01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2280 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

19. mál, varðskip ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Fyrst ætla jeg að þakka hv. nefnd fyrir góða afgreiðslu þessa frv. Um brtt. nefndarinnar hefi jeg það að segja, að jeg hefi ekkert við þær að athuga, þær sem voru gerðar í samráði við mig.

Út af orðum hv. 5. landsk. vil jeg benda á, að það var ekki ætlunin að láta vera að slysatryggja mennina, þó að ekkert sje um það í frv. Viðvíkjandi brtt. hv. nefndar vil jeg benda á, að þær hagga ekki í neinu þeim grundvelli, sem frv. er bygt á, og getur stjórnin því fallist á þær.

Jeg varð mjög hissa á ræðu hv. 5. landsk. Hann hafði engin rök fram að færa gegn frv. Ræða hans var ekki annað en hnífilyrði í garð stjórnarinnar og skósur um, hvað hún væri hjegómleg og hlutdræg. En hv. þm. forðaðist að koma nálægt því að rökræða málið.

Þetta frv. á að tryggja það, að áhöfn varðskipanna vinni eftir sömu reglum og aðrir sýslunarmenn landsins. Þessi skip eru lögregla á sjónum, og ekkert annað, og mennirnir eiga að vera starfsmenn þess opinbera. Það er mikil furða, eftir orðum hv. 5. landsk. að dæma, að hann skuli ekki koma fram með tillögu um, að allir lögregluþjónar í landi skuli vera einkennisbúningslausir og megi ekki vera sýslunarmenn þeirra, sem þeir eru ráðnir hjá. Hv. þm. hefir á þessum málum alt aðra skoðun en flokksbræður hans í öðrum löndum. Hann telur sig til sósíaldemókrata, en mjer er óhætt að segja, að annarsstaðar mundu sósíaldemókratar ekki setja sig upp á móti frv. eins og þessu.

Hv. 5. landsk. heldur því fram, að þetta frv. sje til óhags fyrir skipverja, af því að launin sjeu svo lág. Það eru engin ákvæði um laun í þessu frv., svo að þessi ástæða er næsta bágborin. Um launaatriðið er búið að afgreiða annað frv. frá þessari deild, og þótt það því komi ekki þessu máli við, er rjett að benda á, að mönnum finst síst verra að vera á þessum skipum en öðrum, ef dæma má eftir hinni miklu eftirsókn eftir að komast á þau. Enda verður að athuga, að varðskipunum er haldið út árið um kring, svo að þetta er föst atvinna, og mennirnir vilja gefa mikið fyrir að hafa ríkið fyrir húsbónda. Þó að ríkið launi lágt, þá er þess atvinna trygg og því ferst vel við sína starfsmenn.

Hv. þm. kvaðst hafa frjett, að frv. væri gert eftir tillögum skipstjórans á Þór. Já — þeir gera mikið að því, hv. 5. landsk. og hv. flokksbróðir hans (HjV) í Nd. að bera inn í þingið sögur, sem þeir hafa frjett hingað og þangað og geta svo ekki staðið við, þegar til þess kemur. Eins og hv. þdm. er kunnugt um, sagði þessi hv. flokksbróðir hv. 5. landsk. um daginn þá sögu á fundi í Nd., að skipherrann á Óðni hefði viljandi slept 20 togurum úr landhelginni. Skipherrann segir, að enginn fótur sje fyrir þessu, og nú svíður honum sárast, að sá, sem hefir leyft sjer að bera fram opinberlega þessa svívirðilegu aðdróttun, skuli sitja í skjóli þinghelginnar. Annars er ekki nema sjálfsagt að ráðgast um þetta mál við skipherrana á varðskipunum, hvort heldur er á Þór eða Óðni, og það hefir verið gert. Stjórnin fer ekki að eins og hv. 5. landsk. í fyrra, þegar hann bar fram frv. um iðnaðarnám, en skeytti ekkert um að afla sjer upplýsinga hjá hlutaðeigandi aðiljum, sem áttu að búa við þau kjör, sem frv. ráðgerði, og afleiðingin varð sú, að frv. var hin mesta ómynd.

Hv. þm. sagði, að, mennirnir á skipunum væru óánægðir. Jeg hefi ekki orðið var við það, en flestir starfsmanna ríkisins eru óánægðir með laun sín. Það er nú einu sinni svo, að ríkið launar lágt, en þess stöður eru tryggar. Það væri því ekkert sjerstakt fyrir þessa menn, þó að þeim fyndist laun sín fulllág.

Það er ákaflega leiðinlegt að heyra hjer í þingsalnum, að verið sje að brigsla yfirmönnum varðskipanna um fordild og hjegómaskap. Jeg get ekki verið að svara því. Það kemur ekki þessu máli við, enda leggur enginn maður trúnað á slíkt gaspur. Hv. þm. sagði, að það væri stefna stjórnarinnar að launa þeim hæst, sem hæst væru settir, og vítti það mjög. Auðvitað launar stjórnin þeim hæst, sem hæst eru settir og mesta hafa ábyrgðina. Það er siður um allan heim og verður sjálfsagt ekki öðruvísi, fyr en hv. 5. landsk. er kominn til valda og snýr þessu við.

Það hefir mikla þýðingu að gera þá menn, sem eiga að taka sökudólga í landhelgi og framkvæma þar að lútandi sjómælingar, að opinberum starfsmönnum, svo að þeirra framburður hafi fult gildi og sömu þýðingu og annara embættismanna, og þeir því þurfi ekki í hvert sinn að vinna eið að skýrslum sínum.

Hv. þm. gerði fyrirspurn út af 8. gr. Hann spurði, hvað þýddu orðin „að öðru Ieyti“. í gr. stendur: „Nú brýtur sýslunarmaður gegn skyldum sínum eftir reglum þeim, sem settar eru samkvæmt lögum þessum, eða að öðru leyti“. Það geta sem sje verið skyldur, sem ekki eru umtalaðar í reglunum. (JBald: Já, eins og t. d. að taka í húfuna fyrir hæstv. ráðh.). Hann er ákaflega hræddur við það, hv. 5. landsk., að stjórninni verði sýnd virðing, og er það víst af því, að hann hefir komist að því, að stjórnin er víða mikils metin, en fyrir þennan ótta hv. þm. get jeg ekki sjeð ástæðu til að breyta frv.