18.05.1927
Neðri deild: 81. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

18. mál, laun skipherra og skipverja á varðeimskipum ríkisins

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi aldrei ætlað mjer í kappræður við hæstv. forsrh. um þetta mál, og heldur ekki hefi jeg sagt, að mig furðaði á því, þó að hann hefði borið fram frv. þetta um launakjör starfsmanna á varðskipum ríkisins. Það finst mjer ekki nema eðlilegt, en á hinu hefir mig furðað, að þessi launakjör skyldu ekki sett hliðstæð því, sem tíðkast á öðrum. skipum, er ganga hjer við land og eru gerð út af ríkissjóði.

Hæstv. forsrh. reiknar með 44% dýrtíðaruppbót, og þó hún sje það nú, geri jeg ráð fyrir, að hún lækki, og að þá lækki t. d. laun starfsmanna á skipum Eimskipafjelagsins eftir því.

Hann benti á, að báðir skipstjórarnir hefðu verið teknir frá Björgunarfjelagi Vestmannaeyja og lagði mikið upp úr þessari hernaðarsjermentun, sem þeir hafa.

Út af þessari sjermentun vildi jeg benda á, að það væri ískyggilegt ástand, ef annar þessara skipstjóra dæi eða forfallaðist einhverra hluta vegna frá því að fara með skipið. Það yrði þá að liggja ú höfn, því að vanti skipstjórann þessa miklu sjermentun, er ólöglegt að láta skipið annast strandvarnir. Eftir því hefir það þá verið lögleysa, er Einar sá, sem er 1. stýrimaður á Óðni, var látinn fara með Þór og handsamaði flesta togarana. Jeg skal játa, að jeg hefi ekki þekkingu til þess að þrátta um þetta við hæstv. forsrh. En jeg hjelt satt að segja, að þetta út af fyrir sig í strandvarnarmáli okkar væri einskis virði.

Eins og jeg tók fram, er jeg hæstv. forsrh. ekki sammála hvað snertir dýrtíðaruppbótina. Eftir brtt. mínum líður langt árabil, þangað til þeir fá þessa hækkun.

Hæstv. forsrh. kom með það tilboð, að við gætum komið okkur saman um eina brtt. Jeg er altaf fús á að mæta mönnum, jafnvel þótt jeg þurfi að fara meira en miðja leið. Jeg mun því ganga að þessu tilboði hæstv. ráðherra (JÞ), svo framarlega sem það getur ekki orðið til skemda á öðrum brtt. mínum. En jeg verð að segja það, út af síðustu brtt. minni, sem hæstv. ráðh. telur óþarfa, að þau ummæli hæstv. ráðh. komu mjer mjög á óvart.