07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 3. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það er spurningin, hvort betur muni verða sjeð fyrir landhelgisgæslunni en áður með þessu frv. eða ekki. Til þess að betur verði sjeð fyrir landhelgisgæslunni, þarf að gera mennina á varðskipunum ánægða, svo að þeir dvelji þar langdvölum og til þeirra veljist úrval sjómanna. En samkv. þessu frv. eiga varðskipsmenn að hafa miklu lakari laun heldur en menn, sem gegna samskonar stöðum á öðrum skipum, eins og hæstv. atvrh. hefir viðurkent. (Atvrh. MG: Það hefi jeg aldrei sagt). Jæja, hann vitnaði um það í starfsbróður sinn, hæstv. forsrh., sem hefir óvirt þessa hv. deild með því að vera ekki við þessar umr. nema svo sem 5 mínútur. (Nokkrir þm.: Hann er við umr. fjárlaganna í Ed.).

Er nú hægt að búast við því, að menn á varðskipunum verði ánægðir, þegar þeir hafa miklu verri kjör en aðrir stjettarbræður þeirra á verslunarskipunum, en skyldur miklu meiri og miklu minni rjettindi? Nei, og aftur nei! Frv. miðar að því, að á skipin veljist ljelegri menn, með svo auðvirðilegan hugsunarhátt, að þeir sætti sig við að vera verkfæri í höndum stjórnarinnar og sitja og standa eins og henni þóknast.

Hæstv. atvrh. virðist leggja mikla áherslu á, hve tryggt það sje að vera starfsmaður hins opinbera. Þar til er því að svara, að það er munur að vera sýslunarmaður á þessum skipum eða embættismaður í landi með þrefalt hærri launum. Það er munur að hafa svo sem 8–9 króna kaup á dag og vera skyldur til að vinna altaf, hvenær sem kallið kemur, eða hafa 8–9 þús. króna árstekjur fyrir svo sem tveggja stunda hæga vinnu á dag, eins og t. d. ýmsir kennarar við háskólann, dósentar og aðrir. — Það hefir ekki borið á því, að skipverjar á verslunarflotanum hafi ekki fengið kaup sitt greitt. Þeir hafa meira að segja átt hægra með að ná sínu kaupi heldur en margir aðrir. Þeir yrðu því varla betur trygðir hvað það snertir, þótt þeir kæmust á varðskipin, nema síður sje. Það hefir sem sje sýnt sig, að ekki stendur alt á stöðugu hjá ríkissjóði eða hæstv. stjórn, og þess vegna er ekki ástæða til að taka orð hæstv. atvrh. alvarlega. Það hefir svo sem þráfaldlega komið fyrir, að þó menn hafi verið í þjónustu stjórnarinnar, þá hafa þeir mist stöðu sína. Jeg skal hjer t. d. nefna það, að þá er gufuskipið Borg var selt, þá voru margir menn þar sviftir atvinnu. Hið sama hefði orðið uppi á teningnum, þótt þeir hefðu verið taldir opinberir sýslunarmenn. Skipið hefði verið selt engu að síður.

Hæstv. ráðh. gat þess, að nokkuð væri svipað „praxis“ og lagarjettur. Jeg neita því. Hæstv. ráðh. hefir oft breytt „praxis“; en svo er hjer ekki heldur um „praxis“ að ræða, heldur er verið að skapa nýja stjett embættismanna. En svo á með reglugerð að setja þessa menn undir sjerstakan aga, og þar er jafnvel svo langt gengið, að ef stjórnin heldur, að reglugerðin gangi ekki nógu langt í því að halda mönnunum niðri, þá á að beita gegn þeim ákvæðum siglingalaganna, þar sem þau eru strangari en ákvæði reglugerðarinnar.

Hæstv. atvrh. sagði, að það ætti að hafa sjerstakt við skipverja á varðskipunum vegna þess að þeir væru sjerstök stjett í landinu. Jeg fæ ekki sjeð, að það sje neinn munur á þeim og skipverjum á Esju og Villemoes, enda þótt þeir sjeu kallaðir sýslunarmenn. Nafnið breytir engu, þegar um samskonar stöðu og starf er að ræða. Eða hvaða munur halda menn að sje á kyndurum á Esju og Villemoes og kyndurum á Þór og Óðni? Þeir vinna nákvæmlega sama verk. Og hvaða ástæða er þá til þess, að aðrir sjeu látnir vera undir heraga og ákveðnum launalögum, en hinir vinni eftir samningi og hafi öll fríðindi samkvæmt siglingalögum og stjettarsamningum sínum?

Hæstv. atvrh. vildi láta líta svo út, sem vinnutíminn á varðskipunum væri ekki nema 8 stundir á sólarhring. Það er von, að hann fari þar ekki rjett með, því að hann talar þar af ókunnugleika, eins og kom fram í því, að hann sagði, að á skipunum væri þrískift „vakt“, og virtist skilja það svo, að hver „vakt“ hefði frí eftir 8 stundir. Það segir sig sjálft, að það sannar ekkert um, hvað vinnutími er langur, að þrískift er vakt. Á togurum er fjórskift vakt, en samt vinna menn þar 18 stundir í sólarhring. Sama er að segja um vinnubrögð á Þór og Óðni að undanförnu, að vinnutíminn hefir þar verið 16–18 stundir. Maður skyldi nú ætla, að tillit hefði verið tekið til þessa í tilvonandi löggjöf um skipin, en svo er ekki, síður en svo, eins og jeg hefi þegar sýnt.

Hæstv. atvrh. leit svo á, að það gæti ekki verið mikilvægt atriði í augum stjórna stjettafjelaganna, þó að skipverjar á varðskipunum hefðu ekki sömu laun og skipverjar á verslunarskipunum. En þetta er einmitt stórt atriði frá sjónarmiði stjettafjelaganna, vegna þess, að hjer er um nákvæmlega sömu vinnu að ræða. Og er það ekki einmitt tilgangurinn með því að setja kaupið þannig niður, að aðrir geti vitnað í það, og þannig komist á almenn kauplækkun á sjónum? Það er engin furða, þótt stjettafjelögin láti sig ekki einu gilda slíkar aðfarir.

Það hefir verið bent á það, að ekki er mikil hætta á verkfalli hjá þeim, sem vinna samkvæmt samningi á ríkissjóðsskipunum. Og hæstv. atvrh. veit, að ekkert er auðveldara en að komast hjá verkfalli. Það er rangt hjá hæstv. atvrh., er hann gat þess, að ef verkfall yrði á togurunum, þá yrði líka verkfall á varðskipunum. Það gæti þá aðeins orðið með því móti, að stjórnin gengi inn í „Fjelag íslenskra botnvörpuskipaeigenda“ og gengi til samninga með þeim, en ekki með stjórnum verslunarskipanna, sem semja um kaup á skipum sínum á öðrum tíma en togaraeigendur.

Það sannar ekkert ágæti frv. þessa eða mál hæstv. atvrh., þótt 4 nefndarmenn gangi að nokkru inn á frv. Þótt 99 af 100 gætu fallist á það, sannaði það ekkert um rjettmæti þess. Jeg hefi þegar sýnt fram á það, að frv. er ekki komið fram til þess að tryggja það, að bestu menn veljist á varðskipin. Það er ekki til þess fallið að koma í veg fyrir verkföll, en það er fram komið til þess að koma því liði á skipin, er stjórnin hefir ráð þess í hendi sjer, og yfirleitt veikja samtök verkalýðsins á sjónum.

Hæstv. atvrh. komst út í það að tala um landhelgisgæsluna og sagði, að jeg hefði fundið það út, að togarar hefðu verið að veiðum í landhelgi hjá Öndverðanesi af því að ekki hefði verið nógu oft mæld fjarlægð skipanna frá landi. (Atvrh. MG: Það voru orð hv. 4. þm. Reykv.!). Það mun á sínum tíma sjást á ræðum okkar hjá skrifurunum. En það hefir löngu áður komið fram, að togarar hafa verið að staðaldri að veiðum í landhelgi þarna, og þetta veit hæstv. atvrh. sjálfsagt líka, ef hann hefir talað við sjómenn. Hv. þm. Snæf. hefir einnig borið fram kæru um þetta hjer á þingi. Það er á almanna vitorði, að mikið af þeim fiski, sem hjer kom á land í vetur, var landhelgisfiskur. Og það þori jeg að segja fyrir víst, að yfirmenn á Óðni geta ekki svarið, að skip hafi verið utan landhelgi, með því að mæla vegalengdina aðeins af sjónhendingu, enda þótt hæstv. atvrh. segi, að hún sje þeim nóg.

Jeg var ekki að setja út á skrifstofustjórann í dómsmálaráðuneytinu fyrir venjuleg störf hans, en hinu hjelt jeg fram, að dæmin væru deginum ljósari um það, að skipin væru ekki eins mikið á verði og þau ættu að vera. Þetta sjest best á því, er Þór liggur hjer á Reykjavíkurhöfn 12 daga á mánuði til jafnaðar, fyrir utan innilegur á öðrum höfnum, og jeg fullyrði, að þessar innilegur sjeu að mestu óþarfar og ónauðsynlegar.

Jeg hefi áður getið þess, hver munur er á að sigla undir þessum lögum og siglingalögunum. En það má rifja þetta betur upp fyrir sjer. Hjá Eimskipafjelaginu hafa yfirmenn eftirlaunarjett, án þess að greiða sjerstakt gjald. Það er uppbót á kaupi þeirra. Skipverjar hafa samningsbundnar frístundir, ákveðinn matmálstíma og ákveðin landgönguleyfi. Fatnaður þeirra er trygður fyrir 450–1000 kr., og þeim sjálfum er trygður nægilegur hvíldartími áður en þeir fara á „vakt“. Það er því eins og jeg hefi sagt: Bestu mennirnir munu forðast varðskipin, ef frv. þetta verður að lögum, og þangað velst lakasta liðið.