04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2309 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Það er mjög undarlegt; hversu litlar upplýsingar hægt er að fá frá háttv. frsm. (JJós) og hæstv. ráðh. (MG) um það, er snertir aðalefni þessa frv. Þeir vefja málið með því að tala um, hve góður húsbóndi ríkið sje o. s. frv., en neita að ræða hið meingallaða ákvæði frv., er setur menn þá, sem á varðskipunum vinna, skör lægra en stjettarbræður þeirra, sem vinna á skipum einstakra manna eða fjelaga. (Atvrh. MG: Að hverju leyti lægra?). Að því leyti, að í frv. er engin trygging sett fyrir því, að þeir fái neitt borgað, ef þeir veikjast, eins og gert er í siglingalögunum. Er leiðinlegt að vita, að hæstv. ráðh. skuli þurfa að fara að lesa frv. sitt að nýju nú við 3. umr. þess, til þess að sjá þá miklu smíðagalla, sem á því eru.

Háttv. frsm. sagði í sambandi við þetta atriði, að ríkið hefði ekki hingað til látið menn sína afskiftalausa í öllum tilfellum í veikindum þeirra. Það má vel vera, að þeim verði bætt eitthvað upp til bráðabirgða. En hvar er rjettur mannanna til þess eða trygging þeirra fyrir því, að það verði gert? Ekki í frv.; það verður algerlega undir geðþótta yfirmannanna á varðskipunum og stjórnarráðinu komið.

Hv. frsm. fanst það undarlegt, að jeg skyldi geta látið mjer detta það í hug, að komið gæti fyrir ósamkomulag milli skipverja og stýrimanna um skylduverkin á skipunum. Það er nú einu sinni svo, að yfirmenn vilja hafa vald sitt óskorað, sjerstaklega þeir, sem einhverja nasasjón hafa af herskipum, og rjúka þá oft upp á nef sjer, ef á þá er andað af undirmönnum þeirra, án þess að það sje nokkurt brot af hálfu þessara undirmanna í augum almennings. Það er því ekkert ólíklegt, að þessir yfirmenn með þennan stranga aga og reglu, sem háttv. frsm. talaði um, vísuðu mönnum brott, ef eitthvað lítilfjörlegt út af bæri, og að landsstjórnin, eftir tillögum þeirra, ljeti þá fara burt samkv. þessum lögum.

Það er ekki hægt að fá skýringu á því hjá hv. frsm., af greinargerð frv. eða frá hæstv. landsstjórn, hvernig háttað er um þetta atriði. En í 7. gr. frv. er talað um löggæslustarf og einkennisbúninga, sem auðvitað mátti ekki gleyma! Og þar er sagt ennfremur, að landsstjórnin geti sett reglur um hitt og annað. Hefði verið rjett, að hæstv. landsstjórn hefði gefið mönnum einhverja hugmynd um þessar reglur í lögunum sjálfum.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að regla og agi á skipunum eigi að vera til fyrirmyndar. Jeg vil á engan hátt telja úr því, en jeg tel þó mest um vert, að góð regla sje í starfinu sjálfu. Það er iðulega hægt að lesa í erlendum blöðum hlægilegar frásagnir um það, hversu smásmugulegir herforingjar eru í daglegum störfum sínum gagnvart undirmönnum sínum, þar sem þeir eru dæmdir til refsingar eða fangelsis eða, ef um sjóliðsmenn er að ræða, til brottrekstrar af skipunum fyrir yfirsjónir, sem að engu snerta skyldustörf þeirra. Það þarf ekki að vera um nein brot á skyldustörfum þessara manna að ræða, þó að þeir geri sig seka um yfirtroðslur á þröngum reglum, sem settar eru hermönnum um það, hvernig þeir eigi að umgangast hjegómlega yfirmenn.

Hv. frsm. hjelt því fram um sjúkrastyrkinn til skipverja á varðskipunum, að engin ástæða væri til þess að ákveða neitt um hann með lögum, þar sem ríkið ætti í hlut. En jeg vil leyfa mjer að spyrja hv. frsm., hvers vegna það er ekki jafnnauðsynlegt að tryggja þessa menn gagnvart ríkinu eins og gagnvart einstaklingum. Jeg skal skjóta því að hv. frsm., vegna þess að hann dró það í efa, að jeg hefði það frá skipverjum sjálfum, að þeir væru óánægðir með launakjörin eftir frv. stjórnarinnar, að á milli 1. og 2. umr. kom til mín einn af hásetunum á Óðni og bar sig mjög illa yfir því, ef launakjör frv. yrðu samþykt, og svo mun vera um alla skipverjana nema skipstjórann. Og hið sama hefi jeg heyrt af Þór. Gæti jeg utan umr. skýrt hv. frsm. frá heimildarmanni mínum, ef hann óskaði þess, enda vona jeg, að hann verði ekki rekinn af skipinu fyrir agabrot, þó að hann bæri sig upp við fulltrúa Alþýðuflokksins á þingi um þetta mál. Annars held jeg, að heppilegra væri fyrir hv. frsm. að kynna sjer betur álit sjómannanna sjálfra á þessu máli, en fara minna eftir tillögum „reserve“-lautinantanna.

Hv. frsm. þóttist hafa fundið aðalástæðuna fyrir því, að jeg er á móti þessu frv., og kvað hana vera þá, að jeg áliti, að sjómennirnir á varðskipunum væru meðfrv. sviftir fjelagsrjetti sínum. Hv. frsm. hefir nú raunar játað, að svo sje, svo okkur ber ekki svo mikið á milli um þá staðreynd. En mjer finst það æðilangt gengið í frv., að mönnum þessum skuli ekki vera leyft að gera tillögur um launakjör sín, nje að gera samþyktir, er lúta að hagsmunum þeirra, og senda trúnaðarmenn sína með þær til stjórnarinnar. Þetta hefir verið gert, en þessir sendimenn hafa fengið svar frá stjórninni eitthvað á þá leið: Við tölum ekki við ykkur; það erum við, sem gerum út um þetta mál. — Með frv. á að svifta menn íhlutunarrjetti um kjör þeirra, og er það vitanlega gert vegna þess, hve erfiðir tímarnir eru og atvinnuleysið er mikið, því að hæstv. stjórn veit, að hægt muni vera að fá einhleypa menn til þessara starfa, þó að launin sjeu svo lág. En fjölskyldumenn líta svo á, að ekki sje hægt að sætta sig við þau launakjör, sem skipverjar eigi við að búa, nema í ítrustu neyð, og þeir hafa sagt, að þeir myndu skifta um stöðu, ef þess væri nokkur kostur.

Hv. þm. Vestm. hlakkaði mjög yfir því, að frv. útilokaði skipverja á varðskipunum frá því að gera verkföll, og kvað nóg vera um slíkan ófögnuð á öðrum sviðum atvinnulífsins hjer á landi. Það má vel vera, að meiri hl. nefndarinnar sje honum sammála í þessu efni. En jeg verð að telja það ranglátt að taka úr höndum manna hið eina vopn, sem þeir hafa til þess að fá rjettmætum og nauðsynlegum kröfum sínum framgengt og til þess að geyma fengins rjettar og verja sig gegn yfirgangi þeirra, sem hafa hin fjárhagslegu og stjórnskipulegu völd í landinu. Annars held jeg, að verkfallslögin komi ríkinu að litlu haldi, þegar á herðir. Má í því sambandi minna á það, að einni embættismannastjett landsins tókst með samtökum sínum að kúga ríkið til þess að bæta kjör þeirra. Og símamenn hafa einnig eigi alls fyrir löngu ógnað ríkinu með fjelagsskap sínum. Þrátt fyrir það, þó að lögin banni starfsmönnum ríkisins að gera verkföll, þá geta þeir þó hætt starfi sínu. Hv. þm. veit, að þær till. eru ekki hátt skrifaðar í lýðfrjálsum löndum, er fara fram á það að svifta menn fjelagsrjetti þeirra. Það viðgengst hvergi nema í einvaldsstjórnarlöndunum, Ítalíu, þar sem Mussolini ræður einn öllu, Spáni og Balkanskaganum, — löndum, þar sem einvaldshafarnir láta skjóta niður andstæðinga sína, brenna prentsmiðjur þeirra, gera blöð þeirra upptæk, eða reka þá úr landi, þegar best gegnir. Þar eru mannrjettindin ekki mikilsvirði. En í Vestur-Evrópu er öðruvísi litið á þetta. En vera má, að afturhaldið hjer á hv. Alþingi sje svo mikið, að það líti eins á þetta eins og hv. þm. Vestm.