04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2321 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

19. mál, varðskip ríkisins

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 1. landsk. hefir nú játað, að þörf sje á löggjöf um þetta atriði, og þykir honum það helst að, að landsstjórnin hafi gengið óþarflega langt í till. sínum. Er það alveg gagnstætt þeim mótbárum, sem fram hafa komið úr annari átt. Jeg hefi nú áður skýrt frá því, hvers vegna stjórnin fór svona langt í till. sínum, og sje ekki ástæðu til að taka það upp. Ekki sje jeg heldur ástæðu til að fara enn á ný að tala um laun skipverjanna. En þegar hv. þm. talar um, að hann hafi ekki viljað festa svona marga menn á skipunum, þá á hann sjálfsagt við þegnskylduvinnuhugmynd þá, sem hann vildi koma á um stýrimannaskólanemendur. Þótt jeg sje nú yfirleitt ekki andvígur hugmyndinni um almenna þegnskylduvinnu, er jeg þó eindregið á móti því að taka út úr eina fámenna stjett manna og leggja á hana þegnskylduvinnu. — Jeg álít, að það hlyti að teljast ósanngjarnt.

Hv. þm. (JJ) fann það að, að eftir frv. yrðu fastir menn á skipunum. Hann áleit betra að vera altaf að skifta um menn, og get jeg látið hann um það álit sitt. Jeg fyrir mitt leyti held nú, að miklu betra sje að hafa vana menn á skipunum, og þeir leysi öll störf fljótar og betur af hendi. — Ef kenning hv. 1. landsk. væri rjett, þá ætti enginn embættismaður að vera ráðinn nema til skamms tíma, en sú regla veit jeg ekki til, að nokkursstaðar hafi verið tekin upp.

Háttv. þm. (JJ) talaði um, að umkvartanir hafi borist út af landhelgisgæslunni. Mjer finst það nú síst að furða, þótt 2 eða 3 skip geti ekki varið alla strandlengjuna fyrir ásælnum togurum. Einnig þykir hv. þm. tekið of lítið af íslenskum skipum í landhelgi. Þetta virðist mjer vera heldur „ópatriotiskt“ af honum. Mjer þykir þvert á móti ákaflega vænt um þetta, því að jeg veit, að skipstjórarnir á varðskipunum hlífa Íslendingum ekki fremur en öðrum, ef þeir hitta þá að veiðum í landhelgi. Þeir vita áreiðanlega, að landinu stafaði hætta af þessháttar framferði, ef það ætti sjer stað. — En landinu og sjálfstæði þess stafar hætta af þessum sífeldu brigslyrðum í þinginu í garð varðskipanna. — Út af áburðinum á skipstjórann á Óðni vil jeg segja, að eftir að hann hefir birt leiðrjettingar í blöðunum er ákaflega hart að heyra aðdróttanirnar endurteknar enn á ný í þingsalnum. (JJ: Jeg nefndi ekki Óðin!). Ónei, en það mátti skilja, hvert skeytunum var stefnt. — —

Nú heyri jeg, að hringt er til atkvgr. um fjárlögin í hv. Nd., og verð jeg því að fresta máli mínu í bili. Vil jeg biðja einhvern að taka við nú í svip, ef forseta sýnist ekki rjett að fresta fundi.