01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Hæstv. ráðh. (MG) hefir ekki fært fram neinar sannanir fyrir mikilvægi þessa máls. Það er ákaflega hlægilegt, og það veit jeg, að hæstv. ráðh. sjer, þegar hann athugar málið, að gera þá menn að starfsmönnum ríkisins, sem eiga að kynda undir kötlum skipsins, og láta þá vinna eið að stjórnarskránni. Hæstv. ráðh. segir, að mikil aðsókn sje eftir störfum á varðskipunum. Jeg skal ekki rengja það, en það sannar ekkert, því það hafa verið svo erfiðir tímar undanfarið og atvinnuleysi svo mikið, að menn eru aðþrengdir eftir langar landlegur síðan í fyrravor. Það má vel vera, að í bili megi fá nóga menn, en ekkert er líklegra heldur en að fólkið sópist burt af skipunum aftur, ef nóg atvinna verður. Og ef varðskipin borga ver en skip einstakra atvinnurekenda, fá þau verra fólk, en það er auðvitað þvert ofan í tilgang stjórnarinnar með þessu frv.

Hæstv. ráðh. og hv. frsm. hafa báðir talað mikið um nauðsyn þess að hafa þessa menn sem lögreglumenn, en það er alveg nægilegt að hafa þá menn, sem eru yfirmenn, sem lögreglumenn eða sýslunarmenn ríkisins. Hitt er ekkert annað en tildur, að gera alla mennina að embættismönnum, og er bara tilraun til þess að koma upp vísi að sjóliði.

Hæstv. ráðh. sagði, að skoðun mín á þessu máli kæmi áreiðanlega í bága við skoðun flokksbræðra minna í öðrum löndum. En jeg hugsa nú samt, að ef þeir ættu að taka afstöðu til slíks frv. sem þetta er, þá mundu þeir setja sig upp á móti því. (Atvrh. MG: Það held jeg ekki). Jú, vissulega.

Hæstv. ráðh. játaði, að þetta frv. væri gert í samráði við skipherrana. Jeg bar fram, að það hefði verið gert í samráði við tiltekinn mann, skipherrann á Þór. Honum hafa í mín eyru af skipverjum sínum verið kendar þessar tillögur.

Allir, sem þekkja til sjómanna á varðskipunum, vita, að engir þeirra eru ánægðir með kjör sín nema skipherrar, ekki einu sinni stýrimennirnir. Hæstv. ráðh. sagði, að þessar tillögur væru gerðar í samráði við skipherrana, svo að saga mín er engin Gróusaga eða dylgjur. Enda skil jeg ekki, að hæstv. ráðh. líti á þetta mál sem neitt misindismál. Í hans augum er það mikill heiður fyrir skipstjórann á Þór að eiga þessar tillögur. Ef hann kallar sögu mína dylgjur, þá hefir óviljandi gægst sú skoðun fram hjá honum, að tillögurnar sjeu lítils virði. (Atvrh. MG: Það eru dylgjur frá sjónarmiði hv. 5. landsk.). Hæstv. ráðh. talar yfirleitt mikið um dylgjur gagnvart stofnunum og starfsmönnum ríkisins. Máli sínu til sönnunar nefndi hann áðan dæmi úr Nd. og tilfærði sögu, sem sögð hefði verið í skjóli þinghelginnar. En það getur oft verið nauðsynlegt gagnvart íhaldsklíkuskapnum til lagfæringar á hlutum, sem ekki er beinlínis hægt að sanna, en allir vita að eiga sjer stað, að bera slík ummæli fram á þingum þjóðanna, til þess að koma í veg fyrir, að klíkuskapurinn magnist, og upphaflega er þinghelgin gerð til þess. Hvers vegna var það, að íhaldið í Danmörku og Noregi fyrir nokkrum árum keflaði hvern einasta frjálslyndan ritstjóra fyrir að fletta ofan af íhaldsflokknum? Það var til þess að reyna að kúga þá til að koma ekki upp misindisverkum hans og hætta að tala um þau. Þess vegna er það sett í stjórnarskrár, að þm. megi bera fram ummæli í skjóli þinghelginnar, sem þeir mundu annars verða sektaðir fyrir. Það er einmitt rjettur þeirra, sem vilja fletta ofan af klíkuskapnum, að geta leyft sjer að segja ýmsa hluti í skjóli þinghelginnar. En hæstv. ráðh. ætti ekki að vera að rifja upp í slíkum hlutum. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það sje hentugt fyrir hans flokk, þar sem þetta ákvæði er sett sem sjerstakur varnagli til þess að hamla upp á móti íhaldinu.

Jeg þykist hafa sýnt fram á, að hæstv. ráðh. hefir ekki gert annað í ræðu sinni í dag en að endurtaka það, sem felst í aths. frv., og að það er einskis virði bæði gagnvart þessum lögum og lögunum um laun skipherra og skipverja, því að þessi tvö mál verða að skoðast samhangandi.

Hinu get jeg ekki vikið frá, að þetta frv. er ekki annað en tildur og hjegómi, nema því aðeins, að fyrir stjórninni vaki, eins og raunar hefir heyrst frá hennar liði, að byrja þarna á ofurmjóum þveng til nýrrar ríkislögreglu. (Atvrh. MG: Hver hefir sagt það?). Það hafa margir sagt. Hvað felst í frv.? Felst ekki í því, að gera á alla mennina að lögreglumönnum? Ekki einu sinni yfirmennirnir hafa verið það hingað til, og þó hefir alt getað gengið.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að ef yfirmennirnir væru embættismenn, þyrftu þeir ekki að vinna eið að skýrslum. Eru þeir þá öðruvísi settir en yfirmenn dönsku skipanna? Þeir hafa oft orðið að sverja í landhelgismálum. Er það þá ekki hrein vitleysa hjá hv. þm. Vestm., að þeir þyrftu ekki að sverja, ef þeir væru sýslunarmenn ríkisins? Dönsku yfirmennirnir hafa sem sagt þurft að sverja, þó að þeir sjeu embættismenn og vinni undir sjerstakri löggjöf sem hermenn eða lögreglulið.