fjárhag landsins, þegar þeir mótmæla dagskrá, sem fer fram á það, að landið spari þennan álitlega skilding. Þegar jeg þannig hefi rifjað upp fyrir hv. þm., hversu ómöguleg afstaða hæstv. stjórnar er til þessa máls, þá vildi jeg minnast á nokkur atriði, sem komu fram í umr.

Jeg mintist á það í gær, er mál þetta var til umræðu, að það væri óheppilegt að binda mennina svo við skipin eins og gert væri með þessu frv., því að þeir gætu sljóvgast í starfrækslu sinni, meðal annars vegna þess að þeir eignuðust vini meðal þeirra, sem þeir væru settir til höfuðs, en að þá væri illmögulegt að setja þá frá nema fyrir því meiri sakir. En að þetta geti komið fyrir, sýnir best það, sem minst hefir verið á hjer í hv. deild, að 20 íslenskir togarar hafa verið að veiðum í landhelgi á einhverju besta hrygningarsvæðinu við landið, án þess að þeir hafi verið teknir, enda þótt varðskipið sæi þá. En úr því að deyfðin er svona mikil nú á meðan mennirnir eru nýir í starfi sínu, — hversu mikil ástæða er ekki til að ætla, að verra verði þegar mennirnir eru farnir að þreytast, t. d. eftir 20 ár eða svo? Annars skal jeg geta þess, að það er yfirleitt ákaflega erfitt að fá embættismenn afsetta hjer á þessu landi, enda þótt þeir hafi brotið margt og mikið í embættisstarfi sínu. En ef yfirmennirnir eru daufir, því nauðsynlegra er það, að undirmennirnir sjeu tápmiklir. Jeg vil taka það fram, að þó að jeg hafi stundum vikið að afbrotum viðvíkjandi ofdrykkju, þá er það ekki af því, að ekki sje hægt að grípa á veikum kýlum hjá embættismönnum á fleiri sviðum. En þetta er oft mest áberandi og auðveldast að sanna, t. d. þegar læknir liggur dauðadrukkinn heima hjá sjer í 12 tíma og getur ekki bundið um beinbrot sjúklings, eða þegar trúnaðarmaður landsins erlendis drekkur frá sjer ráð og rænu, svo að það verður að síðustu að taka hann og leggja inn á spítala. Þessi spilling er meira áberandi en sum önnur missmíði, sem geta þó í sjálfu sjer verið hættulegri. Jeg hefi leitt rök að því, hve misnotkun á áfengi hjá embættismönnum getur verið hættuleg, og borið fram frv., sem átti að afstýra henni, en það ljet hæstv. ráðh. flokksmenn sína drepa. Þetta hefir orðið til þess, að hæstv. ráðh. hefir fengið þá skökku hugmynd, að jeg sjái enga aðra spillingu hjá embættismönnum en áfengisspillinguna. En hún er ekki nema lítill liður spillingarinnar. Spillingin er á svo miklu fleiri sviðum. Með frv. því, sem hjer um ræðir, er verið að auka möguleikana fyrir henni í framtíðinni, með því að búa svo um, að skipunum verði þannig stjórnað, að ekki sje full trygging fyrir því, að landhelginnar verði sem best gætt. Það væri síst glæsilegri saga, ef farið væri að rekja það, hvernig miljónirnar hafa farið, sem ráðlausir menn hafa svindlað burt, og nú er verið að reyna að fylla í skörðin með lántöku á lántöku ofan. Í hinu viðurkenda málgagni stjórnarinnar var í fyrra talað um það sem hreinustu dygð og sjerlega áþreifanlegt dæmi um sanna föðurlandsást, er lagt var til að koma landinu undir erlent vald. Hæsta spilling, sem þekkist í siðferðislegum efnum, kemur fram í einni bók, sem nú er að koma út og mun vera svívirðilegasta bók, sem prentuð hefir verið á Íslandi. En þessari bók er hælt með sterkum orðum í blaði því, sem stjórnin viðurkennir sem málgagn sitt. Þetta mun líklega vera gert eftir skipun, því að það mun vera siður í því blaði að birta fatt nema eftir beinni skipun að ofan. Áfengisspillinguna hefi jeg nefnt hjer sem eitt dæmi, sjerstaklega vegna þess, að núverandi stjórn og blöð hennar hafa lofað svo miklu í bindindismálinu, að sjerstaklega mikils er vænst af henni í því efni.

Þá skal jeg minnast nokkuð á ræðu hv. þm. Vestm. (JJós). Af því að jeg hefi reynt að feta í fótspor hæstv. atvrh. (MG), sem átti verulegan þátt í að koma fram frv. um drukna bílstjóra, með því að láta slík lög ná yfir fleiri starfsmenn, þá segir hv. þm., að þetta geri jeg til þess að geta kastað aur á vissa menn, hella mjer yfir þá og koma með aðdróttanir í þeirra garð. Menn skyldu ætla, að jeg hefði farið fram á, að saklausir menn skyldu lagðir í einelti. Nei, mitt frv. náði aðeins til hinna seku, og það var ekki hart í sakirnar farið. Sekt við fyrsta brot, svo aðvörun, síðan embættismissir. En það er eins og þessir afbrotamenn eigi heilan hóp forsvarsmanna, þegar talað er um að hegna þeim fyrir afbrot þeirra, En það er nú vafasöm rjettlætistilfinning að mæla þá seku undan sekt sinni. Þá sagði þessi hv. þm., að það væri undarlegt, að gengið skyldi framhjá templurum að bera þetta frv. fram, ef templarar stæðu að því. Víst er það undarlegt, — en hefir hv. þm. orðið var við, að hinn marglofaði, landskjörni útvörður áfengisvarnanna hjer í deildinni hafi gert mikið í þessum málum? Hann verður aflvana, ef hann á að mæla fyrir frv., sem hann flytur sjálfur, eða bera fram frv. annara. íhaldsmaður einn hjer í bæ sagði mjer, að hann hefði ekki getað sofið í tvær nætur fyrir fylliríi á götum úti. En það hefir nú viljað svo til, að menn, sem hafa átt að berjast gegn þessu, hafa ekkert aðhafst, en ef aðrir leyfa sjer að gera eitthvað, þá er vaðið upp á þá með vonsku og hörðum orðum, eins og þeir væru afbrotamenn. En það kátlegasta er að athuga hin stóru loforð stjórnarflokksins fyrir kosningarnar. Íhaldsflokkurinn hefir barið sjer á brjóst og sagt, að ef þessi eða þessi maður yrði kosinn, hvort sem það nú var hv. 2. þm. Rang. (EJ) eða einhver annar slíkur, þá mundi alt verða í besta lagi með áfengisvarnirnar. En það hefir orðið minna úr efndunum, og ef aðrir gera eitthvað, þá fá þeir skömm í hattinn. Jeg hefi með þessu viljað sýna, að við megum ekki styðja að sama sljóleika og aðgerðarleysi með útgerð varðskipanna. Jeg var kominn á þing á undan hv. þm. Vestm., þó það að vísu muni ekki miklu, og studdi þá Vestmannaeyinga í baráttu sinni fyrir landhelgisvörnunum, meðan núverandi venslamenn hv: þm. gerðu Þór alt til bölvunar, sem þeir gátu. Jeg get því ekki tekið með neinu lítillæti aðfinslum hv. þm. út af því, að mjer sje ekki eins ant um það og honum, að strandgæslan sje í lagi.

Jeg spurði hv. þm. um eitt ákveðið dæmi í gær, en hann svaraði því ekki. Nú vil jeg endurtaka þá spurningu mína, hvort hv. þm. muni ekki eftir því, að það hafi komið fyrir annan þessara duglegu skipstjóra meðan hann var á Þór, að honum hafi mistekist mæling einhversstaðar í nánd við Dyrhólaey, og einn íslenskur togari hafi sloppið vegna þessarar ófullkomnu mælingar. Jeg hefi þessa sögu frá manni, sem er hátt settur í fiskimannastjettinni. Jeg segi þetta ekki til þess að lasta mann þann, sem þetta henti; jeg held ekki fram, að hann hafi gert þetta viljandi, en get þessa vegna þess, að hv. þm. hjelt fram, að ekki mætti draga í efa þekkingu og kunnáttu þessara manna. En jeg álít, að ekki sje hægt að gera svo mikið upp á milli þekkingar stýrimanna og skipstjóra, fyrst togari slapp úr höndum þessa fulllærða manns vegna ófullkominnar mælingar.

Þá barst talið að smíðinni á Óðni. Nú vil jeg spyrja, hvort það sje álit núverandi stjórnar, sem fram kom í grein í einu íhaldsblaðinu, að alt væri í dýrðlegu ásigkomulagi á Óðni. En í Morgunblaðinu höfum við lesið, að skipið hafði því sem næst farist með allri áhöfn í mynni einnar bestu hafnar á landinu, og þegar skipið fór út til viðgerðar, var almenn hræðsla um það, að það myndi velta á hliðina á leiðinni og sökkva með allri áhöfn. Þegar út kom, kom það í ljós, að skipið var vitlaust teiknað og vitlaust bygt, og það verður að fara í dýra viðgerð, sem tekur marga mánuði, og gat því ekki sint landhelgisgæslu þann tíma. Annars vil jeg hjer gefa hæstv. stjórn tækifæri til þess að skýra frá því, hvers vegna svona tókst til um byggingu þessa skips. Stjórnin hefir ekki leitað til hins fróðasta manns í þessum efnum, framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins, áður en hún samdi um bygginguna. Mjer er kunnugt um það af viðtali við hann áður en skipið var bygt, að hann lagði mikla áherslu á það, að skipið væri með togarasniði bygt. Taldi hann til þess tvær ástæður. Með togaralaginu líktist það skipum þeim, sem það á að gæta að, og gætu þau því síður varað sig á því, og þolir auk þess betur slæman sjó. En í þess stað hefir skipið verið bygt sem eftirstæling af herskipi, eins og því sje ætlað að brjóta borgir og standa í sjóorustum, í stað þess að koma brotlegum togurum í opna skjöldu og taka þá. Saga stjórnarinnar í þessu máli er sorgleg, ef hún væri vandlega rakin. Þegar hún fer að nota landhelgissjóðinn til þess að byggja strandvarnarskip, þá notar hún ekki þekkingu hins reyndasta manns hjer á landi, heldur tekur hún ungan lögfræðing sjer til aðstoðar við samningsgerðina. (Atvrh. MG: Hver er það?). Það er maður, sem hæstv. ráðh. þekkir vel. Það er sami maðurinn, sem var á ferð fyrir útvarpsfjelagið í Danmörku í fyrra og sagði við danska blaðamenn: „Vi har meget fine Forbindelser“, og vildi þar með gefa í skyn, að hæstv. ráðh. væri hluthafi í útvarpsfjelaginu. Annars mun hæstv. ráðh. geta upplýst, hvort hann hefir leitað ráða til Nielsens; jeg trúi því ekki, að skipið hefði oltið um sjálft sig á Siglufirði, ef svo hefði verið. (Atvrh. MG: Jeg bað um hans ráð og fjekk þau!). Jeg vildi helst, að hæstv. ráðh. kæmi með það skriflegt frá Nielsen, að hann hafi verið með í ráðum um þyngdarpunktinn í Óðni. Manni veitir ekki af að hafa slíkan pappír í höndunum, ef maður á að trúa því.

Þá vil jeg vekja eftirtekt á því, að hæstv. ráðh., sem hefir haft vörn þessa máls hjer, hefir ekki viljað skýra frá því, hvað skrifstofustjórinn á 1. skrifstofu hefir í þóknun fyrir að vera yfirráðsmaður skipanna. Þar sem skrifstofustjóri 1. skrifstofu stjórnarráðsins er með hæstlaunuðu embættismönnum landsins og hefir þar að auki bitlinga, og þá suma fyrir litla vinnu, eins og fyrir að vera endurskoðandi áfengisverslunar, þá fyndist mjer, að hann mætti gjarnan fórna þessu aukastarfi á altari föðurlandsins. Og þar sem hæstv. ráðh. skifta nú með sjer hálfum launum hins dána fjelaga þeirra, fyndist mjer, að þeir mættu líka bæta á sig einhverjum störfum. Ef skrifstofustjórinn fengist ekki til að auka þessu við störf sín, þætti mjer því, að hæstv. ráðherrar gætu gert það.

Þótt allir skrifstofumenn í stjórnarráðinu sjeu sjálfsagt árvakrir menn og margir þeirra góðir lögfræðingar, þá efast jeg um, að þeir hafi mikla hugmynd um, hvernig lífið er í Breiðuvík undir Jökli, þegar 20 togarar eru að veiða þar uppi í landsteinum. Jeg efast líka um, að lögfræðingarnir beri mikið skyn á hrygningarstaði þorskfiska eða á líf fátækra sjómanna í landi. Þeir hafa sjálfsagt gott lagavit og geta liðsint hæstv. forsrh. (JÞ) í hans veiku viðleitni að stjórna lögum samkvæmt, en að þeir finni á sjer, hvar hentugast er að hafa varðskipin í þann og þann svipinn, það verð jeg að efast um. Enda hefir nú einn af fylgismönnum hæstv. landsstjórnar veitt henni drjúga ádrepu fyrir að hafa sofið í þessum málum. — Nú vil jeg beina því til hæstv. stjórnar, hvort ekki væri rjett að reyna að finna einhvern þann aðilja, er hefði meir brennandi áhuga fyrir því, að landhelginnar sje vel gætt, heldur en hið háa stjórnarráð, og fela síðan þeim aðilja að ráða, hvar strandvarnarskipin halda sig á hverjum tíma. Væri Fiskifjelaginu t. d. falið þetta, þá mundi ekki ástandið vera eins og það er við Snæfellsnes, eftir lýsingu hv. þm. Snæf. (HSteins). Jeg sje ekkert því til fyrirstöðu að fela þeim aðilja umsjá þessara mála, sem besta þekkingu hefir á þeim og sem eingöngu vinnur að málefnum fiskimanna og ber hag þeirra fyrir brjósti. Nú veitir Fiskifjelaginu forstöðu maður, sem lengi hefir verið skipstjóri og hefir miklu betri þekkingu á þessum málum en allir lögfræðingarnir í stjórnarráðinu og margfalt meiri áhuga. Mjer fyndist, að þetta mætti reyna eina vertíð og sjá svo, hvað fólkið segði suður með sjó og vestur á Snæfellsnesi. Hæstv. ráðherra (JÞ) viðurkendi, að þessu mætti vel koma þannig fyrir, af því að það er ekki lögbundið. Einmitt þess vegna má ennþá síður flana út í lagasetningu um þetta, sem gæti orðið til að koma í veg fyrir, að hið heppilegasta skipulag verði tekið upp.

Jeg vil nota þetta tækifæri til að minna á, að einn af stýrimönnum, sem nú eru á varðskipunum, var fyrir fám missirum yfirmaður á vjelbát, sem annaðist strandgæslu fyrir Vestfjörðum. Þá var enskur togaraskipstjóri, sem tók þennan mann og vildi kúga hann til að leyfa togaranum að fara óáreittum úr landhelgi. En bátstjórinn var skyldurækinn og vildi ekki láta undan, svo að togarinn fór með hann til Englands. Maðurinn gerði alt til að koma fram rjetti sínum og landsins, sjálfsagt í því trausti, að hann fengi hjálp hjá íslenskum yfirvöldum. — Þetta mun hafa gerst í tíð núverandi hæstv. stjórnar, og það er sagt, að maðurinn hafi ekki fengið mikið þakklæti á hærri stöðum fyrir dugnað sinn, þegar heim kom. Að vísu varð eitthvert smávegis orðakast út af þessu við Englendinga, en til þess er landsstjórn höfð, að hún haldi á málum Íslendinga, jafnvel á móti stórþjóðum. — Jeg veit, að hjer á Alþingi eru menn, sem geta sannað það, sem jeg hefi sagt um þetta, svo að jeg vil ráða hæstv. forsrh. frá að fara að bera á móti því, að maðurinn hafi fengið lítið þakklæti.

Loks sagði hæstv. forsrh., að nauðsynlegt væri að ákveða laun þessara manna með lögum, af því að Alþingi mætti ekki láta svo stórar fjárupphæðir renna eftirlitslaust gegnum greipar landsstjórnarinnar. Jeg vildi, að hann væri altaf eins umhyggjusamur um vilja Alþingis, t. d. þegar hann er að hugsa um að ganga í stórar ábyrgðir bak við þingið, eða þegar hann er að láta gera við bústað sinn á landssjóðs kostnað. Það væri óskandi, að hann væri altaf eins grandvar í athöfnum sínum eins og hann er nú í orðum.

Jeg þarf nú ekki að segja meira um þetta frv. í bili. Jeg hefi gert skil bæði rökum og rakaleysi hæstv. ráðherra (JÞ) og annara, er hans máli fylgja. Frv. er í stuttu máli beint spor aftur á bak. Þar er gert upp á milli manna, sem engin ástæða er til að gera upp á milli. Þar er stofnað til fjárútláta, sem vel má komast hjá. Stýrimenn eru sviftir þeirri vernd, sem þeir leggja mjög mikið upp úr að hafa. En það allra versta er, að verði frv. að lögum, má telja fullvíst, að sami svefninn verður áfram um strandgæsluna sem nú var svo átakanlega lýst af hv. þm. Snæf.