17.05.1927
Neðri deild: 77. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

* Mjer finst undarlegt, að það þurfi að deila svona mikið um kaupgjaldið og að hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Barð. skuli halda því fram, að stöðurnar sjeu ósæmilega lágt launaðar. Hvað liggur til grundvallar slíkri skoðun?

Ef gerður er samanburður á launum þessara manna og annara starfsmanna ríkisins, finst mjer, að þeir megi vel við una.

Laun símritara í landi eru 1800 kr., en laun loftskeytamanna hjer eru 2300 kr. Laun presta eru 2000 kr. árlega og hjer hafa hásetar sömuleiðis 2000 kr. Auk þess hafa þeir að sjálfsögðu frítt fæði og líf þeirra er vátrygt.

Jeg held, að þegar minst er á laun starfsmanna ríkisins, þá megi ekki taka einn flokk manna út úr og halda því fram, að hann sje lakar settur en þeir, sem atvinnu hafa hjá einstökum mönnum. Það verður að gæta þess, að þeir, sem eiga að greiða launin, eru oft ver á vegi staddir en þeir, sem eiga að veita laununum viðtöku. Hvað eru þeir margir, sem hafa miklu minni laun, en engin hlunnindi? Okkur hv. þm. Barð. ætti að vera kunnugt um, hve mikill fjöldi manna í kringum land alt stundar aðalatvinnu sína við smábátaútveginn og hefir helmingi lægra kaup. Háttv. þm. Barð. ætti að minnast þess, að það eru líka þessir menn, sem eiga að greiða sitt af launum skipverja á strandvarnarskipunum.

Í þessu sambandi mætti líta á, hvaða laun eru greidd við stýrimannaskólann og vjelstjóraskólann hjer í bæ. Yfirmenn varðskipanna hafa 2000 kr. hærri laun en forstöðumaður stýrimannaskólans, sem þó er einhver mesti trúnaðarmaður sjómanna og hefir mesta ábyrgð allra þeirra, sem til sjómannastjettar teljast. Laun hans eru 3200 kr. að byrjunarlaunum, en hækka upp í 4000 kr., og auk þess hefir hann húsnæði, ljós og hita.

Annar kennari skólans hefir 2000 kr. að byrjunarlaunum, sem hækka upp í 3000 kr., eða nær því helmingi lægri laun en stýrimaður. Það mun erfitt að finna dæmi, þar sem laun sjómanna eru hærri en hjer segir, en þau dæmi skifta þúsundum, þar sem sjómenn verða við miklu lægri laun að búa.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.