04.04.1927
Efri deild: 44. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

19. mál, varðskip ríkisins

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Það er ekki furða, þótt hv. 1. landsk. (JJ) miklist af því góða málefni, sem jeg mintist á áðan, þegar flokksbróðir hans, er sæti á í allshn., fær þann vitnisburð, sem hann í miðhluta ræðu sinnar gaf honum, er hann sagði, að með frv. væri stofnað til óþarfa eyðslu o. s. frv. Auðvitað var þessu beint til ríkisstjórnarinnar, en vitanlega hittir það þennan flokksbróður hans líka, þar sem hann sem nefndarmaður leggur til, að frv. verði samþykt. Það mundi þykja saga til næsta bæjar, ef forustumenn Íhaldsflokksins gæfu heiðarlegum flokksbræðrum sínum slíkan vitnisburð og hv. 1. landsk. gaf út og falla varð í garð hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) eins og annara í hv. allshn.

Það virðist ekki lýsa mikilli sjálfsþekkingu, er hv. 1. landsk. er að monta af því, að hann hafi aldrei átt í neinum lögbrotum. Jeg veit ekki til þess, að það hafi verið staðhæft jafnoft um nokkurn mann hjer á landi, að hann hafi gert sig sekan um brot á hegningarlögunum eins og hv. þm. (JJ). Skal jeg aðeins geta þess, hvert er efni þeirra greina hegningarlaganna, er hv. þm. hefir brotið. Þær eru um róg, níð og ærumeiðingar um náungann. Hv. þm. hefir ekki treyst sjer til að mótmæla því opinberlega, nje hnekkja því með því móti, sem sjálfsagt er og flestir aðrir, er sakaðir eru um slík lögbrot, myndu gera. Það var ekki svo, eins og hv. þm. vildi halda fram, að skrifstofustjórinn setti sig yfir ráðherrann, þegar hann kom í veg fyrir það, að ráðherrann fremdi lögbrot eftir áeggjan hv. 1. landsk., en hann setti sig yfir hv. 1. landsk., og það svíður honum svo, að hann ætlar ekki að láta sjer nægja kveinstafina yfir sviðanum í þessu máli, heldur ætlar hann að halda þeim áfram í öðru máli, sem bráðum kemur fyrir þessa hv. deild.