28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2225 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. annars minni hl. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil fyrst víkja að ummælum hæstv. forsrh. um yfirstjórn varðskipanna. Rök hans og annara hv. þm. fyrir því, að hún yrði að vera hjá stjórnarráðinu, voru ekki önnur en þau, að annars fengju alt of margir vitneskju um hreyfingar skipanna. Þetta er ekki rjett. Alveg sama vitneskjan meðal skrifstofufólksins er um ferðalag skipanna, hvort sem það er ákveðið í skrifstofu í stjórnarráðinu eða hjá Eimskipafjelagi Íslands. En það er ekki það, sem um er að ræða. Engum hefir til hugar komið að flytja yfirstjórn landhelgisgæslunnar úr stjórnarráðinu, eða að stjórn Eimskipafjelagsins eigi að skipa varðskipunum, hvert þau fari hvern daginn. Nei, jeg legg aðeins til, að Eimskipafjelaginu sje falið að sjá um mannaráðningar og afgreiðslu skipanna. Afgreiðsluna verður altaf að framkvæma, og sú vitneskja, sem þannig berst um það, hvar skipin eru, er nákvæmlega hin sama, hvort stjórnarráðið eða einhver annar hefir umsjón með henni, Þessi mótbára er því einskis virði. Þetta var samt aðalatriðið í ræðu hæstv. forsrh., auk þess sem hann vildi ekki fá stjórninni svo mikil völd í hendur sem að ákveða laungreiðslur til skipverja. Í þessu virðist helst felast það, að hæstv. ráðh, Væri svo hræddur um harðan eftirgang frá skipverja hálfu um góð laun, að hann fengi ekki staðist. Jeg verð nú að segja, að það er ekki hundrað í hættunni, þótt skipverjar sjeu ekki drepnir úr sulti, því að ef menn eru ánægðir, þá vinna þeir betur og verður meiri ágóði af starfi þeirra, En eins og nú stendur á, er megn óánægja með kaupið hjá öllum skipverjum nema einum á hvoru skipi, sem teknir hafa verið út úr, þ. e. a, s. skipstjórunum. Þessi óánægja er líka ákaflega skiljanleg, Launakjör frv. eru aðeins sköpuð frá annari hliðinni. Það er hugsað um það eitt, hvað ríkissjóði komi vel að borga, en alls ekki farið til skipverja og spurt um þarfir þeirra. Það er líka viðurkent af öllum, að launin eru lág og miklu lægri en t. d. hjá Eimskipafjelagi Íslands. Auk þess er í frv. ekki gert ráð fyrir neinum tryggingum til handa skipverjum. Þetta sýnir, að full ástæða er fyrir skipverja til að vera óánægðir, og óánægðir menn vinna aldrei eins vel og ánægðir.

Þá kem jeg að því, er hv., frsm. meiri hl. (JJós) sagði. Hann er nú gefinn fyrir að vera allharðorður og taka óstint upp, ef nokkuð er fundið að landhelgisgæslunni, og finst vera hættulegt að tala nokkuð um hana. En það er ekki það, sem er hættulegt, að láta sögur þær, er ganga manna á milli, koma fyrir daggljósið. Það hættulegasta er það, ef sögurnar veiklyndi varðskipanna eða landsstjórnarinnar gagnvart ísl. skipum væru sannar. Við getum ekki vænst þess, að þær útlendu þjóðir, sem helst hafa þóst verða fyrir barðinu á íslensku varðskipunum, sýni okkur mikla vinsemd eða virðingu, ef það þykir sannast, að hjer gildi önnur lög um Íslendinga en útlendinga. Þetta verður hv. frsm. meiri hl. að taka til athugunar, og hann verður að viðurkenna, að það er rjettmætt, að slíkar aðfinslur komi fram og beinlínis skylt að koma með þær. Ef þær eru ekki á rökum bygðar, verður að hnekkja þeim. Hitt sýnir aðeins rökþrot, að kalla þá menn rógtungur og öðrum ónefnum, er segja frá þessu á Alþingi. Það sýnir vonleysi um að geta borið sakirnar af varðskipunum.

Hv. frsm. meiri hl. fór mörgum orðum um löggæslu og hjelt, að jeg væri svo hræddur, að jeg þyldi ekki að heyra lögreglu nefnda. Mjer virðist nú full ástæða til að taka með tortrygni hverju frv. hæstv. landsstjórnar um aukna lögreglu. Það er sannað, að eitt sinn ætlaði stjórnin að taka meginhluta ungra manna og skipa honum með lögum að vera vörður um hagsmuni sinna flokksmanna.

Hv. frsm. (JJós) var ennfremur að tala um, að blað „mitt“ hefði aldrei veitt landhelgisgæslunni fylgi. Ef hv. þm. á við Alþýðublaðið, þá man jeg ekki, hvað í því hefir staðið um þetta mál, en þó geri jeg fastlega ráð fyrir, að það hafi verið landhelgisgæslunni hlynt frekar en hið gagnstæða. En frá því að Alþýðuflokkurinn eignaðist fulltrúa á þingi, hefir hann altaf greitt atkv. með fjárveitingum til björgunarskips Vestmannaeyja og landhelgisgæslu þess skips. Ef fulltrúar allra flokka hefðu verið eins heilir og óskiftir í því máli eins og fulltrúi Alþýðuflokksins, þá hefði Björgunarfjelag Vestmannaeyja ekki átt við eins ramman reip að draga eins og raun var á, meðan kjarni íhaldsins, núverandi flokksbræður hv. þm. Vestm., stóð á móti öllum styrk til fjelagsins. Hv. þm. má þarna draga inn seglin og viðurkenna, að Alþýðuflokkurinn hefir verið landhelgisvörnunum mjög vinveittur.

Mjer er það sjerstakt ánægjuefni að heyra, að hv. frsm. meiri hl. afneitaði með öllu blaði því, er jeg las hjer upp úr í dag, og að hann þvertók fyrir, að það væri hans stuðningsblað. Það stafar kannske af því, að hann sjer eftir á, að ekki hefir alt verið sannleikanum sem samkvæmast í þessu blaði. Hitt getur hv. þm. ekki skafið af sjer, hve feginn sem hann vill, að hann hefir lagt þessu blaði lið með því að eyða orku sinni og erfiði til að skrifa í það grein, þar sem hann er að tala illa um Ísafjörð og spilla fyrir honum. Nú veit jeg, að hann sjer eftir öllu og sjer, að alt var rangt, sem hann sagði. Met jeg hann mann að meiri fyrir. Annars er þessi herferð Íhaldsins gegn Ísafjarðarkaupstað orðin svo alvarleg, að jeg sje ekki betur en að löggjafarvaldið verði að fara að veita honum sjerstaka vernd. Jafnvel er talað um, að nú sje verið að róa í stjórnina og biðja hana að svifta bæinn hinum sjálfsagðasta rjetti til að skipa málum sínum, fjárforræðinu.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að mjer væri illa við lögreglu. Jeg verð nú að játa, að jeg sje ekki, hvað það var annað en tildur og hjegómi, sem hv. frsm. var að telja upp í dag, að vera að hrúga upp þessum dátum og binda þá með eiði við stjórnarskrána. Mjer finst hjegómaskapurinn þarna komast á svo hátt stig, að ómögulegt sje annað en að vera á móti þessu.

Í lok ræðu sinnar talaði hv. frsm. um það, að jeg hefði lítilsvirt tilraunir hv. meiri hl. til að bæta kjör starfsmannanna á skipunum. — Mjer dettur í þessu sambandi í hug skrítla, sem jeg sá nýlega í blaði. Gömul kona segir við dreng: „Hvað segir lítill drengur, þegar gömul kona gefur honum 2 aura?“ „Hann er svo kurteis, að hann segir ekki neitt“, svaraði drengurinn. — Eins er um þetta. Þessar „gjafir“ hv. meiri hl. eru alls ekki þekka verðar. Það er kurteisi að tala ekki um þær. Þegar það er athugað, að munurinn á kaupi þessara manna og hinu raunverulega kaupi háseta hjá Eimskipafjelaginu er a. m. k. 100 kr. á mánuði, þá eru það engin ósköp, þótt árslaun hvers manns sjeu hækkuð um 200 kr.

Þá gerði hv. frsm. meiri hl. lítið úr því, að jeg hefði lagt til, að yfirstjórn landhelgisgæslunnar væri best komin hjá þeim hjeruðum, sem mest þurfa á henni að halda, og að þau kysu menn til að framkvæma landhelgisgæsluna. Þarna misskildi hv. þm. mig viljandi. Jeg talaði um, að rjett væri, að yfirstjórn skipanna væri hjá þeim hjeruðum, sem mestra hagsmuna hefðu að gæta um landhelgina. Ef hv. frsm. er því mótfallinn, að þeir fái þarna að leggja orð í belg, fer jeg að efast um, að hann sje eins heill í þessu máli og hann læst vera. Eða hverjir mundu ganga harðara eftir því, að landhelginnar væri gætt en þeir, sem um sárast eiga að binda sakir landhelgisbrotanna? Hverjir mundu vera harðari eða líklegri til þess að verja landhelgina en einmitt þessir menn? Hv. þm. Vestm. (JJós) þykir það broslegt, að þessir menn rjeðu, sem einmitt eiga atvinnu sína undir því, að strandvarnirnar fari vel úr hendi. Jeg vona nú, að hann geti fallist á, að þetta sje ekki eins hlægilegt og hann vildi vera láta. Hann má ekki ímynda sjer, að það sjé af móðursýki mælt, þó allháværar raddir berist um, að máli þessu sje þann veg komið fyrir, að hagur fjöldans sje hafður fyrir augum. Hvort mundi umbjóðendum mínum meiri hagur, að landhelgisgæslan væri í góðu lagi eða rekin aðeins með hag nokkurra stórútgerðarmanna fyrir augum?

Nú berast sögur víða frá um ásælni togaranna. Þeir eru dag eftir dag að veiða uppi í landssteinum, spilla veiðarfærum manna og eyðileggja atvinnu manna. En ekki láta varðskipin á sjer bóla.

Hvers vegna hópast menn að vestan hingað í atvinnuleit, nema af því að togararnir hafa gerst þar svo ásælnir, að þeir hafa með öllu eyðilagt atvinnu þá, er menn höfðu af smábátaútveginum.

Nú höfum við yfir þremur skipum að ráða, sem ekki hafa annað starf en að verja landhelgina, og jeg verð að segja það, að með slíkum skipakosti ættum við að geta varið svo landhelgina, að vel við mætti una. Og til. Þess útheimtist ekkert annað en árvekni þeirra manna, er þessum málum eiga að stjórna, að sjá um, að skipin haldi sig sem næst þeim stöðvum, sem nauðsynlegt er að verja. Það dugar lítið, þegar 30 togarar eru að veiðum í landhelgi vestur undir Snæfellsjökli, að senda þá varðskipin t. d. austur með söndum. Eitt þeirra ætti þó að geta verið að staðaldri á verði fram og aftur um Faxaflóa og í kringum Jökul.

Jeg býst ekki við að taka aftur til máls, nema sjerstakt tilefni gefist til þess, enda verð jeg að telja, að hæstv. stjórn hafi nú fengið nokkra aðvörun um að láta landhelgisgæsluna komast í betra lag, Hygg líka, hvort sem rætt verður lengur eða skemur um málið, að skeiki aðsköpuðu um úrslit þess.