04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

19. mál, varðskip ríkisins

Jónas Jónsson:

Jeg ætla að víkja að ræðu hv. þm. Snæf. (HSteins). Jeg hefi reynt að leiða rök að því, að ræða hans hafi verið þungur áfellisdómur um framkvæmdir landhelgisgæslunnar í vetur. Hann bar ekki á móti því, en tók það fram, að þrátt fyrir það mundi hann vera með þessu frv., þar sem landhelgisgæslan mundi ekki verða verri, þó að það væri samþykt. En þar sem hann leiddi engin frekari rök að þessu, hugsa jeg, að ræða hans haldi áfram að vera sterk aðvörun til þeirra, sem ekki tortryggja þann vitnisburð.

Þá kem jeg að hæstv. ráðh. (MG). Hann hafði tekið fram, að bæði frv. væru ein heild. Reyndar vildi hann ekkert fara út í launin. Hann er glaður yfir, að búið er að koma þeim frá. Hæstv. ráðh. hefir samviskubit út af því að hafa hindrað 30 þús. kr. sparnað, og svo reynir hann og stuðningsmenn hans að bjarga sjer út úr öllu saman með því að halda fram, að jeg sje að fara fram á þegnskylduvinnu fyrir þessa einu stjett manna. Þetta er vísvitandi rangfærsla. Jeg hefi aðeins farið fram á verklegt nám, sem mennirnir mundu þurfa að leysa af hendi hvort sem væri. Slíkt nám er heldur alls ekki sjerstakt fyrir þessa einu stjett manna. Verkfræðingar og læknar þurfa að leysa slíkt nám af hendi, og jeg veit ekki betur en að læknar, sem að öðru leyti eru útlærðir, sjeu notaðir til þess að gera fyrir ekkert það, sem öðrum mundi vera borgað fyrir, svo að þetta er alveg hliðstætt. Hæstv. ráðh. er hjer að bera fram vísvitandi blekkingu. Hann veit ofurvel, að hjer er um að ræða náin stýrimannaefna, sem bæði verður þeim að gagni — og ef til vill að meira gagni á þessum skipum en öðrum — og auk þess sparast við þetta fyrirkomulag 30 þús. kr. Mótþróa gegn þessu get jeg því ekki skoðað nema vott um óhóflega eyðslusemi og skilningsleysi á því að fara með alment fje.

Hæstv. ráðh. vildi neita, að gott væri að geta skift um menn, en hjelt því fram, að það leiddi til hinnar æðstu fullkomnunar að halda sömu mönnunum ár og síð. Þessu er nú þverneitað af hinum vitrustu önnum. T. d. hefir enska skáldið Wells skrifað merkilega bók þess efnis, að hann telur það hið mesta böl, að sami maðurinn skuli gegna sama starfinu æfilangt. Þegar menn eru búnir að gegna einhverju embætti í nokkur ár, þá eru þeir stirðir og dauðir. Annars vakir ekki þessi kenning fyrir mjer. Fyrir mjer vakir ekkert kerfi í þessu efni, heldur hitt, að mjer finst það hörmulegt að halda niðri góðum mönnum fyrir öðrum lakari. Það á ekki að hlaða undir einhvern meðalmann af gamalli venju, ef völ er á öðrum betri. Þessi regla gildir einmitt um þingmenn, og af þessari sömu ástæðu er það, að jeg er á móti lengingu kjörtímabilsins.

Jeg þykist nú hafa gengið frá þessari meinloku hæstv. ráðherra og hrakið þá kenningu, að verra sje að skifta um menn. Jeg vil taka það fram til skýringar, að stýrimaðurinn á öðru varðskipinu hefir sýnt meiri dugnað og þrautseigju en nokkur annar af þeim mönnum, að þeim ólöstuðum. Það er sagt vafasamt, að hann verði áfram með þeim launum, sem frv. gerir ráð fyrir. Mjer finst ekki ólíklegt, að hann eigi kost á öðrum störfum en þeim að vera æfilangt undirmaður, þar sem hann fær ekki að njóta hæfileika sinna nema að nokkru leyti. Jeg þekki þennan mann ekkert og veit varla, hvað hann heitir, svo að mjer ganga ekki til neinar persónulegar hvatir, eins og hv. þm. Vestm. vildi halda fram. En jeg get ekki fallist á heimsku hans nje annara, sem eru enn verri en hann. Hjer er verið að gera vitleysu af fávisku eða spillingu. Hv. þm. Vestm. má skrifa á hvorn liðinn, sem hann vill.

Hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri furða, þó að menn töluðu um slælega landhelgisgæslu. Það var eins og hann vissi eitthvað upp á sig. Hann sagði, að jeg væri svo óánægður með þetta og fanst það ljótt. Jeg hefi aldrei sagt, að jeg væri óánægður. Jeg hefi aðeins bent á þá staðreynd, að íslensku togararnir eru minna teknir en þeir útlendu. Í þeirri staðreynd liggur hætta fyrir sjálfstæði okkar, en það þorir hæstv. ráðh. ekki að kannast við, nje hans stuðningsmenn. Þjóðverjar hafa mokað upp fiski við Dyrhólaey, en vitnisburður fjögurra manna, sem ekki verður hrakinn, sýnir þó, að íslensku togararnir eru langverstir. Hvers vegna eru þeir ekki teknir? Hv. þm. Vestm. getur ekki skýrt þetta atriði nema með einu móti. Hann getur sagt sem svo: þm. Snæf. (HSteins) segir ósatt. Þm. Borgf. (PO) sagði ósatt 1924 um, að íslensku togararnir væru verstir, og þm. Barð. (HK) segir ósatt um, að þeir hafi komið svívirðilega fram gagnvart sjómönnum í hans kjördæmi. Málstaður hv. þm. Vestm. er slæmur, ef hann segir ekki þetta. Hv. þm. leyfir sjer að belgja sig upp og bera á þá, sem benda á þessa staðreynd, að þeir sjeu að svíkja föðurlandið. Jeg og hv. 5. landsk. erum að bjarga landinu með því að stuðla að því, að landhelgisgæslan verði sterk og óhlutdræg. (JJós: Þetta er órökstutt slúður). Þeirra þingmanna, sem hafa bent á misfellurnar? (JJós: Nei, hv. 1. landsk.). Jeg veit, að hv. þm. segir aldrei nema ósatt. Hann er eins og Eyjólfur Bölverksson málpípa ills málsstaðar. En hv. þm. þorir ekki að ráðast á bókfest ummæli flokksmanna sinna í þingtíðindunum. Jeg hefi ekki dregið þá ályktun, sem liggur opin fyrir, að landhelgisgæslan sje í ólagi. Ef hv. þm. getur samrýmt það, að gæslan sje sterk og trygg, en íslensku togararnir þó ekki teknir, þá geri hann það.

Aðdróttun hæstv. ráðh. um föðurlandssvik fellur máttlaus niður. Jeg verð að líta svo á, að það fari að gjósta um þá menn, sem sýnast liggja dæmdir undir dómi sjónarvotta víðsvegar um landið, viðvíkjandi föðurlandsást, en það eru alt stuðningsmenn hæstv. stjórnar. Er hægt að hugsa sjer öllu meiri svívirðingu en þá, að setja tæki í skipin til þess að geta verið óhultir í landhelginni, eins og fyrverandi 1. þm. G.-K. (Ág. Flygenring) hefir sagt frá. Hvað segja menn um annað eins og þetta? Á að hlífa slíkum mönnum?

Hæstv. atvrh. endaði ræðu sína með því að skora á þá, sem vilja láta landhelgisgæsluna ganga jafnt yfir alla, að hætta brigslyrðum. Hann hefði átt að snúa sjer til flokksbræðra sinna fjögurra, sem hafa skjallega lýst yfir þungum ásökunum í garð íslensku togaranna.

Þá kem jeg að ræðu hv. þm. Vestm. Hann byrjaði með því að láta í ljós undrun sína yfir því, að jeg skyldi trúa vitnisburði fjögurra íhaldsmanna, sem hefðu lýst íslenskum togaraeigendum svona. Jeg skal játa, að Íhaldsmönnum er ekki altaf hægt að trúa, en þegar svo stendur á, að þeir ásaka sína eigin fjelaga og vini, þá hlýt jeg að trúa þeim. Það er ekki gert af sömu ástæðu eins og þegar íhaldsflokkurinn beitir pólitísku ofbeldi við minni hluta þingsins. Þar eru þeir æstir af lágum hvötum. En þegar þeir hreinskilnislega bera vitni um atriði, sem skaða þeirra eigin fjelaga, þá er óhætt að trúa þeim, enda hefir hvergi komið fram nokkur vörn af hálfu Íhaldsmanna.

Nú vil jeg strax nota tækifærið til að benda hv. þm. Vestm. á það, að jeg hefi ekkert sagt, sem er eins meiðandi fyrir íslenska útgerðarmenn eins og vitnisburður hinna fjögurra íhaldsþingmanna. Jeg hefi aðeins dregið ályktanir af þeirra ummælum. Ásakanir hv. þm. í minn garð falla því dauðar niður. Hvað ætti þá að segja um þá menn, sem hafa verið sjónarvottar að ósvinnunni og gefa okkur hinum ástæðu til þess að mynda dóma?

Viðvíkjandi því, að launin sjeu of há, hafa engar mótröksemdir komið fram, og jeg hefi sýnt fram á, að hjer má spara 30 þús. á einum lið.

Eins og jeg hefi bent á áður, býst jeg við, að óhyggilegt sje að gera þennan mismun á launum skipstjóra og stýrimanna. Jeg hefi samúð með þeim tveim stýrimönnum, sem sýnt hafa sjerstakan dugnað í þessu starfi, þeim er fór til Englands og fjekk óþökk þáverandi stjórnarformanns fyrir það eitt, að hann sýndi framúrskarandi dugnað í ferð sinni. Þá hefi jeg og bent á, að sá, er fór með Þór um tíma í fyrra, eigi annan viðurkenningarvott skilið en að lækkuð verði laun hans.

Viðvíkjandi strandgæslunni segir þessi háttv. þm., að nóg fje sje til, en úr því svo er, því þá ekki að bæta úr eftirlitinu, t. d. við Snæfellsnes, þar sem 20–30 togarar hafa stundað veiðar í landhelgi um langan tíma í vetur, að því er þingmaður þess kjördæmis hermir. Þá hefir verið reynt að verja brotin við Snæfellsnes með því, að Óðinn hafi ekki verið hjer við land þá. Þessu hefir háttv. þm. Snæf. svarað og upplýst, að togararnir voru jafnt í landhelgi þar þann tíma, sem Óðinn var ekki ytra. En af hverju var Óðinn þá ekki við, er mest var þörf fyrir hann? Af því að þyngdarpunkturinn í stjórn og aðgæslu strandgæslunnar var á röngum stað. Hæstv. stjórn samdi um smíði skipsins, og bar þar af leiðandi alla ábyrgð á, hvernig það var úr garði gert, og hún hafði sjer til aðstoðar mann, sem var jafnsnjall henni, mann, er þóttist hafa vit á þessum hlutum, en hafði ekki. Því fór eins og stendur í vísunni: „Skrattinn fór að skapa mann, en skinnlaus köttur varð úr því.“ Nei, það verður ekki varið, að landhelgisgæslan við Snæfellsnes hefir verið vond, og er það enn.

Þá vil jeg svara hæstv. forsrh. (JÞ) nokkrum orðum. Hann raupaði mjög af þeim feiknadugnaði, sem skrifstofustjóri dómsmálaráðuneytisins sýndi í þessum málum. En það verður þó tæplega sagt, að strandgæslan við Snæfellsnes vitni mjög um þennan dugnað skrifstofustjórans. Annars finst mjer, að hæstv. ráðherra hefði sjálfur átt að geta bætt við sig þessari umsjón með skipunum, úr því að hann situr í hálfum öðrum ráðherralaunum. Nei, það hefir þótt hagkvæmara að gera þetta skipaeftirlit að „sportslu“ handa skrifstofustjóranum, svona í viðbót við endurskoðun áfengisverslunarreikninganna, sem hann hefir haft á hendi nú undanfarið, en aldrei gert svo mikið við sem að undirskrifa. Enda hafa endurskoðunarmenn landsreikninganna lýst megnri óánægju sinni yfir þeirri endurskoðun þessa áhugasama starfsmanns hæstv. stjórnar. Það virðist því rjettara að láta mann þennan hafa færri störfin og sjá jafnframt um, að hann leysti þau sæmilega af hendi. Annars virðist það svo, að nú í seinni tíð sje farið að bæta ekki svo fáum bitlingum við ýmsa í stjórnarráðinu, og sannast þar gamla máltækið, að „lengi má bæta pinkli á gömlu Skjónu“. Og þetta gerist alveg við nefið á hæstv. forsrh., sem segist vilja spara við alla, og það svo, að harm telur ekki fært að styrkja nokkra pilta til þess að ferðast á milli hafna innanlands. Já, meira að segja nærri því neitar að gera það fjárhagsins vegna, þó að honum sje beinlínis skipað það af þinginu. Að jeg fór inn á þetta nú og mintist á endurskoðun vínverslunarreikninganna, má hann sjálfum sjer um kenna, því jeg var neyddur til þess, þar sem hann var að hæla svo mjög hinu góða eftirliti með skipunum og áhuga skrifstofustjórans fyrir starfi þeirra.

Háttv. þm. Vestm. sagði, að jeg hefði sagt, að flytja mætti stýrimannaskólann út í varðskipin. Þetta hefi jeg aldrei sagt, en vel má vera, að það væri hægt, ef menn þeir, er með þau fara, væru svo vel mentaðir, að þeir gætu annast kenslu skipstjóraefnanna. Að minsta kosti lærðu þeir þó töluvert verklegt. Þá sagði þessi hv. þm., að jeg virtist vilja vera þungur í skauti í þessu máli, bæði utan þings og innan. Það, sem jeg hefi sagt hjer, er það, að jeg vil, að strandvarnirnar komi að sem mestu gagni, en hann virðist vilja, að sem mestur sljóleiki sje í þeim, eins og t. d. hefir verið við Snæfellsnes í vetur.

Jeg hefi nýlega heyrt, að skipstjóri einn, er kom til Hafnarfjarðar nú ekki alls fyrir löngu, hafi kvartað mjög undan því, að hann þyrði ekki að vera í landhelgi, af því að fjelag hans væri svo fátækt, að það gæti ekki borgað sekt, ef illa færi. Hefði hann því ekki fengið annað en ufsa, í stað þess sem hinir fengu allir ágætis afla af allskonar góðfiski, enda voru þeir allir í landhelgi. En varðskipin finna þá ekki.

Að jeg sje á móti útgerðarmönnum, er sagt út í bláinn. Jeg er aðeins á móti þeim að því leyti, að jeg vil ekki, að þeir fremji lagabrot fremur en aðrir borgarar þjóðfjelagsins. Jeg vil gjarnan fá ámæli hjá hv. þm. Vestm. fyrir það, að jeg vil ekki láta eyðileggja hrygningarstaðina við ströndina.

Þá vildi þessi háttv. þm. halda því fram, að útgerðarmenn hjer í Reykjavík hefðu verið mjög hjálplegir, þegar verið var að byrja að koma hinni íslensku landhelgisgæslu á; hefði það sýnt sig meðal annars í því, að þeir hefðu verið fúsir til að leggja fram fje í Þór. Úr því að hv. þm. fann ástæðu til að minnast á þetta, þá vil jeg upplýsa það, að þeir útgerðarmenn hjer, sem lögðu fram fje í Þór, gerðu það með það fyrir augum, að hann ætti að vera björgunarskip. Sannaðist þetta best, þegar farið var að veita fje til hans til þess að fara eitthvað frá Vestmannaeyjum til landhelgisgæslu; þá voru útgerðarmenn á móti honum. Í þinginu voru allir með Þór nema þeir, sem nú skipa Íhaldsflokkinn. Máttu þeir Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn eiga í sífeldum útistöðum við foringja núverandi íhaldsmanna um Þór. — Þessir íhaldsungar vildu ekki láta skipið fá neitt til landhelgisgæslu.

Sje það rjett, sem vitanlega er margsannað, að útgerðarmenn hafi látið setja dýr loftskeytatæki í togarana til þess að þeir gætu þeim mun óhultari fiskað í landhelgi, þá er það rjett ályktun, að þessa menn hungrar ekki nje þyrstir eftir aukinni landhelgisgæslu. Það væri þá líkt um þá eins og músina, sem pantaði köttinn til að vera yfir sjer.

Hv. þm. Vestm. veit kannske ekki, að þeim manni, er myndaði núverandi stjórn, var í fyrri stjórnartíð sinni boðinn Þór til landhelgisgæslu fyrir norðan, en hann hafnaði því boði. Þegar svo stjórn sú kom til valda, sem að nokkru leyti var studd af Framsóknarflokknum, sneru umráðamenn Þórs sjer til hennar og gerðu henni þetta sama tilboð. Hún leitaði aftur álits miðstjórnar Framsóknarflokksins, sem þegar lagði eindregið með því, að Þór væri tekinn á leigu til landhelgisgæslunnar. Þetta var því fyrsta sporið í áttina til sjálfstæðrar landhelgisgæslu hjá okkur. Þegar svo Íhaldsflokkurinn kom til valda, var búið að vinna erfiðasta verkið í þessu máli, meðal annars með því að brjóta á bak aftur það erlenda vald, sem sagði, að við Íslendingar hefðum ekki rjett til þess að hafa sjálfir varðskip. Þetta var gert af stjórn, sem studd var af Framsóknarflokknum. Það eina, sem núverandi stjórn getur því hælt sjer af í þessu máli, er smíðið á Óðni, og jeg held, að þeir sjeu ekki margir, sem öfunda hana af þeirri frægð. Þá kom þessi hv. þm. með það, að jeg hefði gagnrýnt yfirstjórn varðskipanna, en það væri skaðlegt vegna álitsins út á við. En meðan ekkert verður hrakið af því, sem jeg sagði, stendur ályktun mín keiprjett. Og jeg vil meira að segja bæta við og segja frá dálitlu atviki, sem kom fyrir nú ekki alls fyrir löngu, til þess að sýna fram á, hversu útgerðarmenn bera landhelgina mjög fyrir brjósti. Skipstjóri einn var kærður fyrir að hafa verið við veiðar í landhelgi suður í Garðsjó. Mál hans gekk til hæstarjettar og var hann dæmdur sekur. Sagði þá útgerðarstjórinn, sem nú á sæti hjer á Alþingi og er flokksbróðir háttv. þm. Vestm., að ekki kæmi til mála, að hann ljeti skipstjórann fara, af því að hann væri svo veiðinn! Þetta kalla jeg ljelegan „móral“ gagnvart lögum landsins.

Niðurlagskaflinn í ræðu hv. þm. var um það, að við, sem ekki værum ánægðir með þetta frv., legðum vopnin í hendur útlendinga til þess að tortryggja landhelgisgæslu okkar. Þetta þykir mjer undarlegt. Hvers vegna talar hann ekki um, hve lögbrotahneigðin er rík hjá íslenskum togaraeigendum? Honum finst þeir ekki skapa hættuna gagnvart tortrygni útlendinga. En þar liggur hættan einmitt. Útlendingum er vel kunnugt um, hve margir íslenskir togarar eru teknir fyrir landhelgisbrot og hve margir útlendir, og vita jafnvel um landhelgisbrot beggja. Tortrygnin verður því ekki útilokuð með því að hylma yfir brot Íslendinganna, heldur þvert á móti þarf að ganga að þeim með oddi og egg, þegar þeir brjóta, þangað til þeir hætta að brjóta landhelgislögin. Háttv. þm. Vestm. gerði því rjett, ef hann ljeti íhaldsblöðin taka þetta mál til umræðu á þessum grundvelli og brýna fyrir íslenskum togaraeigendum og togaraskipstjórum að brjóta ekki landhelgina; það myndi verða honum til sóma, en ekki til skammar, eins og stefna hans í málinu nú.

Nei, jeg er alls ekki með því, sem jeg hefi sagt hjer, að ala á tortrygni útlendinga, heldur er jeg að reyna að koma því inn hjá rjettum hlutaðeigendum að fara þá einu rjettu leið til þess að losna við tortryggnina. En sú framkoma íslensku lögbrjótanna og fiskiþjófanna, sem hv. þm. Vestm. er altaf að bera skjöldinn fyrir, er ekki til annars en spilla fyrir og ala á tortryggninni. Og það er það, sem rýrir virðinguna fyrir landi okkar og þjóð meira en nokkuð annað. Jeg vil því biðja þennan háttv. þm. að beina áminningum sínum til annara en mín, og væri þá ekki úr vegi, að hann beindi þeim til einhverra sinna pólitísku bræðra, sem í þessum efnum bera sektina með honum.

Úr því að hv. þm. var að vara við því að spilla fyrir landinu út á við, þá er ekki úr vegi að minna hann á, að til eru þeir Íslendingar, sem leggja það í vana sinn að skrifa níð um mótstöðumenn sína í erlend blöð. Þannig hefir einn íhaldsmaður, Garðar Gíslason, látið setja mynd af sjer í norsk blöð, ásamt frámunalega dónalegri grein um tvo Framsóknarflokksmenn, út af innanlandsmálum. Það er Vilhjálmur Finsen, sem veikir málstað landa sinna erlendis með slíkum greinum, og sömuleiðis þeir menn aðrir, sem eru að bera í erlend blöð innlend deilumál, eins og gert hefir verið tvívegis af einum af samherjum háttv. þm. (JJós: Ætli mjer sje ekki sama!). Já, jeg býst við því, að hv. þm. sje sama, en það skiftir líka máli hjer, að einn af helstu mönnum íhaldsins er að ávíta landa sína í útlendum blöðum fyrir framkvæmd bannlaganna. Ef hv. þm. hefir ekki skilning á því, hversu vítaverð framkoma þessara samherja hans er gagnvart landi og þjóð, þá ætti hann að spara sjer stóryrðin.

Það hefir verið sagt, að það hafi komið fram hjá mjer andúð gegn foringjunum á varðskipunum. En jeg vil taka það fram, að jeg hefi, og það meira að segja einn, viljað láta þann manninn, sem mestan dugnað hefir sýnt, njóta einhverrar viðurkenningar. Það er langt frá því, að jeg hafi nokkra andúð gegn þeim mönnum, sem nú eru foringjar á skipunum, en hitt er annað mál, að jeg vil ekki loka augunum fyrir staðreyndum og að mjer dettur ekki í hug, þótt nú kunni að vera góðir menn á skipunum, að vilja hafa skipulagið þannig, að hætta sje á, að þeir eða eftirmenn þeirra njóti sín ekki síðar. Þá vil jeg skora á hv. þm. Vestm. að segja það, hvaða afbrot jeg hafi nefnt hjá foringjunum. Jeg hefi aðeins sagt það, að jeg vildi, að skipulagið væri gott, og jeg tók fram í dæminu um Ólaf helga og Grímsey, að Einar Þveræingur var ekki að miða við samtíð sína eina, heldur leit hann miklu meira á framtíðina. Og háttv. þm. Snæf. hefir sagt frá mjög óþægilegum hlutum, sem sjónarvottar hafa skýrt frá, og ef hægt er að áfella mig, þá er það líklega af því, að jeg hefi ekki tortrygt þessa frásögn.