28.03.1927
Efri deild: 38. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (1731)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg mun ekki eiga eftir í þessu máli nema örstutta athugasemd, en hefi þó nokkrum atriðum að svara, sem ekki verður hjá komist.

Hv. 1. landsk. (JJ) beindi til mín tveim fyrirspurnum. Sú fyrri snerti bindindi og var óljós, og vildi jeg spyrja hv. þm., við hvaða þingmann hann hafi átt með spurningunni. (JJ: Jeg læt þingmanninn alveg um það, hvernig hann hefir skilið það). Ef hv. þm. getur ekki talað ljósar en þetta, þá á jeg ekki hægt með að svara fyrirspurn hans. En jeg verð að segja, að jeg tel þennan hv. þm. ekki neinn bindindisfrömuð fyrir þetta ölvunarfrv., sem hann gerðist flytjandi að hjer í hv. deild. Langt frá. Jeg sje ekki, að það hafi verið flutt til annars en að fá tækifæri til þess að hefi þessar ölvunarumræður, sem eru svo hugþekkar þessum hv. þm. Jeg álít slíkt einungis til skaða sannri bindindisstarfsemi.

Þá var önnur fyrirspurn frá háttv. þm., hvort það hefði ekki einhverntíma mistekist mæling á varðskipinu Þór. Jeg verð að segja, að jeg hefi ekki verið neinn „kontrollör“ á mælingar Þórs. En það getur verið, að þetta eigi við það, að einhverntíma voru of fáar mælingar gerðar austur með Söndum hjá þessu skipi fyrir nokkrum árum, til þess að hægt væri að byggja á því ákæru. Út af þessu virtist mjer hv. þm. gera mikið veður. En það er ekki á neinum rökum bygt að ásaka þann skipstjóra, sem þá var með skipið, eða þá menn, sem að mælingunum stóðu. Ef hv. þm. er ekki ráðinn í að beita ósanngirni, þá myndi hann kannast við, að það er ekki nema eðlilegt, undir þeim kringumstæðum, sem voru, að mælingar yrðu of fáar. Þór var að elta 3 skip í einu. Það var einn einasti starfsmaður til þess að aðstoða skipstjóra. Þegar á þetta alt er litið, þá er það eiginlega ekki í frásögur færandi, að mælingar voru of fáar. Jeg vil benda hv. þm. á það, að fyrir hafa komið ónákvæmar mælingar á sjálfum herskipunum dönsku. Það hefir sannast. Og þó er fjöldi aðstoðarmanna þar til hjálpar við mælingarnar. Fyrir nokkrum árum átti það sjer stað á herskipi, að mæling eða niðurskrift mælingar var röng, þannig að mál það varð að falla niður, sem bygt var á þeirri mælingu. Veit jeg þó ekki til, að hv. þm. (JJ) hafi reynt að gera hróp að þessum herskipsforingja, enda væri það sjálfsagt ómaklegt. (Forseti HSteins: Jeg vil benda öllum þremur hv. frsm. á það, að það er aðeins aths., sem þeir eiga eftir, og þar sem eftir er 3. umr., má geyma aðalkjarna málsins. Jeg gef 5 mínútur hverjum).

Það er ekki rjett, að jeg geri lítið úr 1. stýrimanni á Óðni, sem var skipstjóri á Þór um tíma í fyrra. En mælikvarði þingmannsins á dugnað þessa foringja er alveg miðaður við það, hvað marga togara hann tók. Nú vill svo til, að hann tók marga togara. En sá hinna útlendu varðskipsforingja, sem talinn er að hafa varið landhelgina best, kapt. Hovgaard, tók engan togara, að því er fullyrt er.

Tíminn er svo afskamtaður, að jeg get ekki komið alstaðar við, sem þyrfti, en það má gera við 3. umr. — Þessum stýrimanni, sem um er að ræða, var gert svo hátt undir höfði sem hægt var eftir atvikum, með því að gera hann að 1. stýrimanni á Óðni. Hann hefir því fengið viðurkenningu.

Háttv. þm. mintist á, að Dir. Emil Nielsen hefði aldrei haft með undirbúning skipsins Óðins að gera. Jeg veit ekki betur en að sjútvn. fengi allar teikningar gegnum Eimskipafjelagið, og skeyti, sem fóru á milli vegna byggingarinnar, gengu gegnum þess hendur, að minsta kosti meðan á þingi stóð.

Þá er hv. 5. landsk. (JBald). Hann kom lítið inn á það, sem jeg sagði við hann, og hefi jeg því ekki ástæðu til að tefja tímann með að eltast við hans ræðu. Hann sagði mig hafa verið hvassyrtan, og mun það satt vera. Það er eðlilegt, því að hann er margbúinn að ala hjer á slæmum sögum um landhelgisgæsluna, — sögum, sem jeg er hræddur um, að hann hafi búið til sjálfur. Jeg heyri ekki aðra tala meira um þetta en þennan hv. þm. Jeg geng talsvert um í bænum og tala einnig stundum við sjómenn, og jeg heyri ekki af þeirra munni þessar sögur um hlutdrægni varðskipsforingjanna íslensku, sem hv. þm. ávalt er að dylgja með.

Það er heldur fáránleg till., að kjósa skuli yfirstjórn í hverri verstöð til þess að stjórna landhelgisgæslunni. Hvernig á maður annað en brosa að slíku? Þetta ráðstjórnarfyrirkomulag hv. þm. væri gersamlega óhæft.

Það er grunsamlegt, þegar athuguð er sú fortíð, er hv. 5. landsk. hefir að baki sjer gagnvart útgerðinni, að hann skuli sífelt vera að hrópa á það, að meiri harðneskju sje beitt gagnvart henni af hálfu hins opinbera. Það hlýtur að vekja sterkan grun um, að hjer sjeu blandaðar hvatir á bak við.