17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Hákon Kristófersson:

Það var alveg rjett hjá hv. 4. þm. Reykv. (HjV), að hæstv. forsrh. (JÞ) var ekki hjer við, þegar málið var seinast til umræðu, og er síður en svo, að ástæða sje til að ásaka hann fyrir það, þar sem hann var bundinn við umr. í hv. Ed. Einnig var rjett hjá hv. sama þm., að þetta mál var tekið dálítið til umræðu í sambandi við annað mál.

Jeg benti þá á það í mínum stuttu ummælum um það mál, að mjer væri það algerlega hulið, hvers vegna ekkert samræmi væri í þeim lagaákvörðunum, sem gerðar eru gagnvart þeim mönnum, sem eiga að vera á þessum svo kölluðu varðskipum, og á þeim skipum öðrum, sem ríkissjóður rekur, og heldur ekki í samræmi við laun manna á verslunarflotanum yfirleitt. Jeg hefi ekki tilhneigingu til þess að gera lítið úr þeirri viðleitni hæstv. stjórnar að fá þetta gert fyrir sem minst útgjöld. En jeg verð samt að halda því fram, að það sje alveg óframbærilegt, — svo fremi að ætlast er til, að hægt sje að fá sæmilega menn á skipin, sem er óhætt að slá föstu — alveg óframbærilegt að gera eins feykimikinn mun á laununum og hjer er ráð fyrir gert.

Jeg hefi borið fram brtt. um þetta. Veit jeg ekki, hvað veldur, að þær eru ekki komnar enn úr prentun, en væntanlega geta þær komið til atkv. við 3. umr.

Meiri hl. þeirrar nefndar, sem hafði málið til meðferðar, kemst svo að orði í nál. sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Eitt af aðalskilyrðunum fyrir góðum árangri er, að sem flestir skipverjar, og þó einkum yfirmenn landhelgisgæsluskipanna, geri starfið að lífsstarfi“.

Hvernig getur maður nú vænst þess, að menn, sem þarna vinna, geri starfið að lífsstarfi sínu, ef á að fara miklu ver með þá hvað laun snertir heldur en menn yfirleitt í líkum stöðum? Það hefir verið á það bent í öðru sambandi, að nógu margir menn muni fást á skipin með þessum kjörum, og ætla jeg ekki að efast um það.

Jeg efast ekki um, að svo sje, en jeg geng út frá því, að reynt verði að fá sem best valda menn, og það er því harla undarlegt, ef launagreiðslan á að vera þannig, að sýnilegt er, að þeir geta ekki lifað af þeim launum. Á þessu stigi málsins mun jeg svo ekki ræða þetta frekar, en þegar brtt. mínar koma fram við 3. umr., mun jeg skýra nánar mína aðstöðu. Þó vil jeg geta þess, að fáist ekki breyting á frv., mun jeg við atkvgr. fylla flokk þeirra manna, er því vilja granda.