04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1795)

19. mál, varðskip ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er satt að segja afsakanlegt, þótt menn undir þeim löngu ræðum þeirra samherjanna, hv. 1. og 5. landsk. (JJ og JBald), eins og dálítið gleymi því, hvað það er, sem þetta frv. fjallar um, sem hjer liggur fyrir, því að ræður þessara hv. þm. fara, eins og eðlilegt er, alveg fram hjá því aðalatriði, vegna þess að það hentar ekki þeirra málstað, að minst sje á það. Vil jeg þá í sárfáum orðum minna á það, að aðalatriðið í þessu frv. er það, að gera þá menn, sem framkvæma þessa landhelgisgæslu af okkar hálfu, að löglegum löggæslumönnum á landhelgissvæðinu, og þetta þýðir að skapa þeim þá aðstöðu gagnvart lögbrjótunum, sem lögreglulið ávalt hefir og á að hafa gagnvart slíkum mönnum. Ef þeir, sem landhelgisgæsluna hafa, eru ekki lögreglumenn, heldur aðeins borgarar úr hinu íslenska ríki, þá hafa lögbrjótarnir miklu óbundnari hendur við þá heldur en ef þeir eru lögreglumenn, skipaðir með lögum. Það vita allir, að það hefst ákaflega mikið á því að veita lögreglunni mótþróa, þegar hún er að sínu starfi. Það kemur einatt fyrir, að lögreglan verður að beita valdi, til þess að koma sínu máli fram, og þá varðar það hörðum refsingum fyrir þá, sem leyfa sjer að sýna henni mótþróa. En aðstaða borgarans, sem fer með lögregluvald, er alt önnur; hann á ekki sjerstaka kröfu til þess, að honum sje ekki sýndur mótþrói, ef hann fer að beita valdi, þótt jafnvel að hans áliti sje um lögbrot að ræða. Það sýnist þess vegna vera svo sjálfsagt, að þeir menn, sem með strandgæsluna fara, eigi að fá þessa aðstöðu að lögum, til þess að fara með lögregluvaldið, og hafa þar með öll þau rjettindi gagnvart þeim, sem sekir eru eða grunaðir um lögbrot, sem lögregluvald landsins hefir.

Hv. 1. landsk. hefir æðioft notað þau ummæli, að þetta skipulag svæfði ábyrgðarmeðvitund þeirra, sem með löggæsluna fara, en jeg verð að segja það, að ef hv. þm. er á móti þessu frv., sem virðist vera, eftir hans löngu ræðum, þá er það hv. þm. sjálfur, sem vill fara fram á það skipulag, sem svæfir lögbrjótana og lofar þeim að vera rólegum við sína iðju, heldur en ef þetta frv. verður að lögum. En jeg held, að tilgangur okkar hljóti að vera sá, að gera strandvarnirnar sem öflugastar á hvern hátt sem við getum, og eitt af því, sem löggjafarvaldið getur gert, er það, að setja þá tilhögun, sem leggur þung viðurlög á hvern þann, sem ekki hlýðir fyrirskiptmum strandgæslumannanna.

Um einstök atriði frv. er búið að fjalla vandlega í nefnd, og þar hafa menn úr báðum flokkum þingsins orðið sammála, og mjer finst fyrir mitt leyti, að það ætti að mega treysta því, eftir að það hefir verið athugað í nefnd, að ekki sje sjerstaklega mikið að athuga við einstök atriði frv., og hv. þdm. geta þess vegna rólegir greitt frv. atkvæði, þar sem ekki liggja neinar brtt. fyrir. Jeg ætla svo ekki að fara neitt verulega út í ræðu hv. 1. landsk., en hv. þm. hefir víst fundist, að hann mætti ekki láta þetta tækifæri ónotað til þess að draga upp þá mynd af sjálfum sjer sem þm., sem hann, því miður, hefir svo oft auglýst í þessari deild, sem hefir orðið að taka við honum, en hv. þm. er það ekki of gott að gefa þessa lýsingu af sjálfum sjer svo oft sem honum þurfa þykir, og verð jeg að segja það, að íhaldsmenn geta ekki verið annað en ánægðir með það, að hv. 1. landsk. sje sem iðnastur að sýna þessa mynd af sjer, því að hv. þm. má vita það, að það er ekki hægt að benda á neinn mann, sem sje eins mikilvirkur við að þræla kjósendum úr Framsóknarflokknum inn í Íhaldsflokkinn eins og háttv. 1. landsk., þegar hann er í þessum ham.

Það voru ósannindi í garð látins manns, þegar hv. þm. (JJ) var að segja það, að sá stýrimaður, sem farið var með til Englands í fyrra, hafi fengið óþökk hjá þáverandi forsætisráðherra fyrir það að hann hefði látið gera þetta.

Jeg tók svo eftir, að hv. þm. segði það um mig, að jeg hefði einhver viðbótarlaun. Þetta vil jeg leiðrjetta. Jeg hefi fyrir mitt starf engin laun önnur en þau, sem því embætti eru lögð að lögum.

Þá þótti hv. þm. ástæða til þess að fara enn á ný að svala sjer á einum af bestu embættismönnum landsins, sem er andstæðingur hans í stjórnmálum, einum af skrifstofustjórunum í stjórnarráðinu. Jeg þarf ekki að lýsa því, hversu lítt viðeigandi það er að ráðast hvað eftir annað á menn, sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sjer á þessum stað, en jeg hygg rjett að gefa hv. deild þá rjettu skýringu á þessu atferli hv. þm., úr því að hann hefir svo oft vegið í þann sama knjerunn. Það er svo, að skrifstofustjórinn á dómsmálaskrifstofunni hefir það hlutverk á hendi að vera ráðherrunum til aðstoðar um það, að haldin sjeu landslög, að því leyti sem framkvæmd þeirra fellur undir stjórnarráðið. Þessi maður hefir einu sinni gert háttv. 1. landsk. þann ógreiða að koma í veg fyrir, að hv. 1. landsk. gæti heppnast að fá hlutaðeigandi ráðherra, sem var flokksbróðir hv. þm., til þess að framkvæma lagabrot, lagabrot, sem hv. 1. landsk. fór fram á, að framið væri í pólitískum tilgangi við kosningar, til þess á ólöglegan hátt að hindra kosningu. (JJ: Nánari skýringu). Skjöl um þetta eru til. Þetta hindraði skrifstofustjórinn, og síðan getur hv. 1. landsk. ekki litið þennan góða embættismann rjettu auga.