04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Eftir því sem jeg íhuga þetta frv. nánar, því betur sýnir það sig, hversu óaðgengilegt það er fyrir þá menn, sem undir því eiga að búa. Eins og ákveðið er í frv., þá verða þessir menn ekki undir siglingalögunum. Samkvæmt 5. gr. frv. fer engin skráning fram, sem þýðir það, að þessir menn, sem á varðskipunum eiga að vera, eiga ekki að vera ráðnir samkvæmt siglingalögunum. Hinsvegar ætlast sú grein til þess, að siglingatími hásetanna á varðskipunum sje tekinn til greina sem almennur siglingatími manna á öðrum skipum. Þetta eru öll þau rjettindi, sem þessir menn eiga að hafa, eða öllu heldur eru þeir sviftir öllum rjettindum, sem aðrir sjómenn hafa samkvæmt siglingalögunum.

Jeg sje þess hvergi getið í frv., að sjómennirnir á varðskipunum eigi nokkurn rjett á því að fá greiddar bætur eða að fá styrk, ef þeir veikjast eða forfallast á einhvern hátt. Í siglingalögunum eru ákvæði, sem mæla svo fyrir, að ef sjómaður veikist, þá skuli hann njóta hjúkrunar á kostnað útgerðarinnar. En hjer er því eins farið og með slysatryggingarnar í hinu frv., að þessa menn á að svifta öllum gæðum, sem siglingalögin veita, og eintómar skyldur eru þeim á herðar lagðar í staðinn. Þetta eru alvarlegir gallar á frv., sem verður að lagfæra, ef frv. á að fara út úr þessari hv. deild.

Þá eru ákvæðin um, ef mönnum er vikið burt af skipunum, ekki eins nákvæm og í siglingalögunum. Það er alt komið undir geðþótta skipherrans, og sje manni vikið frá, þá á hann það undir náð ráðuneytisins, hvort hann nær rjetti sínum. Ráðherra sker úr í slíkum tilfellum, en mennirnir eru alveg rjettlausir. Stjórnarráðið ákveður „eftir atvikum“, hvort endurgreiða skuli iðgjald, sem búið er að greiða. Það er lítill rjettur, sem þessum mönnum er veittur, að verða að sækja alt undir stjórnarráðið og skipherrana. Þessum mönnum getur sitthvað orðið á, eins og öðrum mönnum. Þá getur skipherra gengið strangt fram í því að refsa þeim.

Það er alkunna, að herforingjar eða lautinantar, sem aldir eru upp í hermenskutildrinu, eru mjög viðkvæmir fyrir yfirsjónum og vilja láta sýna sjer svo mikla virðingu, að ef undirmaður gleymdi að taka til húfunnar, yrði hann rekinn. Og svo gæti stjórnarráðið „eftir atvikum“ samþykt, að hann væri brottrækur og skyldi ekki fá endurgreiðslu iðgjalda sinna. Sama er að segja um stýrimennina. Það þyrfti ekki mikið að vera, sem gæti valdið brottrekstri þeirra. Ef skipstjórum og stýrimönnum kæmi ekki saman um eitthvað, sumum skipstjóranna þætti t. d. nóg um, hve stýrimennirnir væru áfjáðir í að reka störf sín eða væru í ósamræmi við skipherrana á einhvern hátt, þá væru stýrimennirnir látnir fara og fengju engar rjettarbætur og ættu heldur enga kröfu á þeim.

Ef þingið afgreiðir þetta frv., þá eru í því heilar síður af óskrifuðum ákvæðum, er stjórnin á síðar að setja. Og enginn, hvorki þingmenn nje aðrir, fær að vita, hvaða reglur hún kann að setja um tilhögun alla og alt fyrirkomulag á þessum hlutum. Það er verið að láta þm. samþ. það, sem þeir vita ekkert um, því að engar skýringar hefir stjórnin gefið á því, hvaða reglur hún ætli að setja hjer að lútandi.

Í öðru lagi er verið að svifta þessa menn á varðskipunum margskonar rjettindum, sem löggjöfin hefir talið sjer skylt að setja til handa sjómönnum, með löngum lagabálkum, siglingalögunum og lögunum um atvinnu við siglingar. Þessir menn eru þannig algerlega settir á vald skipstjóranna og stjórnarráðsins, og þótt einhverjir meðal þeirra kunni að vera sanngjarnir og rjettlátir menn, þá geta þeir líka verið misjafnir. Og lögin eiga einmitt að miða að því að tryggja menn við atvinnu sína.

Svo er líka óbeint verið að svifta menn fjelagsrjettindum og „organi- sations“-rjettindum, en það þykir altaf hjá öllum siðuðum þjóðum vera hið versta ranglæti og svartasta íhald. Stjórnarráðið skipar þeim í einu og öllu og þeir geta ekkert sagt um laun sín og kjör. (Nokkrir þm.: Þingið ákveður laun þeirra). Það er ekki þingið, sem framkvæmir lögin, svo að þegar þingið hefir slept þessum lögum frá sjer, þá veit það ekkert um það, hvernig þau eru framkvæmd. En þá kemur reglugerðin, sem leggur stjórnarráðinu og skipherrunum svo mikið vald í hendur, að mennirnir geta ekkert borið fyrir sig gagnvart því. Svo bætist hjer við fjárhagslegur skaði, sem vofir yfir þessum mönnum, sem burt reknir væru fyrir litlar eða engar sakir, að þeir missi 7% af launum sínum.

Mjer sýnist því, að hjer sje á ferðinni miklu ískyggilegri löggjöf en mjer virtist í fyrstu. Mjer virtist það mest vera tildur, en nú sje jeg, að það felur í sjer svo mikið harðræði, svo mikið ranglæti og svo mikla yfirdrotnun gagnvart þessum undirmönnum á varðskipunum, að jeg tel, að þingið ætti ekki að skiljast svona við þetta mál og fela stjórnarráðinu og skipherrunum svona mikil ráð yfir þessum mönnum. Íhaldið er oft að hæla sjer af því, að það hugsi jafnt um alla landsmenn, en þetta frv. ber þess ljósan vott, að það hugsar aðeins um tiltekna menn. Almenningur á ekki miklum rjettarbótum að fagna hjá íhaldinu.

Vegna smíðisgalla á þessu frv. og vegna efnis þess og anda í heild á þingið ekki að samþykkja þetta frv.