28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. 1. landsk. (JJ) byrjaði á því, sem sjaldan skeður, að halda sjer við málið svo að mjer er þá skylt að víkja ekki heldur frá því, enda er mjer það ógeðfelt, þótt jeg hinsvegar neyðist oft til að gera það, þegar jeg á í orðakasti við þennan háttv. þm.

Hann spurði fyrst um, hvers vegna ekki væri í frv. stungið upp á sömu launum handa þeim skipstjórum, er síðar verða ráðnir í þjónustu landsins, eins og þeim eru greidd, sem núna stjórna varðskipunum.

Jeg hafði nú raunar svarað þessu áður, en skal þó endurtaka það. Stjórnin hefir ekki viljað ákveða launin svo há í framtíðinni eins og núverandi skipstjórar hafa, vegna þess að ætla má, að alt fari lækkandi, en launin upphaflega sett í dýrtíð. Hinsvegar má líka geta þess, að launin eru svo há núna vegna þess, að mennirnir voru áður ráðnir hjá Björgunarfjelagi Vestmannaeyinga, og því varð að ráða þá með sömu kjörum og þeir höfðu, þegar þeir gengu í þjónustu ríkisins. Auk þess var hjer um nýtt og vandasamt starf að ræða. Þegar Björgunarfjelag Vestmannaeyinga hóf þessa starfsemi, var ekki til nema einn íslenskur skipstjóri, er hafði þá þekkingu til að bera, sem stjórn á slíku skipi útheimtir. Og hann völdu Vestmannaeyingar og sömdu við hann á þeim sama grundvelli, sem enn gildir um laun hans. Aftur á móti má þess vænta, er stundir líða og búið er að rækja starfið með fjölgandi skipastól, að fleiri og fleiri læri til þess að verða færir um að takast slíka skipstjórn á hendur; en þegar svo er komið, má vænta, að vandræðalaust verði að fá hæfa menn í stöðurnar og þá með lægri launum. Sje hv. þm. óánægður með þetta, er honum innan handar að koma með brtt. og sjá, hvernig um hana fer.

Þá spurðist hann fyrir um, hvort stýrimenn hefðu hærri laun en stungið er upp á í frv., og er því til að svara, að jeg hygg laun þau sem næst hin sömu og þeir hafa nú. Þó má geta þess, að frv. leggur þessum mönnum þá skyldu á herðar að greiða gjald í lífeyrissjóð. Það er þó ekki álitin byrði, því að þeir fá rjett til styrks úr sjóðnum síðar sem því nemur.

Þá mintist hann á sjerstakan stýrimann, sem sýnt hefði mikinn dugnað og árvekni sem skipstjóri í forföllum annars, og spurði um, hvort manni þessum hefði verið veitt nokkur viðurkenning, svo sem kross eða heiðurslaun. Því er nú til að svara, að eins og hv. 1. landsk. veit, þá er það ekki á valdi stjórnarinnar að veita krossa; það gerir sjerstök nefnd, en jeg held samt, að þessi maður hafi ekki hrept slíkt hnoss. Hitt get jeg með fullum sannindum sagt, að heiðurslaun hefir hann ekki fengið. Það fer ekki heldur vel á því að verðlauna beinlínis með fjárgreiðslum eða veita heiðursverðlaun fyrir, þó sjerstaklega duglegir menn fari með lögregluvald á sjónum. Mjer er kunnugt um, að sú saga hefir borist erlendis, að yfirmenn varðskipanna nytu fjárhagslegra hlunninda fyrir að taka skip í landhelgi, en sem betur fór, tókst okkur að ósanna það; annars hefði þetta getað vakið grun um, að skipherrarnir væru hlutdrægir í starfinu. Hjer verður því að fara varlega og gefa ekki útlendingum ástæðu til að ætla, að varðskipin fari lengra í því að handsama togara en hrein og bein skylda þeirra býður. Með þessu vil jeg alls ekki draga úr því, að duglegum mönnum sje sýnd viðurkenning; en hún má naumast koma fram í peningagreiðslum.

En gagnvart tali hans um embættis- og starfsmannastjett landsins alment og einstaka menn, svo sem að bera þeim á brýn deyfð og vanrækslu í starfi sínu, eins og hann gerði um einn af bestu embættismönnum landsins, skrifstofustjórann á 1. skrifstofu stjórnarráðsins, þá er það að segja, að hv. 1. landsk. gerði í þessu sambandi ráð fyrir, að landið mundi missa duglega starfsmenn, en þetta stríðir á móti því, sem hv. 1. landsk. hefir altaf annars verið að tala um, að frv. mundi verða þess valdandi að festa menn í starfinu. Hann ætti því að gera það upp við sig áður en hann heldur klukkutímalanga ræðu aftur um þetta, hvort frv. festi menn í embætti eða þeir yrðu eftir því of lausir. Það er hálfóviðkunnanlegt, þó að í langri ræðu sje, að halda fram tveimur gagnstæðum skoðunum. Þá þótti honum laun yfirkyndaranna of rífleg, en þá getur hann borið fram brtt. um að lækka þau. Þá sagði hann, að það væri eyðsla að festa launin með lögum og talaði um lækkun í því sambandi, og af því að við stæðum á háum launum sem stendur, væri erfitt að ákveða þau fyrir framtíðina. Með því hefir hann haft fyrir augum hækkun krónunnar upp í gullverð. En með frv. sneiðum við hjá þessum örðugleikum, því að með lækkandi dýrtíð lækka launaupphæðirnar sjálfkrafa eftir frv. Þess vegna sneiðir ríkissjóður hjá ýmsum örðugleikum, sem einstakir atvinnurekendur í landinu hafa við að búa viðvíkjandi launagreiðslu til starfsmanna sinna.

Þá sagði hann, að stýrimennirnir mistu vernd sjólaganna, og var þá kominn út í annað frv., sem hjer eru ferðinni, enda gat nú hv. 1. landsk. ekki haldið sjer lengur við efnið. Hann mintist á skylduvinnu stýrimannaefna og taldi öll tormerki á, að hún kæmist í framkvæmd með frv. En jeg sje ekki, að frv. sje á neinn hátt því til fyrirstöðu, að stýrimannaefnin inni af hendi þessa skylduvinnu, sem hann var að tala um.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara að þrátta við hv. þm. nm það, sem hann nefndi, að varhugavert væri að binda menn æfilangt í embætti; menn sljóvguðust með aldrinum, en samkvæmt venjunni væru menn ekki reknir út stöðunni, þótt þeir væru orðnir ófærir til þess að gegna henni. Það má nú til sanns vegar færa, að það sje ekki venja að reka menn úr opinberum stöðum, þó það komi einstaka sinnum fyrir og ekki nema þegar fult tilefni gefst til þess. En hjer var hv. 1. landsk. kominn út í það efni, sem hann ætti að forðast að nefna, eins og snöru í hengds manns húsi, en það var sú spilling, sem á að varða brottrekstri úr stöðu. Því að það ætti hv. 1. landsk. að vita, að um fátt er eins mikið talað eins og það hneyksli, að ekki skuli vera búið fyrir löngu að reka hann af þingi. Þetta er skoðun þeirrar alþýðu, sem er óspilt í siðferðisskoðunum sínum, en ekki svo vel að sjer í stjórnlagafræði og löggjöf landsins, að hún viti, að þetta er ekki hægt. (JJ: Hvað á að gera við dæmda vínsmyglara?). Það á að dæma þá og síðan fullnægja dómnum. En yfir hv. 1. landsk. hefir verið feldur dómur, sem ekki er búið að fullnægja enn. (JJ: Hvaða dómur er það?). Hv. þm. ætti ekki að þurfa að láta minna sig á þann dóm; hann er að minsta kosti flestum í fersku minni, sem sæti eiga í þessari hv. deild, sem feldi dóminn í fyrra.

Þá vjek hv. 1. landsk. að bindindismálum, blaðinu Verði og Nýja sáttmála, sem hann svíður mikið undan og virða verður honum til vorkunnar.

Afstaða Íhaldsflokksins til bindindismálsins er sú, að hann vill vinna að framgangi góðs máls vegna þess sjálfs, en ekki eins og hv. 1. landsk. gerir, sem misbrúkar hvaða gott mál sem er, með það eitt fyrir augum að fá einhvern örlítinn pólitískan ávinning fyrir sig upp í öll þau miklu töp, sem hann er altaf að bíða á landsmálasviðinu. Ef taka á mark á orðum hans, þá getur misbrúkun hans orðið til þess að rýra framgang málsins, enda verður því ekki neitað, að afskifti hans af bindindismálinu hafa orðið því til spillis.

Íhaldsflokkurinn reynir aftur á móti eftir bestu getu sinni að sporna við því, að hv. 1. landsk. misbrúki bindindismálið því til óvinsælda.

Þá talaði sami hv. þm. um mælingar við Dyrhólaey og beindi þeirri spurningu til hæstv. atvrh. (MG), hvort mæling sú hefði mistekist. En það er Gróusaga hjá hv. þm., eins og oft vill verða hjá honum, þegar hann fer að segja sögur, sem einhver úti í bæ á að hafa sagt honum. En það er vitanlegt, að það getur oft verið erfitt að framkvæma þessar mælingar, þegar ákveða þarf, hvort skip er í landhelgi eða ekki. Það getur oft verið svo dimt yfir ströndinni, að fáir staðir skeri sig úr, sem hægt sje að miða við. Þetta þekkja allir, sem við mælingar hafa fengist, og því er það ekki ávirðing við skipstjórana, þó að nægilega — nákvæmar mælingar geti ekki farið fram á stundum, þó að miklar líkur sjeu fyrir því, að um landhelgisbrot sje að ræða.

Þá vjek hann að smíði Óðins og virtist þá kominn í essið sitt. Hann gaf það í skyn, að einhverjir mikilsmetnir útgerðarmenn hefðu ráðið missmíðinni á skipinu. Þetta er fyllilega samboðið hinum sjúka hugsunarhætti hv. 1. landsk. Hann sagði ennfremur, að landið hefði tapað af skipinu í marga mánuði á meðan það var í viðgerðinni. Þetta er ekki rjett hjá hv. þm. Skipið var ekki í viðgerð nema rúman mánuð, og það þurfti að fara til skipasmíðastöðvarinnar hvort sem var, áður en ábyrgðin rynni út.

Þá spurði sami hv. þm. að því, hvers vegna stjórnin hefði ekki notað aðstoð Nielsens framkvæmdarstjóra Eimskipafjelagsins í þessu máli. En hæstv. atvrh. hefir nú svarað því, að það var gert, en framkvæmdarstjórinn átti ekki að reikna út þyngdarpunktinn. Um lagið á skipinu verð jeg að segja það, að hv. 1. landsk. er ekki fullgildur dómari. Skipið var bygt með það fyrir augum að vera svo líkt togara sem unt var. En þegar þess er gætt, að skipið átti að hafa meiri hraða en togari, tvær fallbyssur á stöllum og meira rúm á stjórnpalli, þá er það ekki undarlegt, þó að það verði nokkuð öðruvísi að útliti en togarar.

Þá brúkaði hv. þm. svo sterkt orð, að það hefði verið hneyksli, sem hefði komið fyrir stjórnina, að skipið reyndist ekki stöðugt. Ja, jeg held, að ef maður vill tala um hneyksli, þá kom það ekki fyrir stjórnina, heldur skipasmíðastöðina, sem bygði skipið. Jeg held, að stjórnin sje nokkurnveginn hrein af því hneyksli, því að nú reyndi á, hvort þeir samningar, sem gerðir voru við skipasmíðastöðina, væru fullnægjandi, hvort svo væri frá þeim gengið, að dygði, ef til ætti að taka. Nú þurfti til að taka, og það reyndist svo, að öll ábyrgð af misfellunum lenti á skipasmíðastöðinni. (JJ: Ekki lenging á skipinu). Jú, lenging á skipinu. Skipasmíðastöðin sá sjer ekki annað fært en að lengja skipið á sinn kostnað. (JJ: Ekki að öllu leyti). Jú, hún sá sjer ekki annað fært en að lengja skipið á sinn kostnað; en hitt er annað mál, að þegar svo var komið, þá þótti stjórninni tilvinnandi að greiða 8 þús. kr. til þess að fá mun meiri lengingu en þá, sem skipasmíðastöðin var skyldug til að láta í tje.

Úr því að jeg nefni þetta, þá vil jeg gjarnan segja það hjer, að þeir skipafróðu menn, sem stjórnin hafði sjer til aðstoðar um þetta, þeir hafa sagt okkur, að ef það hefði átt að semja frá upphafi um þá lengingu á skipinu, sem nú er orðin, þá mundi skipsverðið hafa orðið að minsta kosti 50 –70 þús. kr. hærra en það varð.

Næst spurði hv. þm., hvað skrifstofustjóri hefði fyrir að hafa á hendi yfirumsjón með ferðalögum skipanna. Þetta er nú ekki búið að standa heilt ár ennþá; og jeg verð að segja eins og er, að jeg get ekki sagt um það; hygg það sje ekki búið að ákveða það ennþá. Jeg er ekki heldur við því búinn að svara því nú, hvað Ólafur Sveinsson skipaeftirlitsmaður og hans skrifstofa kann að fá fyrir það starf, sem hann hefir á hendi vegna skipanna. Það var náttúrlega hvorugum ljóst fyrirfram, hvorki stjórninni eða þeim, sem eiga að inna þetta verk af hendi, hvað mikið það mundi verða. Þetta er starfsemi hins opinbera, og jeg held það hafi ekki þótt tímabært að ákveða þóknun fyrir starfið fyr en liðið væri að mestu leyti ár, svo að það sæist, hvað mikið aukastarf þarna útheimtist.

Þá hjelt hv. þm. áfram að reyna að tortryggja afskifti skrifstofustjórnar dómsmálaráðuneytisins út af þessu. Jeg er búinn að vísa heim þeim ummælum og þarf ekki að fjölyrða um það. Það getur vel verið, að aðrir gætu gert það, t. d. Fiskifjelagið; jeg skal ekki segja um það. Það verður tíminn að sýna. En ennþá er ekkert það komið fram, sem á nokkurn hátt geti bent til þess, að þetta starf væri betur komið í öðrum höndum en skrifstofustjórans. En það er nú svo, að þótt hjer sjeu nú orðin 3 skip, þá má búast við, að það verði oft og einatt einhverjir landsmanna, sem ekki þykjast fá nægilegar landvarnir af þessum þrem skiptum. Háttv. þm. Snæf. (HSteins) hefir borið fram eina slíka kvörtun fyrir sitt hjerað. En mjer skildist hann miða sjerstaklega við janúarmánuð, þegar svo sjerstaklega stóð á, að nokkurn hluta mánaðarins var ekkert skip tiltækt til strandvarna; 2 voru ekki hjer við land og það 3. var viðgerð. Ekki þó að sje sjálfsagt rjett að vera mjög fljótur til, hvenær sem kvartanir koma um togaraágang einhversstaðar, þá er ekki því að leyna, að það hefir mjög oft komið í ljós, að menn á landi geta ekki greint rjett um þetta, hvort togari er í landhelgi eða utan. Jeg verð því að segja það, að það er ekki ávalt hægt að treysta því, þótt menn haldi, að heilir hópar af togurum sjeu í landhelgi, að þar sje í raun og veru einn einasti. Þetta hafa þeir menn, sem hafa með Strandgæsluna að gera, margoft rekið sig á, og er reyndar alveg eðlilegt.

Þá kom hv. þm. (JJ) að því, að einn af stýrimönnum, sem nú eru, hafi stýrt í fyrra vjelbáti, sem hafði strandgæslu og gert það með mikilli iðni og festu, en kvað hann lítið þakklæti hafa fengið fyrir. Jeg veit ekkert um það. En mjer skilst þó, að hafi hann verið formaður á vjelbáti í fyrra, en nú stýrimaður á okkar gufuskipi, þá sje hann kominn á þessu ári lengra á þeirri braut, sem hann hefir stefnt inn á. Og þó að þetta sje ekki mikið þakklæti, þá er það ofurlítil viðurkenning, — og alt annað en það, sem aðrir opinberir starfsmenn fá hjer í hv. deild, þeir sem standa vel í stöðu sinni. (JJ: Ekki þeir, sem standa vel í stöðu sinni). Jú, alveg eins þeir, sem standa vel í stöðu sinni, og ekki síður.

Hv. þm (JJ) hefir talað nægilega skýrt til þess að láta skilja það, að hann ef að reyna hjer að ófrægja einn af okkar allra bestu embættismönnum. (JJ: Hvern?). Jeg er búinn að segja það áður í þessari sömu ræðu. Það þarf nú enginn að ímynda sjer, að hv. 1. landsk. fari eftir verðleikum manna, þegar hann deilir lofi sínu og lasti um embættismannastjettina, fremur en um aðra landsmenn. Hann fer altaf eftir pólitískum ástæðum, — oflofar sína meðhaldsmenn, en oflastar hina. Þegar hann hefir verið á þingmálafundum og staðið frammi fyrir bændum, — sem hann annars vill sleikja sig upp við — og orðið var við einhverja andúð til sín, þá varpar hann framan í bændur þeim ummælum, að þeir sjeu leiguþý erlendra kaupmanna. (JJ: Það voru leiguþý; það Vissu allir á fundinum). Það var gamall og heiðvirður, gráhærður bóndi, sem hafði komist heiðarlega af alla sína æfi á sínu smábúi; en hann skifti við kaupmann, en ekki kaupfjelag, sem er í Sambandi háttv. 1. landsk. Það var nú hans sök.

Hv. þm. viðurkendi í lok ræðu sinnar, að rjett hefði verið það, sem jeg benti á, að þingið hefði skyldu til þess að ákveða laun þessa starfsmannaflokks. Því að það var engin mótbára, þótt hafin vildi, að stjórnin ætti einnig á öðrum sviðum að minna þingið á skyldu sína í þessu efni.

Þá kem jeg að hv. 5. landsk. (JBald). Hann var enn að halda þessu fram, að útgerðarstjórnin væri betur komin hjá Eimskipafjelaginu, og tókst ekki að færa neinar ástæður. Hann talaði um mannaráðningu og afgreiðslu. Eftir því frv., sem hjer liggur fyrir, mundi mannaráðning alls ekki koma til fjelagsins kasta. Afgreiðslu þessa skips er ekki hægt að jafna við afgreiðslu fólksflutningaskipa, sem fjelagið hefir. Hjer þarf ekki að taka á móti pöntunum fyrir farrými, ekki hafa innheimtu flutningsgjald eða annað, sem fylgir verslunarflota. Nei, hjer er afgreiðslan aðallega fólgin í því að sjá um, að skipin fái nauðsynlega viðgerð á vjelum og skipi og að keypt sjeu kol og það litla af efnivörum, sem þarf til viðhalds á vjelunum. Og þetta fellur alt saman mjög eðlilega inn í verkahring þess manns, sem hefir það á hendi. En flest af því er þannig, að Eimskipafjelagið myndi þurfa oft að leita til annara, þar á meðal ekki síst til hans, um framkvæmdir.

Hv. þm. er á móti því, að laun þessa starfsfólks sjeu ákveðin í lögum, og er þar í raun og veru í algerðu ósamræmi við alla stefnu síns flokks. Þar sem þessi hreyfing, sem hann fylgir, er verulega vel á veg komin, þá er viljinn einmitt sá, að láta laun sem allra flestra vera ákveðin að lögum. Hann var að tala um það, að ef fólkið væri ánægt, þá fengist meira starf. Náttúrlega er þetta alveg rjett. Hann segir, að mikil óánægja sje nú. Jeg veit, að honum mun þetta kunnugra en mörgum öðrum, því að jeg veit ekki annað en hans aðalstarf — fyrir utan brauðgerðina og þingstörfin — sje sí og æ að kveikja óánægju. Hann hefir vel getað verið á ferli niður við skip í þeim erindum að sá frækornum óánægju. Slíkt er auðvelt verk. En það er ljóst, að verði launin ekki ákveðin, þá er að minsta kosti altaf boðið upp á viðleitni til þess að reyna að gera fólk óánægt.

Þá fór hv. þm. að víkja að einhverjum sögum um hlutdrægni varðskipanna og stjórnarinnar gagnvart íslenskum togurum, sem væru mjög nærgöngulir við landhelgina. Hann var að gera ráð fyrir, að þetta myndi illa þokkað meðal útlendra þjóða, sem hjer stunda fiskiveiðar. Það er alveg ljóst, að hlutdrægni í þessu efni myndi illa þokkuð og gæti jafnvel falið í sjer ýmsa hættu fyrir okkar landhelgisgæslu. Jeg verð að segja, að meðan hv. þm. getur ekki bent á nein sannindi til þess að staðfesta þennan söguburð sinn, þá er það gersamlega óviðeigandi af honum sem þingmanni að vera að útbreiða þessar sögur og gera þær þannig — þótt öldungis tilefnislausar sjeu — að meira eða minna leyti trúanlegar fyrir útlendinga. Því að það er nú svo utanlands um þingmenn, að það er alls ekki gert ráð fyrir, að þeir sjeu með sögusagnir í þingræðum, nema því aðeins, að fullur fótur sje fyrir. Hv. þm. er þess vegna hjer með þessari Gróusögu beinlínis að ófrægja land og þjóð í augum útlendinga, og bendir þó jafnframt á hættuna, sem af geti stafað, ef útlendingar leggi trúnað á orð hans.

Hv. þm. (JBald) hefir sýnt það, að honum þykir öll aukning lögreglu, sem Íhaldsstjórnin stingur upp á, varhugaverð, og fór hann með venjulegar öfgar í þessu sambandi. En það er satt að segja dálítið leiðinlegt fyrir þennan hv. þm. að vera sí og æ að vekja athygli á því, að hann muni sjálfur verða þurfandi fyrir það í framtíðinni að neyta lögbrota til þess að koma sínum áhugamálum fram, og geti þess vegna ekki til þess hugsað, að lögreglan í landinu verði nægilega sterk til þess að halda uppi lögum og rjetti. Allir vita, að það er ekkert annað en þetta, sem gerir það, að hv. þm. og hans nánustu flokksbræðrum er svo sjerstaklega í nöp við það, að lögreglan í landinu sje nokkuð aukin. En að reyna að fegra þetta með því, að það sje hjegómi að tylla þessu varðskipi upp sem lögreglu, það verð jeg að segja, að sýnir of mikla vanþekkingu hjá formanni stjórnmálaflokks. Hann ætti þó að vita, að engri þjóð getur haldist uppi að setja fasta borgara annara ríkja, þótt lögbrjótar sjeu, með einhverju og einhverju, sem hvorki er her nje lögregla. Hv. þm. má vera viss um það, að jafnvel þótt brennandi áhugi sje hjá Alþýðuflokknum fyrir landhelgisgæslunni, eins og hann lýsti, þá myndi okkur ekki haldast uppi, þótt nefnt yrði við alþýðuforingjana að fara út á sjó og taka höndum enska eða þýska togara. Þeir yrðu að fá lögregluvald af löggildri stjórn landsins áður en þeir legðu í leiðangurinn.

Hv. þm. talaði um, hverjir mundu verða harðastir um landhelgisgæsluna. Þeir verða að minsta kosti ekki harðastir, sem vilja ekki láta þá fá lögregluvaldið, sem gæsluna framkvæma.

Jeg held það sjeu talsverðar ýkjur hjá hv. þm. (JBald), að menn streymi hingað til Reykjavíkur vegna vöntunar á landhelgisgæslu; því að þótt henni sje nokkuð ábótavant ennþá, þá munu menn nú yfirleitt nokkurn veginn geta haldið hlut sínum fyrir ágangi. Menn streyma hingað til Reykjavíkur fyrir ýmsar ástæður og ekki síst það, að hjer er hærra kaupgjald en annarsstaðar. Menn vonast eftir að geta náð í það kaup, vitandi ekki, að fleiri eru hjer fyrir en þeir, sem geta komist að þeim kjörum.

Jeg get náttúrlega tekið undir það, að við óskum allir, að gæslan geti haldið áfram að aukast. En jeg held það hafi ekki komið fram neitt í ræðu hv. 1. landsk. (JJ) og hv. 5. landsk. (JBald) við þetta tækifæri, sem feli í sjer neinar umbætur á landhelgisgæslunni frá því, sem nú er.