05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þetta frv. er borið fram af stjórninni og hefir verið til meðferðar í hv. Ed. og tekið þar smávægilegum breytingum, sem voru fólgnar í því, að uppástunga stjórnarinnar um laun sumra af starfsmönnunum, 2. og 3. stýrimanns og fullgildra háseta, var færð ofurlítið upp. Jeg skal taka það fram, að aðalástæðan til þess, að stjórnin fer fram á, að laun skipshafnanna verði ákveðin með lögum, er sú, að það gefur miklu betri aðstöðu til þess að hafa hemil og reglu á breytingum launanna eftir því sem dýrtíðin í landinu breytist. Laun opinberra starfsmanna eru ákveðin með föstum grunnlaunum, sem ætlast er til, að geti staðist, þó að peningagildið komist í fast horf og verðlagið lagi sig eftir því — og dýrtíðaruppbót, sem á að hverfa smámsaman þegar verðlagið lækkar. Er það mikið hentugra að hafa þetta ákveðið með lögum og fá þannig lækkaða krónutölu launanna, og er enda nauðsynlegt fyrir fjárhagríkissjóðs, án þess að ríkið þurfi að standa í kaupdeilum, eins og á sjer stað um einkafyrirtæki, er verða að semja um sjerhverja breytingu á laununum. Reynslan síðan launalögin voru sett 1919 sýnir, að það er ríkissjóði hagsmunamál að hafa laun opinberra starfsmanna lögákveðin og með þeirri tilhögun, sem jeg nú hefi lýst. par við bætist, að hjer er um stóran starfsmannaflokk að ræða á báðum skipunum, og er engan veginn rjett, að stjórnin upp á sitt eindæmi rjeði launakjörum þeirra án íhlutunar Alþingis. En Alþingi ber skylda til, þar sem hjer er um stóra starfrækslu að ræða, sem standa á til frambúðar, að taka þátt í ákvörðun launanna, með tilliti til getu ríkissjóðs og þeirri sanngirni, er ber að sýna þessu starfsfólki.

þetta tel jeg nægja að segja að sinni og vil svo leyfa mjer að leggja til, að málinu verði vísað til fjhn.