07.05.1927
Neðri deild: 69. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. 3. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það voru 3 atriði, sem hv. þm. V.-Sk., frsm. 2. minni hl. (JK), tók til dæmis um, að betra væri fyrir skipverja að vera sýslunarmenn heldur en að sigla undir siglingalögunum, og eflaust eru allir kostirnir þar með upp taldir.

Fyrst var það, að þeim væri greiddur sjúkrastyrkur í 6 mánuði, ef þeir væru sýslunarmenn. Jeg hygg, að skipverjar á varðskipunum eigi enga lagaheimtingu á því, heldur eigi þeir undir högg að sækja um það til landsstjórnarinnar. Og meðan önnur eins „sparnaðar“-stjórn situr eins og nú er hjer á landi, verður víst ekki farið að greiða mönnunum meira en nauðsynlega þarf.

Annað atriðið var það, að ekki væri altaf hægt að reka sýslunarmenn. Það má vera, að svo sje stundum. En hjer er þá gerð undantekning, því að auk þess sem ráðh. má reka þessa menn, er skipherra leyft það. Og ekki má aðeins reka þá fyrir fult og alt, heldur líka um stundarsakir. Þá eru þeir sviftir kaupi sínu, en geta ekkert annað farið. Það er hægt að reka þá, ekki aðeins ef þeir brjóta á móti lögunum, heldur og ef þeir brjóta á móti reglugerð, sem stjórninni er heimilað að setja eftir þessum lögum. — Loks hafa þeir engan áfrýjunarrjett til dómstólanna, ef þeir eru reknir, eins og aðrir. Landsstjórnin er útgerðarmaður, sem sjálfur úrskurðar, hvort hann eða undirmaður hans hefir rjett fyrir sjer, og þar er ekki tekið tillit til fleiri aðilja.

Loks er þriðja atriðið, að ekki megi afskrá skipverja hvar sem er eða hvenær sem er. Það er mikið vafamál, hvort þetta er nokkur fengur fyrir skipverjana, því að þeir mega sjálfir krefjast afskráningar eftir 90. gr. siglingalaganna, ef þeir eiga kost á skipstjórastöðu, yfirstýrimanns- eða vjelstjórastöðu. Þessi rjettur er þeim mjög dýrmætur, en samkv. frv. sýnast þeir engan rjett hafa til að krefjast lausnar, þótt þeim bjóðist æðri staða utan „herskipaflotans“. — Þarna eru upptaldir „kostirnir“, sem því eiga að fylgja að vera sýslunarmaður frekar en lögskráður háseti.

Mjer finst það mjög mikilsverður rjettur fyrir alla menn að mega gera verkfall. Verkfallsrjetturinn er að geta sagst ekki vinna, nema maður fái kjör sín bætt, og er hinn eini rjettur, sem verkalýðurinn hefir í baráttunni fyrir betri kjörum. Mjer sýnist ástæðulaust að svifta menn, sem eru á lágum launum, þessum rjetti, svo sem sýnist gert við skipverja á varðskipunum eftir frv. Enda er það algerlega tilgangslaust að reyna að svifta menn verkfallsrjettinum. Það verður altaf farið í kringum það ákvæði. Enda eru þess dæmi, að opinberir sýslunarmenn hafa knúð fram vilja sinn með því að hóta að leggja niður vinnu.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) hefir ekki tekið rjett eftir því, sem jeg sagði. Jeg talaði ekki um að takmarka vinnutímann á skipunum, en hitt sagði jeg, að launin verða að vera í einhverju hlutfalli við vinnutímann. Hv. þm. taldi mótsögn í því að tala um of langan vinnutíma og marga innilegudaga, sem hann sagði, að „auðvitað“ væru miklu færri en jeg hefði gefið í skyn. Jeg veit nú ekki, hvað hann hefir fyrir sjer í þessu, en annars ætti að vera ofurauðvelt að komast að því, því að það hlýtur að sjást í skipsbókunum. — Annars geta menn þurft að vinna nokkuð lengi, þótt skipið liggi í höfn, svo að í því felst engin sönnun fyrir því, að lítið sje að gera. — En hvað ætli starfsmenn hins opinbera í landi, t. d. í stjórnarráðinu, segðu um það að vinna annað eins og þessir menn eiga að gera fyrir einar 6–8 krónur á dag?

Það er algerlega rangt, að jeg hafi viljað setja nokkurn blett á landhelgisgæsluna með aðfinslum mínum. Sá er vinur, sem til vamms segir.