04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (1792)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg bjóst ekki við því, að við 3. umr. þessa máls yrðu eins miklar umr. um þetta frv. eins og orðið hafa. Enda hafa þær umr. lítið orðið annað en endurtekning á því, sem áður hefir verið sagt um málið. Á þetta sjerstaklega við ræðu hv. 1. landsk. (JJ). Jeg varð ekki var við, að þar kæmi neitt nýtt fram annað en áskorun sú til mín, sem hann kom með í lok ræðu sinnar. Úr því nú að hv. andmælendur frv. finna ástæðu til að halda umræðum áfram nú, þá er okkur hinum, sem fylgjum því fram, vorkunn, þó að við verðum að eyða tíma þingsins í að svara þeim.

Jeg þakka hv. 5. landsk. (JBald) fyrir það góða boð, að hann skyldi segja mjer nafn háseta nokkurs á Óðni, sem hefði komið til hans og sagst vera óánægður með væntanleg launakjör sín eftir þessu frv.; en jeg get sagt hv. þm. það, að jeg ætla mjer ekki að nota þetta boð hans, því að það er ekki nein nýjung, þó menn sjeu óánægðir með laun sín, hvort sem þeir eru embættismenn ríkisins eða aðrir. Það hefir borið á því nú upp á síðkastið sjerstaklega, að embættismenn hafa þóst verða varir við kreppu tímanna eigi síður en aðrir, og hefir mátt heyra, að þeir þykjast sitja við skarðan hlut. — Það er rjett hjá hv. þm., að starfsmenn skipanna verða — ef þeir verða gerðir að opinberum sýslunarmönnum — háðir þeim lögum, sem banna embættismönnum að gera verkfall, enda sje jeg ekki, að neitt gott gæti af því leitt, ef þeir gerðu það, heldur aðeins ilt eitt.

Hv. 1. landsk. (JJ) hjelt enn ræðu og kom enn með söguna um þessa 4 íhaldsmenn, sem hefðu átt að bera það á íslensku togarana, að þeir væru aðsúgsmestir í landhelginni. Hvað mig snertir sem flokksmann þessara Íhaldsmanna er jeg vitanlega ánægður með það, hve mikið þm. virðist leggja upp úr orðum þeirra, af því að þeir eru Íhaldsmenn. Það virðist svo, sem þm. líti svo á, að það hafi tvöfalt sannleiksgildi, sem er sagt af Íhaldsmanni.

Hjá þessum tveim hv. andmælendum frv. skiftir nokkuð í tvö horn. Hv. 5. landsk. álítur laun skipverja eftir frv. alt of lág, en hv. 1. landsk. þykja þau of há. Framtíðin mun nú leiða það í ljós, hvort launin þykja of há, og hvað útgerðarkostnað skipanna snertir eru þau ekki svo há, að ástæða sje til að óttast það, enda er sjeð fyrir því með sjerstökum skattaálögum, að fje sje fyrir hendi til að standa straum af útgerð skipanna. — Það er þessi 1/2%, sem nýlega hefir verið bætt við útflutningstollinn, sem ætluð er til þessa, jafnframt því að afla ræktunarsjóðnum tekna.

Þessar alvarlegu kvartanir, sem hv. 1. landsk. mintist á, yfir landhelgisgæslunni, eru víst aðallega þær, sem komu fram hjá hv. þm. Snæf. En þá var á það minst um leið, að á því tímabili, sem strandgæslunni við Snæfellsnes var ábótavant, hafi þær orsakir legið til þess, að Óðinn var í viðgerð ytra, Fálkinn í lamasessi og Þór einnig, að því er jeg veit best, einhverjum annarlegum störfum hlaðinn. Það var því töluvert öðru máli að gegna en þegar öll varðskipin hafa aðstöðu til þess að geta gætt landhelginnar. Sparnaðartill. þm. kemur í rauninni þessu máli ekkert við. En þegar það mál er orðið svo vel undirbúið sem vera ber, og þegar þeir menn, sem best skyn bera á þessi mál, telja það fært og geta mælt með því að flytja stýrimannaskólann um borð í varðskipin, þá útilokar þessi lagasetning enga möguleika í því efni. En eins og nú er ástatt, er engin leið að því að láta eina stjett manna inna af hendi þá þegnskylduvinnu, sem þm. vill láta nemendur stýrimannaskólans gera.

Það virðist svo, sem hv. þm. telji það sitt hlutverk, bæði utan þings og innan, að vera útgerðinni, einkum stórútgerðinni, þungur í skauti. Háttv. þm. gengur jafnvel svo langt, að hann reynir að umhverfa staðreyndum, til þess að líklegra verði, að honum verði trúað, þegar hann kemur fram með ásakanir sínar í garð þeirrar stjettar, sem að útgerðinni stendur. Háttv. þm. var stórorður um afskifti einstakra útgerðarmanna hjer í bænum, sem nú fylla Íhaldsflokkinn, af björgunarskipinu Þór, þegar það var keypt hingað, og vildi leggja það alt út á versta veg. En að halda því fram, að togaraeigendur hjer í Reykjavík hafi staðið á móti Björgunarfjelagi Vestmannaeyja á þeim tíma, er svo langt frá því að vera rjett, að það er þvert á móti algerlega ósatt. Því til sönnunar vil jeg geta þess, að af þeim 50 þús. kr., sem lagðar voru fram hjeðan frá Reykjavík til kaupa á björgunarskipinu, var meiri hlutinn frá togaraeigendum. Með þessu finst mjer útgerðarmenn hafa fullkomlega sýnt sinn góða hug til þess starfs, sem skipið hefir með höndum.

Þetta var hv. 1. landsk. áður kunnugt. Því að þegar hann áður hafði reynt að sverta þessa sömu stjett manna, var honum bent á þetta í blaðagrein af núverandi formanni Björgunarfjelags Vestmannaeyja, og jeg vona, að hv. þm. minnist þess enn. Hv. þm. taldi það furðu, að Vestmannaeyingar hefðu sent þann mann fyrir fulltrúa á þing, sem hefði gengið í bandalag við þessa menn, sem hann veittist að, og taldi, að þar hefði þetta mál einkum átt að koma til greina. Áskorun hv. þm. á mig um þessi efni get jeg vel virt að vettugi. En hv. þm. er fullkunnugt, hvað jeg hefi lagt til málanna síðan jeg kom á þing, og sá þingflokkur, sem jeg tilheyri, Íhaldsflokkurinn, hefir, vitanlega með stuðningi annara góðra manna hjer á Alþingi, komið strandgæslunni á þann rekspöl, sem hún nú hefir komist á. Þingsagan þessi árin er til vitnis um þetta. Og hvernig sem einstakir menn hafa litið á þetta mál í upphafi, þá hefi jeg sannarlega talið mjer skylt að ganga ekki framhjá neinum manni, sem hefir viljað vinna þessu máli gagn, hvort sem það hafa verið flokksmenn mínir eða aðrir.

Hv. þm. var að tala um, að samþykt þessa frv. væri það versta, sem hægt væri að gera fyrir strandgæslumálið; með öðrum orðum, það á að vera hinn mesti ógreiði málinu að semja skipulagsfrumvarp, sem grundvallar starfsemi varðskipanna. Svona ummæli og önnur slík frá þessum hv. þingmönnum (JJ, JBald) bera sannarlega ekki mikinn vott um pólitískan þroska þeirra. Hvort sem þeim er það sjálfrátt eða hjer er um óviljaverk að ræða, er það áreiðanlegt, að umræður þeirra um þetta mál hafa miðað að því að veikja landhelgisgæsluna í heild sinni með því að vekja tortryggni landsmanna á foringjum skipanna. Þeir hafa talað um þá sem hjegómagjarna menn og yfirdrotnunarsama og að yfirstjórnin væri ónýt. Slíkt tal miðar að því að veikja aðstöðuna inn á við, þá hliðina, sem veit að þjóðinni sjálfri. En hjer er ekki um svo volduga löggæslu að ræða, að hún megi við því, að við gerum sjálfir lítið úr henni að nauðsynjalausu eða kveikt sje andúð hjá landsfólkinu gegn varðskipunum og vakin tortryggni gegn því, að landhelgisgæslan sje sómasamlega af hendi leyst. Jeg held því fram, að þeir menn, sem að slíku vinna, geri málinu ekki lítið ógagn. Þeim mönnum, sem eiga að framkvæma landhelgisvarnirnar og björgunarstörfin, getur ekki staðið á sama um það, hvort landsfólkið trúir þeim til að leysa starfið vel og samviskusamlega af hendi eða ekki. Jeg held því fram, að ekkert hafi komið fyrir í starfsemi þeirra manna, sem nú stjórna varðskipunum, sem rjettlæti þær tortrygnisásakanir, sem hjer hafa verið bornar fram. Þó er ekki nema hálfsögð sagan um óleik þann, sem þessir háttv. þm. vinna málinu. Jeg hefi minst á þá hliðina, sem veit að þjóðinni sjálfri. En þeir vinna ennþá hættulegra verk út á við með því að vekja og halda á lofti orðasveim um það, að landhelgisgæslan sje leyst af hendi með hlutdrægni, að við hlífum samlöndum okkar við sekt eða hegningu, göngum á snið við þá, en látum lögin aðallega gilda fyrir útlendinga. En það er þetta, sem ráða má af ræðum þessara hv. þm. hjer og hjá flokksbróður þeirra í háttv. Nd. (HjV), þegar til umræðu var vantraust á stjórnina. Þeir ættu sjálfir að geta gert sjer ljóst, að það er ekki hægt að finna betra vopn en einmitt þetta til að leggja í hendur útlendra stórbokka, sem vilja halda því fram, að við höfum ekki rjett til að verja landhelgi okkar. Ekkert betra vopn verður þeim fengið til að afdæma rjett okkar en þetta, að lögin sjeu framkvæmd með hlutdrægni. Síðan Íslendingar fóru sjálfir að skifta sjer af landhelgisvörnum og reka þær með eigin skipum, hefir oft verið kvartað undan þeirri meðferð, sem útlendir togaraskipstjórar hafa þóst verða fyrir af hendi íslenskra yfirvalda. Það hefir verið reynt af hendi útlendinga að niðra strandgæslunni hjer og íslensku rjettarfari, svo að okkur hefir oft sárnað, hvílíkum reginfirrum hefir verið haldið fram í garð framkvæmdavaldsins hjer. Jeg hefi þó hvergi rekið mig á, að þessir útlendu menn hafi leyft sjer að halda því fram, að varðskipin sleptu íslensku togurunum út úr landhelginni, en tækju þá útlendu. Enn hafa ekki slíkar ákærur komið fram. En hvers skyldi mega vænta, þegar íslenskir alþingismenn marghampa orðasveim um þetta, orðasveim, sem jeg álít algerlega staðlausan. Sjá nú ekki þessir hv. þm., á hvaða hættubraut þeir stefna þessu stórmáli, sem við verðum að viðurkenna, að er stór liður í sjálfstjórnarbaráttu okkar? Sjá þeir ekki, hve þessar Gróusögur eru hættulegt vopn á okkur í höndum útlendinga? Eru þeir vissir um, að þetta borgi sig? Þrátt fyrir andúð þeirra gegn núverandi stjórn og ef til vill þeim mönnum, sem fara með skipin, og löngun til að skaprauna þessum aðiljum, verða hv. þm. að kunna sjer hóf í þessu efni. Eru þeir vissir um, að þetta borgi sig fyrir landið og geti ekki haft alvarleg eftirköst? Er hann viss um, hv. 5. landsk., nema eitthvað af því, sem hann segir hjer, kunni að berast út fyrir pollinn? En það er hann, sem fyrstur hefir kveðið upp úr með það hjer, hve gott það sje að mega tala hjer um hluti, sem ekki sje annarsstaðar hægt að tala um nema sæta ábyrgð fyrir. Hann verður að gæta að því, þessi hv. þm., að það er ekki nóg að hafa þennan rjett, ef ekki er gætt þeirrar skyldu, sem á þeim hvílir, er nota hann.

Jeg hefi nú leitt rök að því, að framkoma þessara tveggja háttv. þm. (JJ, JBald) miðar að því að skaða strandvarnarmálið bæði út á við og inn á við. Hún getur ekki leitt af sjer annað en ógagn fyrir þetta mál. Það er því full ástæða til að skora á þá að láta af þessum sífelt endurteknu ásökunum um hlutdrægni skipstjóranna í framkvæmd langhelgisgæslunnar.