18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Brtt. hv. þm. Barð. (HK) á þskj. 628 og ummæli þau, er fjellu hjer í gær við 2. umr. málsins, hafa gefið mjer tilefni til að gera dálítinn samanburð á launakjörum starfsmanna á skipum Eimskipafjelags Íslands og á strandvarnarskipum ríkisins.

Jeg skal þá fyrst geta þess, að við meðferð málsins í hv. Ed. voru laun 2. og 3. stýrimanns hækkuð lítið eitt frá því, sem lagt var til í stjfrv., en laun annara starfsmanna staðið óbreytt.

Nú er það svo, að yfirstýrimaður á öðru strandvarnarskipinu hefir 430 krónur á mánuði, en á hinu 446 kr. Á millilandaskipum Eimskipafjelagsins eru byrjunarlaun yfirstýrimanna 446 kr. á mánuði, eða nákvæmlega sömu mánaðarlaun og yfirstýrimaðurinn á Óðni hefir nú, en þessi laun Eimskipafjelagsins hækka upp í 530 kr. á mánuði, eins og þau eru nú.

Eftir frv. eru byrjunarlaun yfirstýrimanns 420 kr. á mánuði, en hækka upp í 468. kr. á mánuði, miðað við þá dýrtíðaruppbót, sem greidd er í ár. En eftir brtt. hv. þm. Barð. eru byrjunarlaun 1. stýrimanns 480 kr. á mánuði, en hækka upp í 600 kr. á mánuði, og verður þetta þá miklu hærra en yfirstýrimaðurinn á Gullfossi hefir nú. (HK: Þetta er ekki rjett hjá hæstv. ráðherra samkv. mínum brtt.). Hámarkslaunin eru samkv. brtt. 5000 kr. á ári, og með 44% dýrtíðaruppbót, eins og nú er, svarar það til 600 kr. á mánuði, og þó að það sje, eins og áður er sagt, miklu hærra en Eimskipafjelag Íslands greiðir sínum mönnum, þá verð jeg þó að segja, að af öllum brtt. hv. þm. er þessi rjettlátust, af því að hækkað var við 2. og 3. stýrimann í hv. Ed. frá því sem var í stjfrv. En þessi hækkun við yfirstýrimann er samt of mikil.

Um hinar brtt. er það sama að segja, að jeg tel þær eiga engan rjett á sjer og að launin sjeu þar alt of há, miðað við það, sem Eimskipafjelagið greiðir fyrir hliðstæð störf, að jeg ekki beri saman launakjör flestra starfsmanna ríkisins. Laun 2. stýrimanns á varðskipunum eru nú 350 kr., en hjá Eimskipafjelaginu eru byrjunarlaunin 380 kr. og hækka upp í kr. 439,80 á mánuði, eins og þau eru nú, en 3. stýrimannslaun eru hjá Eimskipafjelaginu 293 kr., en hækka upp í kr. 328,80. Þetta er talsvert hærra en 1. og 2. stýrimaður hafa nú á varðskipunum, en rjettlætist með því, eins og jeg tók fram í gær, að Eimskipafjelagsskipin eru miklu stærri.

Eftir frv. eru byrjunarlaun 2. stýrimanns 372 kr. og 3. stýrimanns 300 kr. á mánuði, en þau hækka upp í 420 og 348 kr. á mánuði. Eftir brtt. hv. þm. Barð. eru byrjunarlaun 2. stýrimanns 408 kr. og hækka upp í 480 kr. á mánuði og 3. stýrimanns 300 kr., sem hækka upp í 420 kr. á mánuði. Þessi hækkun 3. stýrimanns upp í 420 kr. á mánuði getur ekki staðist, samanborið við mánaðarlaun 3. stýrimanns á skipum Eimskipafjelagsins, sem eru kr. 328,80.

Sama verður og uppi á teningnum að því er snertir laun hásetanna. Sem stendur fá hásetar á varðskipunum 218,75 kr. og á Eimskipafjelagsskipunum örlítið minna, eða 214,30 kr. á mánuði.

Eftir frv. eru byrjunarlaun háseta 240 kr., sem hækka upp í 264 kr. á mánuði. Eftir brtt. á þskj. 628 eru byrjunarlaunin sömu, en hækka upp í 300 kr. á mánuði.

Það má nú gera ráð fyrir, að menn verði yfirleitt fastir í starfi sínu á þessum skipum, og laun flestra þeirra hækki svo, að hámarkslaun verði greidd tiltölulega fljótt. En þau þola engan samanburð við það, sem Eimskipafjelagið greiðir sínum hásetum. Og einmitt þegar þessa er gætt, er síst þörf á því að hækka við vjelstjórana.

Þá ætla jeg að gera örlítinn samanburð við launalögin frá 1919 og nefna launakjör ýmsra starfsmanna landsins, og er þó sá samanburður athugaverður að því leyti, að þessir starfsmenn ríkisins í landi njóta ekki sömu hlunninda og þeir, sem eru á varðskipum ríkisins.

Jeg skal þá fyrst nefna fáein störf við landssímann. Þar hafa t. d. varðstjórar við ritsímann að byrjunarlaunum 2200 krónur, sem hækka upp í 3200 kr. Fyrsta flokks símritarar hafa að byrjunarlaunum 1800 krónur, sem hækka upp í 2800 kr. Þessi launakjör fyrir vandasamt starf virðast fremur lág, samanborið við laun þau, sem hásetum og kyndurum á skipum ríkisins er ætlað, sem eru frá 2000 kr. upp í 2300 kr.

Og þannig mætti halda áfram að telja og nefna fleiri flokka úr launalögum okkar, sem eru lakar launaðir en ætlast er til með frv. þessu. T. d. mætti minna á póstaðstoðarmenn, sem hafa að byrjunarlaunum 1600 kr., er hækka upp í 2400 kr. á ári.

Jeg skal nú ekki gera þennan lestur lengri, en vil bæta því við, að það væri æskilegt að geta borgað starfsmönnum ríkisins sem ríflegust laun, en vitanlega verður ríkið í þeim efnum sem öðrum að sníða sjer stakk eftir vexti.

Annars held jeg, að þessar starfsmannastöður á varðskipum ríkisins þyki það eftirsóknarverðar, miðað við launakjör annara borgara þjóðfjelagsins, að engin vandræði verði að fá hæfa menn í þær.

Um þær brtt. hv. þm. Barð., sem snúa að skipherrum varðskipanna, mætti sitthvað segja, enda er aðstaða þeirra nokkuð sjerstök. Báðir þessir menn voru upphaflega ráðnir í þjónustu Björgunarfjelags Vestmannaeyja og fengnir þaðan, og annar þeirra hafði sjermentun á þessu sviði, sem enginn annar Íslendingur hafði þá. En þá sjermentun verður að heimta af skipstjóra, sem stjórna á slíku skipi. Hætti þessir menn einhverra hluta vegna skipstjórn, verðum við að leita úr landi eftir mönnum á skipin, því jeg veit ekki til, að neinn maður sje nú innanlands, er þá sjermentun hefir, sem heimta verður af þeim, er slíkum skipum stjórna. Þess vegna álít jeg, að eins og stendur geti það verið varhugavert að samþ. síðustu brtt. á þskj. 628, um að 10. gr. falli niður.

Að lokum vildi jeg skjóta því til hv. þm. Barð., að ef hann vill fallast á að hækka aðeins laun 1. stýrimanns í samræmi við þá hækkun, sem gerð var í hv. Ed. á launum 2. og 3. stýrimanns, þá skal jeg vera honum hjálplegur og fara fram á við hæstv. forseta að gefa fundarhlje á meðan við komum okkur saman um skriflega brtt. Að öðrum kosti vænti jeg, að hv. deild felli allar brtt. á þskj. 628.