04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1798)

19. mál, varðskip ríkisins

Jónas Jónsson:

Hv. 2. þm. Rang. (EJ) hjelt áðan stutta ræðu í umvöndunaráttina út af því, hve margar og langar ræðurnar hjer í hv. deild væru. Jeg vildi leyfa mjer í þessu sambandi að benda þessum hv. þm. á það, að jeg hygg, að aldrei hafi hjer á þinginu verið haldin ræða eins langt frá efni málsins og ræða hans. Hv. þm. bar mjer það á brýn, að jeg hefði haldið því fram, að með frv. þessu væri verið að stofna 500 ný embætti. Hefir hv. þm. farið í þessu efni eins og sumum mönnum, er sjá 11 þar, sem ekki nema um 1 er að ræða, eða 2 flugur fyrir 1. Hv. þm. hefir sem sje í þessu efni sjeð 2 núll í staðinn fyrir eitt. Jeg sagði sem sje, að með frv. væri verið að búa til 50 ný embætti. Annars sýndi hv. þm. tveimur hv. þm. (BK og MK) hina megnustu móðgun með því að fara að hæla þeim, og geri jeg ráð fyrir, að þessir hv. þm. neyðist til þess að bera af sjer sakir, því jeg álít, að það sje þeim til lítils sóma að vera hælt af þessum hv. þm.

Jeg er hæstv. ráðh. (JÞ) þakklátur fyrir það, að hann hefir nú viðurkent þá skoðun mína, að íslenskir togaraeigendur skipi skipstjórum sínum að toga í landhelgi. Hann hefir líka sagt á þingi, að brot íslenskra togara væru ekki eins þungvæg og brot útlendra manna.

Hæstv. ráðh. var með dylgjur um það, að skrifstofustjóri í stjórnarráðinu hefði haft til meðferðar lögbrot í sambandi við mig. Jeg hefi aldrei átt í neinu lögbrotamáli, og stend jeg þar öðruvísi að vígi en hæstv. ráðh., sem hefir játað það opinberlega, að hann hafi verið sektaður fyrir lögbrot, meira að segja var það áfengissmyglun. Annars var það mjög mishepnað í ræðu hæstv. ráðh., að það virtist eins og skrifstofustjórinn setti sig yfir ráðherrana og ætlaði sjer að fara að kenna þeim. Slíkt á ekki að eiga sjer stað um undirtyllu. Jeg mun, ef tími og tækifæri gefst, síðar tala um það, hvernig þessi skrifstofustjóri hefir vanrækt eftirlit sitt með vínverslun ríkisins, en það mál liggur nú fyrir fjhn. Hv. þm. Vestm. (JJós) dró í síðustu ræðu sinni inn klærnar. Hann kvaðst, er jeg skoraði á hann að tilgreina móðgandi orð, sem jeg átti að hafa haft um ísl. sjómannastjettina, ekki vilja gera það. Jeg hefi haldið mjer við það eitt í máli þessu, sem vitnaleiðslan hjer á þingi hefir gefið tilefni til, og jeg hefi þar á meðal vitnað í ummæli manna, er sitja við sama stjórnarborð og hv. þm. (JJós). Meðan þau orð eru ekki ósönnuð, þá verða þau undirstaða undir dómi hvers þess, er þau les. — Hv. þm. sagði, að jeg hefði sagt, að íslenskir sjómenn væru hneigðir til þess að brjóta landhelgislögin. Sjómenn eru undirmenn á skipunum og þeir ráða engu um, hvar skipin veiða. Skal jeg í því sambandi enn benda á orð Ágústs Flygenrings hjer á þingi, þar sem hann sagði, ekki að það væru undirtyllurnar á skipunum, ekki einu sinni skipstjórarnir, sem rjeðu því, að togararnir veiddu í landhelgi, heldur eigendurnir, sem beinlínis skipuðu fyrir um að veiða í landhelgi. Jeg hefi ekki sagt annað en að togararnir veiddu í landhelgi, og jeg hefi ekki sagt, að það væru yfirmennirnir, sem rjeðu því, heldur eigendurnir. En auðvitað eru það aðrir hvorir þeirra, sem ráða því. Það er ekki hægt fyrir hv. þm. að þoka sjer undan þeirri staðreynd, að togararnir veiði í landhelgi. Hann getur ekki gengið utan um vitnisburð manna á staðnum, vitnisburði, sem ber saman og ekki hefir verið hrundið.

Hv. þm. sagði, að landinu stafaði hætta af umtalinu um þetta mál í þinginu. En stafar þá ekki einnig hætta af ummælum hv. þm. Snæf., sem skýlaust fara í þá átt, að ísl. togararnir geri sig seka um veiðar í landhelgi í stórum stíl.

Jeg hefi í þessu máli bent á fordæmi, sem gefið var í fornöld, þegar erlendan mann langaði til að eiga eyju eina hjer við land. Sumir vildu gefa honum hana, en aðrir ekki. Þeir, sem neituðu, báru það fyrir sig, að þó að þessi maður væri hinn ágætasti, þá væri ekki víst, að allir eftirkomendur hans yrðu honum jafngóðir. Af sömu ástæðu er það, að jeg hefi ekki viljað lögfesta yfirmennina á varðskipunum eins og nú er gert með frv. þessu. Jeg geri ráð fyrir því, að hv. Nd. lagfæri frv. að þessu leyti, því að þessa ómynd getur enginn maður stutt, sem lætur sjer ant um framtíð gæslunnar hjer á landi.

Mjer þykir vænt um, að hv. þm. hefir ekki reynt að hrekja þá staðreynd, hvar Þór fjekk sem varðskip fyrstu stuðningsmenn sína og fjandmenn. Það er rangt, að þeir menn sjeu vinir fyrirtækis, sem ganga á móti því meðan hættan vofir yfir, en snúast með því, er það er komið yfir torfærurnar.

Jeg er ánægður yfir því, að þessar umræður hafa orðið til þess að varpa ljósi yfir ósparsemdarframferði landsstjórnarinnar, þar sem hún með frv. þessu kemur með óþarfa embættistildur og erlenda eftiröpun, sem á hjer alls ekki við, til stórtjóns landhelgisgæslunni í bráð og lengd.