14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Mjer skilst svo, að ef frv. þetta verður samþykt, þá muni hitt frv., sem kom fram í sambandi við það um varðskipin, ekki koma fram, því að mjer sýnist frv. þetta, eins og það er nú, vera að nokkru samsuða úr báðum frv. stjórnarinnar.

Jeg verð nú að segja það, að þótt frv. sje ekki eins ranglátt og það var í upphafi, þá er það engan veginn til bóta fyrir landhelgisgæsluna, að það verði samþykt.

Það er enn meiningin, að skipverjar á þessum skipum verði sýslunarmenn ríkisins. Jeg skil ekki, af hverju kemur sú dæmalausa harðneskja hjá stjórninni og forsvarsmönnum frv. að halda svo dauðahaldi í þetta ákvæði að koma hjer upp nýjum og stórum embættismannaflokki, því að ekki getur það orðið að neinu minsta gagni fyrir landhelgisgæsluna. En með þessu hafa mennirnir á skipunum ekki hina sömu vernd og þeir, sem sigla undir siglingalögum. Þeir hafa ekki heldur vernd fjelagsskapar síns, sem stendur fyrir samningum við stjórnendur verslunarflotans um kaupgjald. Þeir geta ekki fengið að ráða neinu um það, hvað vinnutími þeirra er langur. Þeir geta ekki fengið að ráða því, hvernig „vöktum“ er skift, þótt það geti oft verið nauðsynlegt. Þeir fá ekkert kaup fyrir eftirvinnu sína, og það er hægt að láta þá vinna óhæfilega lengi, en menn, sem hafa samskonar starfa á verslunarskipunum, fá altaf aukaborgun fyrir yfirvinnu sína. Og varðskipsmenn eru yfirleitt alveg varnarlausir, því að enginn veit, hverju hinir borðalögðu, sem hafa 1000 króna laun á mánuði, kunna að finna upp á í samráði við vonda stjórn. Með frv. á að svifta þá menn, sem eru svo ólánssamir að lenda á varðskipunum, nokkrum hluta af mannrjettindum þeirra, í stað þess að þeir ættu að hafa að öllu leyti betri kjör en menn á öðrum skipum. Og ef talið er, að þeim verði eitthvað á, eru þeir settir undir fallöxi stjórnarráðsins. Maður veit vel, hve smásmugulegir þessir svo kölluðu herlærðu menn eru, að lítilfjörleg yfirsjón getur orðið nægileg ástæða til burtrekstrar, svo sem t. d. það, ef einhver sjer ekki yfirmann sinn, er hann kemur um borð, eða gleymir að heilsa að hermannasið, ef hann mætir yfirmanni á götu, þá er það talin næg ástæða til burtrekstrar. Og þá á það að vera komið undir góðvild atvinnumálaráðherra eingöngu, hvort sá maður á að fá endurgreitt það, sem hann hefir lagt í lífeyrissjóð. Það er daglegt brauð erlendis, að tekið er hart á slíkum smásmyglisyfirsjónum, þar sem hjegómlegir liðsforingjar heimta af mönnum skriðdýrshátt og niðurlægingarhátt frammi fyrir sjer og refsa harðlega með herdómi og fangelsi, ef út af er brugðið. Þessi hætta er hjer til staðar, og jeg vil ekki stuðla að því með mínu atkv., að samþ. sje frv., sem leyfir slíkt.

En ef frv. á að samþykkjast, þá er í 6. gr. ákvæði, sem áreiðanlega má ekki standa, að ráðuneytið ákveði, hvort manni, sem vísað er af skipi, skuli endurgoldin iðgjöld þau, er hann hefir greitt í lífeyrissjóð embættismanna, eða ekki. Um þetta verður að vera skýlaust ákvæði, svo að það sje ekki háð dutlungum stjórnarinnar, hvort menn fá iðgjaldið endurgreitt.

Annars er tónninn allur sá í báðum frv. stjórnarinnar, að koma á hermenskubrag á varðskipunum, enda þótt hjer sje ekki nema um algenga sjómensku að ræða, og það þarf áreiðanlega ekki þessar tildursumbúðir utan um varðskipin til þess að þau geti leyst þann starfa af höndum, sem þeim er ætlaður.