07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2404 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

* Jeg þarf í rauninni engum að svara nema hæstv. ráðh. En jeg sje, að hann er ekki í deildinni, og vil jeg mælast til, að einhver geri honum aðvart. Á meðan ætla jeg að drepa á örfá atriði hjá öðrum hv. þm.

Hv. frsm. 2. minni hl. (JK) þarf jeg engu að svara. Okkur ber svo lítið á milli, að ekki er orðum að því eyðandi. Hann vildi gefa í skyn, að skipverjar fyndu meira til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi, ef þeir væru gerðir að sýslunarmönnum ríkisins. Jeg fyrir mitt leyti geri ekkert úr því atriði.

Hv. 3. minni hl. (HjV), sem hefir sjerstöðu í þessu máli, þarf jeg engu að svara. Hann kom ekki fram með annað en menn höfðu búist við og vissu áður. Jeg held, að hann máli skollann á vegginn, þegar hann heldur því fram, að hjer sje verið að stofna til lögreglu eða herliðs.

Hæstv. atvrh. tók vel í afgreiðslu okkar á þessu máli, þó að honum fyndist, að við hefðum að nokkru leyti hnuplað málinu frá hinu rjetta ráðuneyti og hinni rjettu nefnd. Þó að hæstv. ráðh. og hv. fjhn. þyki þetta gripdeildir, vona jeg, að það sje engin skóggangssök og að við höfum rjett til þess að taka inn í frv. þau atriði, sem okkur virðast vera rjettmæt og sjálfsögð. Um það, sem hæstv. ráðh. drap á, að ekki væri sama orðalag á siglingatímanum í 5. brtt., skal jeg taka það fram, að það er af ásetningi gert. Jeg skal játa, að jeg stend hjer nokkuð höllum fæti, þar sem jeg er ekki siglingafróður maður, en jeg átti tal um þetta atriði við siglingafróðan mann, og hann taldi, að ekki ætti að vera um sama tíma að ræða hjer og milli landa. En þetta atriði skiftir ekki miklu máli.

Hv. þm. Barð (HK) drap á, að ósamræmi væri í 3. brtt. okkar. En það er ekki, því að fyrra atriðið tekur til þeirra manna einnig, sem stjórnarráðið skipar. Það liggur því í hlutarins eðli, að það hefir vald yfir þeim.

Þá kem jeg að hæstv. forsrh. (JÞ). Hann talaði í þeim tón og með þeim myndugleik, að ætla mætti, að hann hefði eitthvað til að byggja ummæli sín á. En svo var ekki að sama skapi. Hæstv. ráðh. var alveg undrandi yfir tillögum okkar 1. minni hl. og þótti þær sýna mikinn viðvaningshátt. Þetta getur ekki átt við annað en það atriði, sem við viljum bæta inn í frv., enda fanst hæstv. ráðh. það vera aðalásteytingarsteinninn, að „blanda inn óskyldum málsatriðum“. Enda þótt þetta meiði ekki hans hágöfugu persónu, þótti honum hlýða að fara um það mörgum og hörðum orðum. Það lítur svo út, sem hæstv. ráðh. sje búinn að gleyma sinni fyrri tíð hjer. Þá henti það hann að fremja þingsafglöp. En þó að hæstv. ráðh. finnist við blanda hjer inn óskyldum efnum, þá er það aðeins að hans dómi og fárra annara, og jeg viðurkenni ekki, að hann hafi rjett til að gefa mönnum forskriftir að tillögum þeim, sem þeir bera fram. Maður skyldi ætla, að slíkur fræðari væri svo vel að sjer, að hann þekti, hvort til væru í okkar löggjöf hliðstæð ákvæði. En hann þekkir það ekki. Jeg skal t. d. benda á lög um ullarmat. Inn í þau lög er blandað launagreiðslu. Sama er að segja um lög um síldarmat, og einnig um lög um skipun barnakennara og laun þeirra. Verkefni barnakennara er þó áreiðanlega ekki skyldara launakjörunum en starf skipverjanna er launum þeirra. Þá má nefna lög um Landsbankann. Inn í þau er blandað launakjörum starfsmannanna. Jeg hefi ekki fleiri dæmi á reiðum höndum, en eflaust eru þau miklu fleiri. Jeg læt þetta nægja, til þess að sýna, hvílíka firru hæstv. ráðh. (JÞ) fór með. Annars vil jeg minna á, út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um, að launaatriðin væru alveg óviðkomandi allshn., að úr því að hæsty. ráðh. er þannig að gera upp á milli nefnda og fetta fingur út í það, hvernig þær haga störfum sínum, þá mætti ætlast til þess, að hann reyni að koma hverju máli til þeirrar nefndar, sem hann álítur hæfasta til að afgreiða það. Í þessu sambandi má nefna Landsbankafrv., sem í mörg ár hefir verið á ferðinni hjer á Alþingi og hæstv. ráðh. fjekk vísað til fjhn. Ed. í þingbyrjun. Þar er það svo að þvælast á þriðja mánuð, og þegar það loksins kemur frá nefndinni, hefir það ekki tekið þeim búningsbótum, að ætla mætti, að miklir fjármálaspekingar hefðu um það fjallað. Þegar hæstv. ráðh. fer að kenna mönnum þingleg fræði næst, þá ætti hann að hafa við meira að styðjast en hann nú hefir.

Hæstv. ráðh. mintist á, að hjer væri verið að stíga stórt spor afturábak. Mennirnir eru ekki svo margir, að miklu muni fyrir ríkissjóð. En til að fá góða menn, gerðum við ráð fyrir, að launin mættu ekki vera lægri en þetta.

Þó að hæstv. ráðh. byggist við því, þá vakti það ekki fyrir mjer með andstöðu minni, að stjórnin ætlaði að skipa þarna embættismannaflokk um sig. Fyrir mjer vakti það, að jeg taldi varlegra að hafa ekki fleiri embættismenn fastráðna en nauðsynlegt er. Þó að við höfum fullan hug á að stunda okkar landhelgisgæslu, er óþarfi að óttast, að við getum ekki haft jafnmörgum góðum og gegnum mönnum á að skipa, þó að þeir sjeu ekki embættismenn. Það getur unnið sig upp, meðal annars með því að veita þessum mönnum styrk, þegar þeir fara að eldast, sem óhjákvæmilegt myndi verða, en það myndi draga dilk á eftir sjer.

Þá hefir hæstv. ráðh. víst fundist, að hann væri búinn að heyra nóg um embættafjölgunina, úr því að hann fór að koma með þetta. Líka má vel vera, að hann hafi fengið eitthvert samviskubit.

Annars get jeg sagt hæstv. ráðh. það, að mjer hefir fyrir löngu þótt nóg um embættafjölgun hæstv. stjórnar; má þar til nefna Spánarlegátann, sendiherrann í Kaupmannahöfn, með 35 þús. kr. launum, o. fl. o. fl. Það var nú alls ekki meining mín að fara að ganga í skrokk á hæstv. stjórn fyrir þetta; hennar raunir eru nógar samt.

Þá gat hæstv. forsrh. þess, að ekki hefði mátt hafa þennan embættismannaflokk hærra launaðan en frv. hans gerir ráð fyrir, þegar laun embættismanna hefðu lækkað að miklum mun, og að allir yrðu að lúta lögunum. Jeg skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. fer að halda þessu fram, þar sem hann veit, að óánægjan út af lækkun dýrtíðaruppbótarinnar hefir logað hjer í vetur meðal embættis- og sýslunarmanna, og að sendar hafa verið til þingsins áskoranir um bætt launakjör. Það er því öðru nær en þetta hafi gengið orðalaust.

Þá gat hann þess, að það myndi leiða til hækkunar, ef launakjör þessara manna yrðu ekki fest með lögum. Þetta er bara spádómur, sem hægt er að varpa fram. Launin verða hækkuð hvort sem þau verða fest með lögum eða ekki, ef kröfur koma um það. Annars finst mjer óþarft að stofna sum þessi embætti, sem talað er um í frv. stjórnarinnar. Jeg tel, að draga hefði mátt úr því embættahaldi, en láta hásetana aftur fá meiri laun.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að tala um þetta frekar, en jeg mun fylgja frv. eins og jeg hefi tekið fram áður, þó að brtt. okkar verði ekki samþyktar, enda þótt hæstv. forsrh. hafi tekið þeim óskynsamlegar en vænta hefði mátt af manni í hans stöðu.