04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2313 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

19. mál, varðskip ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 5. landsk. þótti upplýsingar stjórnarinnar og hv. frsm. litlar um frv. En því er nú svo varið, að frv. þm. spyr um þá hluti, er ekki koma máli þessu við. Hið eina svar, sem jeg get gefið hv. þm., er það, að hugmyndir hans um frv. eru sprottnar af hugarórum hans sjálfs.

Hv. þm. sagði, að mennirnir á varðskipunum væru ver settir en stjettarbræður þeirra á öðrum skipum. Jeg spurði hann að því þá, hvort hann vissi það ekki, að opinberir embættis- og sýslunarmenn væru ekki settir frá embætti eða starfi sínu, þó að þeir veiktust. Þeim eru venjulega greidd 3–6 mánaða laun, þegar slíkt ber við.

Þá sagði hv. 5. landsk., að yfirmennirnir á varðskipunum myndu halda undirmenn sína illa og að þeir mundu reka þá af skipunum fyrir smáyfirsjónir. En mjer er spurn: Hvar stendur þetta í frv.? Á máske að setja það í frv., að ekki megi vera agi eða regla á skipunum?

Þá kvað hv. þm. það mjög illa farið, að ekki skyldi nánar tiltekið í 7. gr. frv., í hverju reglan á skipunum ætti að vera fólgin, líklegast þá hvenær ætti að þvo skipin og hvernig skifta ætti verkum með skipverjum, og taldi, að þar sem þetta væri ekki beint tekið fram í lögunum, þá væri mjög hægt að misbrúka ákvæði 7. gr. Jeg hygg, að hann fái ekki marga á þá skoðun sína.

Þá mintist hv. þm. á óánægju skipverja út af launakjörum þeirra. Það má vel vera, að svo sje. En hv. þm. ætti að spyrja embættis- og sýslunarmenn yfirleitt, hvort þeir væru ánægðir. Hann mundi áreiðanlega fá þau svör, að þeir væru óánægðir. Það er nú einu sinni svo, að ríkið launar starfsmenn sína yfirleitt lágt, en á hinn bóginn er sú atvinna, sem ríkið veitir, trygg. Þó að hv. þm. viti um einn óánægðan mann, þá er sannleikurinn sá, að það eru margir menn, sem bíða eftir því að komast á skipin, vegna þess hve trygg atvinnan er.

Hv. 5. landsk. sagði, að verkfallslögin hefðu litla þýðingu gagnvart embættis- og sýslunarmönnum ríkisins, en þó kveður hann það hina verstu goðgá, að frv. skuli svifta sjómennina á varðskipunum rjettinum til þess að gera verkfall eða ganga í þann fjelagsskap, sem þeir vilja. Samkv. verkfallslögunum eru embættis- og sýslunarmenn bundnir um það að leggja ekki starf sitt niður fyrirvaralaust, og samkv. frv. því, sem hjer um ræðir, verða sjómennirnir bundnir samkv. þessum lögum á sama hátt og aðrir sýslunarmenn ríkisins. Í þessu ákvæði felst aðalástæðan fyrir mótstöðu hv. þm. gegn frv., þó að hann hafi ekki farið að láta uppskátt um það fyr en nú við 3. umr. málsins. Ef skipverjar á varðskipunum gætu gert fyrirvaralaust verkfall um leið og hásetar fiskiflotans og gerðu það, þá yrði ástandið það, að allur íslenski togaraflotinn og varðskipin lægju á höfnum inni, en erlendir togarar mokuðu landhelgina í friði á meðan. Þetta ástand er það, sem hv. þm. berst óbeinlínis fyrir. Háttv. þm. þarf ekki að halda það, að hann vinni flokki sínum neitt gott með þessari andstöðu sinni. Því að á meðan skipverjar á varðskipunum standa utan við verkföll sjómanna, þá skiftir stjórnin sjer ekki af þeim verkföllum; ef þeir taka þátt í verkföllunum, þá hlýtur ríkisstjórnin að skifta sjer af þeim vegna hinna erlendu togara, er stunda veiðar hjer við land og ef til vill nota sjer aðstöðuna meðan á verkfallinu stendur til þess að taka upp fiskinn hjer við landsteinana.

Jeg skil það vel, að hv. þm. væri illa við, ef verið væri að koma hjer upp her, en svo er alls ekki, Heldur er með frv. aðeins um stofnun lögreglu á sjó að ræða.