01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Jeg vjek að því þegar við 1. umr. þessa máls, að jeg teldi þetta mjög lítilfjörlegt frv. Jeg sje ekki, að það sje nokkur hlutur í þessu frv., sem hafi hina minstu þýðingu fyrir landið á nokkurn hátt. Hitt kann að vera, að ef hæstv. stjórn fær þetta frv. samþ. hjer á Alþingi, þá geti hún státað sig af því, að hún hafi komið sjer upp her. Það er þá ekki loku fyrir það skotið, að stjórnin geti á heiðursdögum sínum látið þetta sjólið sitt „marsjera“ í land til þess að sýna sjer virðingarvott.

Hvað sjómennina, hásetana, snertir er frv. þeim beint til skaða eins og það er úr garði gert frá hendi hæstv. stjórnar. Það er auðsætt, að hæstv. stjórn hefir ekki haft hina minstu viðleitni eða vilja til þess að líta á hag sjómannanna. Það átti að svifta þá öllum rjetti, sem þeir hafa samkv. sjólögunum, og það átti ekki einusinni að slysatryggja þá. Þetta sýnir ljóslega, hve gersamlega rjettur þessara manna hefir verið borinn fyrir borð í huga og framkvæmd hæstv. stjórnar.

Mjer er sagt, að bæði þetta frv., sem hjer liggur fyrir, og eins hitt, um laun skipherra og skipverja á varðskipunum, sje komið frá skipherranum á Þór, og eins hefi jeg heyrt hinsvegar, að hásetarnir á skipunum sjeu mjög óánægðir með þessi frv. og telji þau flutt fram til að gera þeim skaða.

Það getur vel verið, að þessum skipstjórum þyki einhver fróun í því að komast í Þingtíðindin og vera með sjerstökum lögum gerðir að embættismönnum ríkisins. En það mælir ekkert með því að taka hina aðra starfsmenn skipanna og gera þá að opinberum sýslunarmönnum. Því er haldið fram, að þetta glæði ábyrgðartilfinning þeirra, en mjer skilst nú, að hitt mundi fremur hafa einhver áhrif í þá átt, ef allar greiðslur til þeirra væru eigi skornar svo mjög við nögl sjer og þeir settir í launakjörum langt niður fyrir það, sem þeir myndu njóta hjá öðrum atvinnurekendum. Menn lifa ekki lengi á þeim hjegóma einum að vera kallaðir sýslunarmenn ríkisins. Það er góð uppbót fyrir skipstjórana, sem fá 1000 krónur á mánuði, en hinir eru settir langt niður fyrir stjettarbræður þeirra á verslunarskipunum, þó að þeir megi teljast embættismenn ríkisins og fái að vinna eið að stjórnarskránni.

Um till. hv. nefndar er það að segja, að þær munu flestar vera til bóta, þó að þær breyti engu í aðalatriðunum. Að ætla ekki að slysatryggja þessa menn og ætla að svifta þá vernd siglingalaganna, það gengur svo langt, að hv. nefnd hefir sjeð, að það var alveg óverjandi.

Að því er snertir frávikningarákvæði frv., þá þætti mjer gaman að vita, hvað þau þýða í 8. gr. frv. orðin „eða að öðru leyti“. — Ef til vill kann það að vera það, að sjómaður mæti ráðherra á götu og gleymi að taka til húfunnar, þá geti það valdið brottrekstri. Þessháttar óákveðið orðalag getur gefið tilefni til, að ýmsar merkingar sjeu lagðar í það; sem sagt, mjer þætti gaman að vita, hvað þessi orð eiga að merkja.

Jeg geri nú ráð fyrir því, að hæstv. stjórn hafi vald og mátt til að koma þessu frv. í gegnum þessa hv. deild, en jeg tel mjer skylt að benda á, hve frv. þetta er mikill hjegómi og hve ágeng hæstv. stjórn er við óbrotna verkamenn, en reynir að tildra sjer upp við „toppfígúrurnar“. Yfirmennirnir eiga að hafa óeðlilega há laun, en undirmennirnir rjettlausir og illa launaðir, og samt vill hæstv. stjórn halda því fram, að þetta glæði ábyrgðartilfinningu manna og trúverðugleik.