14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

19. mál, varðskip ríkisins

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Það er gaman að geta fengið hv. 5. landsk. upp úr sjálfsánægju værðardýnunni, sem hann venjulega hvílir á, því að venjulega laumar hann tortryggninni út úr sjer með spekingssvip og lymskulegri lognmollu, en nú hefir tekist að hrista dálítið upp í honum.

Hv. þm. virðist hafa gleymt því, að hann ætlaði að mótmæla frv. því, sem hjer liggur fyrir, og hann fór nú að tala um landhelgisgæsluna yfirleitt. Og hann fór að yfirheyra mig um varðskipin, af hverju þau hefðu ekki verið hjer eða þar á ákveðnum tíma, eins og jeg væri útgerðarstjóri þeirra. Jeg get svarað hv. þm. því, að jeg frjetti í vetur — á götunni eins og hver annar —, að varðskipið Óðinn hefði verið sent austur á firði út af tollsmyglun. En þetta verk, að hæstv. stjórn leyfði sjer að senda skipið til þess að koma í veg fyrir grunaða áfengissmyglun, er í augum hv. þm. (JBald) einhver óbætandi dauðasynd. En annað veifið er blað þessa hv. þm. að klifa á því, hve yfirvöldin láti smyglunina ganga framhjá sjer. Þegar svo yfirvöldin senda gagngert skip í annað hjerað til þess að koma í veg fyrir smyglun, þá ber þessi hv. þm. þungar sakir á hæstv. stjórn einmitt vegna þess. Hv. þm. getur spurt mig í allan dag að því, hvers vegna varðskipið var fyrir austan, þegar það átti að vera fyrir vestan. Það er ekki mitt að svara því. Hann ætti heldur að spyrja hæstv. stjórn að því.

Þá kom hv. þm. fram með þá skoðun, að allir menn ynnu í eiginhagsmunaskyni. Mjer kom það satt að segja ekkert á óvart úr þeirri átt, því það hefir verið og er ávalt rauður þráður hjá honum í ræðum hans að væna menn um slíkt. Hann vildi sem sje halda því fram, að ekki væri hægt að trúa því, að togaraeigendur vildu hafa strandgæsluna góða; en jeg þekki marga togaraeigendur, sem láta sjer mjög ant um, að strandgæslan sje traust og nái sem best tilgangi sínum.

Hv. þm. harmaði það mjög, að jeg skyldi vera á móti því að ala upp dugnað manna við strandgæsluna. En jeg hefi einmitt gert alt, sem jeg hefi getað, til þess að vinna að því, að strandgæslan kæmist á fót. En hvað vill hv. þm. í þessu efni? Jú, hann vill agaleysi og verkfallsrjett hásetanna, svo að hann og aðrir forsprakkar alþýðunnar, sem berja sjer á brjóst, standa á gatnamótum og rífa hár sitt og skegg, geti notið sín sem best. Svo mikið illgresi hefir sprottið upp af sæði því, er hann hefir sáð, að í smáþorpum þessa lands eru menn farnir að myndast við að gera verkfall. Hv. þm. vill ala á dugnaði manna við strandgæsluna með því að láta á varðskipunum ríkja aga- og skipulagsleysi í hvívetna.

Þá sagði hv. þm., að hann þekti annan skipherrann á varðskipunum. Átti hann þar við, þegar Jóhann Jónsson skipherra á Óðni var settur lögreglustjóri í Reykjavík hjer um árið. Fór hv. þm. mörgum niðrandi orðum um hann í því sambandi. Hefir marga grunað frá því fyrsta, að þarna lægi hundurinn grafinn og gengu þess ekki duldir, að Jóhann Jónsson ætti marga óvildarmenn í hóp þeirra manna, sem stóðu fyrir óspektunum þá. En ætli þetta hafi ekki hrokkið óvart út úr hv. þm. og að hann hafi þar dregið fortjaldið frá hinum raunverulegu ástæðum sínum á móti málinu? Það er enginn á móti rjettmætri kritik á þessu máli, en jeg ber ekki brigður á það, að meiri hluti Alþingis vill góðan framgang þessa máls. En til hins er ilt að vita, að 2 menn á þingi skuli hafa komið með tortryggnislegar getgátur til þess að vekja vantraust á þeim mönnum, sem fyrir landhelgisgæslunni standa. Ef það ætti að vera nægilegt til þess að þjóðin fallist á það, að landhelgisgæslan væri ekki í eins góðu lagi og vera ætti, að menn af annarlegum ástæðum vekja upp sögur og tortryggnislegar getgátur um þá menn, sem Undhelgisgæsluna annast, þá væri það illa farið. Það er opin leið fyrir þessa herra að kæra til stjórnarinnar út af vanrækslu í þessu efni, og þegar sú leið er farin og því er ekki sint, þá er rjett og sjálfsagt að bera ákæruna fram hjer á þingi á þinglegan hátt, en fyr ekki. En hitt er allskostar ósæmilegt, að sveigja að þinghelginni með allskonar dylgjum, í von um, að eitthvað loði við í meðvitund manna. Hv. þm. er því opin leið að kæra skipherrann á Óðni fyrir landsstjórninni, ef hann þykist geta fært sönnur fyrir vanrækslu frá hans hendi í starfi hans.

Þá talaði hv. þm. um það, að jeg hefði ekki batnað við samvistir mínar við menn hjer á Alþingi. Jeg leyfi mjer að mótmæla því afdráttarlaust. Jeg hefi frá því fyrsta að jeg kom hingað unnið mikið í reynslu hjer við það að kynnast hjer mörgum ágætum og mætum mönnum, bæði í Íhaldsflokknum og öðrum. Það var víst þessi hv. þm., sem sendi hirðisbrjefið 1923 til Vestmannaeyja, þar sem hann varaði alla góða menn við því að kjósa slíkan skaðræðisgrip og mig til þingsetu. Jeg get sagt hv. þm. það, að jeg hefi unnið að þingstörfum á þann hátt, sem mjer hefir sýnst farsælastur, og að jeg hefi haft djörfung til þess að bera fram og verja þau mál, sem jeg hefi álitið rjett og horfa þjóðinni til heilla.