04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg hefi oft átt tal við menn um landhelgisgæslumálið yfir höfuð, en aldrei orðið þess var, að ekki væri hægt að ræða það út af fyrir sig reiði- og hitalaust, fyr en háttv. 1. landsk. kemst inn í þær umr. Jeg get á minn hátt verið ánægður með það, að skapið hljóp með hann í gönur í síðustu ræðu hans og í stað þess að halda sjer við málið veittist hann að mjer með dálitlum skömmum. Það sýnir, að hv. þm. hefir fundið, að hann þurfti að snúa við blaðinu frá þeirri stefnu, sem hann hjelt fram áður og hafði á oddinum, og fer nú að bregða mjer um fávisku o. fl. o. fl. Harma jeg ekki það hlutskifti, því að svo vel sem hv. þm. hefir vit á ýmsum málum — og því neita jeg ekki, að hann kunni að bera gott skyn á þau mál, sem hann vill setja sig inn í —, þá hefir hann þó hjer slegið slöku við að kynna sjer rjetta málavöxtu.

Hv. þm. talaði mikið um það, að ef jeg vildi ekki lýsa nokkra ákveðna íhaldsmenn ósannindamenn, þá lægi jeg. En í hverju jeg lægi, það mintist hv. þm. ekki á. En jeg þarf ekki að eyða orðum að því, að þessi ummæli standa á þeirra reikning, og þarf jeg hvorki nje á að svara fyrir þau. En hv. þm. hefir nú notað þessi ummæli, sem eru nokkurra ára gömul, sem undirstöðu að árásarefnum á landhelgisgæsluna yfir höfuð, á hina nýbyrjuðu íslensku landhelgisgæslu. Þau hafa gefið honum, að því er virðist, kærkomið tilefni til þess að hella sjer út yfir landhelgisgæsluna og um leið yfir útgerðarmenn, og þá sjerstaklega togaraeigendur. Jeg hafði bent hv. 1. landsk. á það, hver hætta gæti stafað af ummælum hans og annars þm. (JBald) í þessu máli, og jeg veit ekki til, að hv. þm. (JJ) hafi með rökum hrundið því, sem jeg sagði í því efni. Það var hættan bæði inn á við og út á við, sem jeg benti á. Þetta kallaði hv. þm., að jeg hafi belgt mig upp. En jeg ætla ekki að vera að eltast við skammaryrði hans, því að þau stafa af hans æsta skapi. En það er augljóst, að hættan, sem jeg benti á, er til, og svo hitt, að í stað þess að afsanna það, þá tók hann upp það ráð að tyggja upp margendurtekin ummæli nokkurra þm. úr Íhaldsflokknum, þar sem þeir átöldu landhelgisgæsluna. Hann slær því föstu um íslensku sjómannastjettina, að hún sje hneigð til lögbrota. (JJ: Það voru frekar útgerðarmennirnir). Í ræðu hv. þm. áttu báðir óskilið mál. En hafi hann átt við útgerðarmenn, er hann sagði þetta, þá hefir hann þó að minsta kosti átt við sjómennina, er hann talaði um fiskiþjófana, sem færu inn í landhelgi til þess að stela fiski. Jeg skrifaði þessi ummæli upp eftir honum, svo að honum þýðir hjer ekki í móti að mæla.

Þá kom hv. þm. að því, að ósvarað væri, hvers vegna íslenskir togarar væru aldrei teknir í landhelgi. Það er þó svo, að þeir hafa verið teknir. Hann sagði líka, að meðan ekki væri tekinn neinn íslenskur togari væri Þjóðverjunum mokað upp. En hann gleymir alveg að gera hjer samanburð. Í ákafanum eftir að fá íslenska togara tekna gleymir hann því gersamlega, að útlendu skipin skifta hundruðum, en þau íslensku eru nú um 40, en hafa verið mun færri áður. Er ástæða til þess að ætlast til, að altaf komi auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, að á móti hverju útlendu skipi, sem tekið er, verði einnig íslenskt skip tekið? Það virðist þó ekki vera eðlilegt. En þegar komið hefir fyrir, að af hinum fáu íslensku skipum hafa skip nokkuð oft orðið fyrir sektum, þá má gera ráð fyrir, að þau hafi verið tekin tiltölulega jafnoft og hin útlendu. En þó að svo væri nú ekki, þá sannar það ekki, að það komi af hlífð varðskipanna gagnvart íslensku togurunum. Enda er það áreiðanlegt að því er snertir þetta mál, að nefndin, sem fjallaði um frv., leggur ekki til, að það verði samþ. með það fyrir augum, að íslensku togurunum eða lögbrjótunum verði sýnd nokkur vægð af strandvarnarskipunum. En það er búið að umhverfa svo rjettum ástæðum í þessu máli af hálfu andmælenda frv., að margur gæti ímyndað sjer eftir orðalagi háttv. 1. landsk., að nefndin vilji taka í forsvar alla lögbrjóta. En fjarri fer því. Nefndin óskar ekki, að lögbrjótunum, hvort sem þeir eru útlendir eða innlendir, sje sýnd nein vægð. Við göngum ekki út frá öðru en að varðskipin leysi starf sitt vel og samviskusamlega af hendi.

Það virðist á andanum og orðalaginu í ræðum háttv. 1. landsk., sem honum sje það kappsmál, að íslensku togararnir yfir höfuð verði sem mest fyrir sektum og hegningu. Hinar síendurteknu spurningar um það, hvers vegna íslensku togararnir sjeu ekki teknir og sektaðir, virðast stafa af því, að hv. þm. vilji gjarnan sjá meira af því tæginu. En jeg býst við, að flestir sjeu hjer annarar skoðunar og óski heldur, að íslensku togararnir finnist ekki svo mjög sekir í því að brjóta landslög, að þeir verði oft fyrir hegningu þess vegna.

Hv. þm. hafði það rjett eftir mjer, að jeg sagði, að ræður hans bæru þess vott, að hann vildi vera útgerðinni, og þá sjerstaklega stórútgerðinni, þungur í skauti. En það eru ekki aðeins ræðurnar, heldur og öll hans skrif, sem bera það með sjer. Þó vildi hann láta líta svo út, sem þetta væri sprottið af heilagri vandlætingu yfir því, að lögunum væri hlýtt. En ef svo væri, þá yrði hann að afsanna það, sem jeg hefi nú um hann sagt, fyrir alþjóð með því að umskrifa ekki svo fáar ræður sínar á þingi og enn fleira af skrifum sínum í blöðunum. Það er enginn greiði ger, hvorki útgerðinni nje landhelgisgæslunni, að vera að hlaupa eftir öllu, sem sagt er íslenskum fiskimönnum til miska, og nota jafnt sem staðreyndir, þótt það sje ekki nema orðasveimur, til þess að halda fram öllu því fáránlega, sem hv. 1. landsk. hefir komið fram með í umr. um þetta frv. sjerstaklega.

Jeg hefði ekki álitið ástæðu til þess að minnast á fjárframlög útgerðarmanna í Reykjavík til kaupa á björgunarskipinu Þór, ef jeg hefði ekki verið knúður til þess vegna árása hv. 1. landsk. á þá, árása, sem ekki koma fram nú í fyrsta sinn, og ásakana um. það, að þeir væru og hefðu verið landhelgisgæslumálinu óhollir. Jeg held einmitt því gagnstæða fram að því er snertir allan fjölda þeirra. Jeg held, að íslenskir útgerðarmenn hafi skilið betur en stjettarbræður þeirra erlendis, að örugg landhelgisgæsla væri til bóta, er til lengdar ljeti, jafnvel fyrir stórútgerðina. En hv. þm. vildi nú sanna hitt, að því er honum virtist á einfaldan hátt, með því að vísa til þess, að útgerðarmennirnir hlytu að vera á móti langhelgisgæslunni, af því að þeir hefðu augnablikstjón af henni. (JJ: Vitnin ganga á móti þeim um brotin). Vitni þau, sem hv. þm. nefndi, kunna að hafa sagt það, sem hann hefir haldið fram. En það eru til fleiri vitni í þessu máli en þau, sem hv. 1. landsk. taldi upp, og er þar ekki hvað síst stuðningur útgerðarmanna við björgunarfyrirtæki Vestmannaeyinga, Þór, sem þeir þó vissu, að átti að hafa eftirlit með landhelgisgæslunni jafnhliða björgunarstarfseminni. Því að það var ekki farið dult með það. Við, sem gengumst fyrir því, drógum enga dul á, að björgunar- og eftirlitsstarfsemin bæði gæti og ætti að fara saman, eins og líka reynslan hefir sannað þessi 6 ár.

Háttv. 1. landsk. fyrirbyggir ekki neina hættu með ummælum sínum í garð skipherranna á varðskipunum, en gefur aðeins, eins og jeg hefi bent á, þeim, sem utan við standa og ekki þekkja til, t. d. útlendingum, ástæðu til þess að halda, að hjer sje um hlutdrægni að ræða í eftirlitinu. Jeg hefi áður bent á þá hættu, sem af þessu getur stafað, enda er hún svo augljós, að hún liggur í augum uppi, líka vegna þess, að jeg hefi ekki orðið var við, að okkur væri borið þetta á brýn af hálfu útlendinga. Þó að þeir hafi ýmislegt haft að athuga við framkvæmd landhelgisgæslunnar, dirfast þeir aldrei að halda því fram, að strandvarnarskipin eða þeir, er þeim stjórna, gerðu sjer mannamun. En þeirra sögumenn eru skipstjórarnir á útlendu togurunum, sem sigla og fiska á svipuðum svæðum og íslensku togararnir. Væri því full ástæða til þess, að það kæmu fram kvartanir frá þess um mönnum um hlutdrægni, er sýni væri gagnvart útlendingunum, ef minsti fótur væri fyrir því. Svo mikið er okkur kunnugt af því, sem útlendu togaraskipstjórarnir bera um viðskifti sín við íslensk yfirvöld, er þeir koma heim til sín, að þeir hefðu varla farið að láta þetta liggja í láginni. Þeir hefðu sagt frá því, ef þeir hefðu haft hina minstu átyllu til þess. En það hafa þeir ekki gert. Jeg hefi sjeð flest þau plögg, er að þessum klögumálum lúta, en jeg hefi hvergi þar sjeð þessu haldið fram. En hv. 1. landsk. þykist um þetta vita betur en mennirnir á sjónum. Enda þótt það komi fyrir, að íslenskir togarar veiði í landhelgi og hafi verið sektaðir fyrir það, þá er það skoðun mín, að það sje með öllu rangt og óverðskuldað að bera það á skipstjóra íslenska fiskiflotans yfirleitt, að þeir muni vera verstir lögbrjótar þeirra, er fiskiveiðar stunda hjer við land. En þessu hefir hv. 1. landsk. haldið fram. Jeg veit, að hv. þm. muni þessari fullyrðingu sinni til sönnunar vitna í ummæli, er nýlega hafa fallið hjer í þessari hv. deild. En jafnvel þó að fótur væri fyrir því, að einhverjir íslenskir togarar fiskuðu í landhelgi, þá væri samt sem áður alls ekki rjett að draga af því þá ályktun, að íslensku skipstjórarnir yfir höfuð væru verstu lögbrjótarnir og hafa um þá þau orð, sem hv. 1. landsk. hefir látið sjer sæma að viðhafa Jeg ætla mjer ekki að fara að taka þau orð hv. þm. honum til ánægju upp eftir honum, enda hygg jeg, að hv. deildarmönnum væri lítil ánægja í því að heyra aftur þau skammaryrði, sem hv. þm. hefir haft hjer um íslensku sjómennina, sem að líkindum eru duglegustu sjómenn heimsins.

Jeg mundi ekki hafa tekið til máls hjer við þessa 3. umr., ef umræður hefðu ekki verið hafnar af andstæðingum frv. En þar eð svo fór, þá taldi jeg mjer skylt fyrir hönd nefndarinnar að verða til andsvara.

Þrátt fyrir alt það, sem háttv. 1. landsk. hefir spunnið utan um þetta mál, þá er það ljóst orðið af umræðunum, að nefndin og þeir, sem frv. fylgja, vilja hafa skipulagsbundið landhelgiseftirlit, og að þeir bera tiltrú til þeirra manna, sem nú fara með gæsluna, en hafa hinsvegar ekki óbifanlega trú á söguburði hv. 1. landsk. um íslensku sjómannastjettina. Hinsvegar er það einnig ljóst, að þeir hv. þm., sem beita sjer gegn frv., hafa ekki trú á því, að rjett sje og heppilegt, að menn þeir, er að strandvörnunum standa, sjeu gerðir að opinberum sýslunarmönnum, og að þeir vantreysta þeim í starfi þeirra. Háttv. 1. landsk. reyndi í lok ræðu sinnar að breiða yfir það, að komið hefði fram í ræðum hans andúð gegn skipherrunum á varðskipunum íslensku. En hv. þm. hefir hvað eftir annað gert sig beran að því að búa til sakir á hendur þeim og draga sínar ályktanir af þeim tilbúningi. Það er því trauðla hægt fyrir hv. þm. að mótmæla því, að komið hafi fram í ræðum hans andúð gegn þessum mönnum.

Jeg sje, að hv. 5. landsk. (JBald) er ekki viðstaddur, enda hefi jeg honum ekki miklu að svara. Hann var hættur við að andæfa frv. jafnmikið og áður. Þó er það eitt atriði í ræðu hv. þm., sem jeg vil ekki láta ómótmælt. Hann sagði, að undirmennirnir á varðskipunum ættu að vera þrælar. Jeg þarf ekki að endurtaka það, sem jeg sagði áður um afstöðu þessara manna á skipunum, en jeg gaf ekkert í skyn um það, að þeir ættu að vera þrælar, enda er hvergi hægt að ráða það af nál. En hinsvegar sagði jeg, að jeg áliti aga og reglu nauðsynlega á skipunum.

Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta mál frekar. En ef hv. 1. landsk. óskar að halda áfram umræðum í svipuðum dúr og hingað til, þá áskil jeg mjer rjett til stuttrar athugasemdar.