01.04.1927
Efri deild: 42. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

19. mál, varðskip ríkisins

Ingvar Pálmason:

Jeg ætla aðeins að gera stuttlega grein fyrir atkv. mínu. Jeg viðurkenni auðvitað, að það er nokkur ástæða til þess að setja slík lög sem þessi. Jeg get þó ekki sjeð, að nauðsynlegt sje að ákveða, að allir starfsmenn skipanna skuli vera starfs- eða sýslunarmenn ríkisins. Og þó jeg, sem sagt, viðurkenni rjettmæti slíkrar lagasetningar að því er kemur til yfirmanna á varðskipunum, get jeg samt ekki gengið inn á frv. eins og það liggur fyrir. Jeg vil geta þess, að þar sem þessi hv. deild hefir nýlega afgreitt frv. um laun skipverja á varðskipunum með litlum meiri hl., og þar sem það er víst, að sá sami meiri hl. fylgir þessu frv. óbreyttu, þá sje jeg ekki, að það hafi neinn tilgang að vera nú að koma fram með brtt. við frv. það, er hjer liggur fyrir. Jeg hefi því ekki önnur úrræði en að greiða atkvæði móti frv. Það er ekki af því, að jeg sje í sjálfu sjer á móti slíkum lögum sem þessum, ef þau ná aðeins til yfirmanna skipanna, heldur af því, að jeg tel ekki nauðsynlegt, að allir starfsmenn skipanna, háir sem lágir, kolamokarar, matreiðslumenn og vikadrengir, komist á föst laun. Það er alveg óskylt mál, þótt menn vilji tryggja rjett þeirra, og má gera það á annan hátt en þennan. Jeg get því ekki verið með frv. eins og það nú liggur fyrir.

Að öðru leyti ætla jeg ekki að blanda mjer inn í umræður þær, sem hjer hafa orðið. Jeg vildi aðeins fyrirbyggja þann misskilning, að jeg væri að öllu leyti á móti lagasetningu um þessi efni, þó að jeg greiði atkv. gegn frv.