14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

19. mál, varðskip ríkisins

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. kemst ekki fram hjá því, að það verður aldrei hægt að trúa á landhelgisgæsluna meðan þeir menn stjórna henni, sem mesta hagsmuni hafa af því, að hún sje sem ljelegust. Að fela togaraeigendum að gæta landhelginnar er hið sama og að fela úlfinum að gæta sauðahjarðarinnar. Jeg get því miður ekki skilið, við hvaða menn hv. þm. á, þegar hann talar um útgerðarmenn, sem hann þekki og sem láti sjer sjerstaklega ant um, að landhelgisgæslan sje í góðu lagi. Það má vel vera, að þetta sje satt hjá hv. þm. og sannfæring hans. En er ekki fólkinu, sem býr við þau svæði, þar sem togararnir veiða mest, betur trúandi um það, hvað landhelgisgæslan er og á að vera, heldur en þeim, sem hafa hagsmuni af því að hún sje ljeleg.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að því, sem gengið hefir eins og rauður þráður í gegnum ræður hv. þm. í þessu máli. En það er ótti hans við verkföllin. — Er það nema eðlilegt, að menn grípi til þeirra til þess að rjetta hlut sinn í lífsbaráttunni, þegar það er eina vopnið, sem þeir geta beitt til þess að ná rjetti sínum og skapa sjer og fjölskyldu sinni lífvænleg kjör? Það er í raun og veru miklu rjetthærra vopn heldur en það er, sem vinnukaupendur nota, þegar þeir loka verksmiðjum sínum og binda báta sína við land til þess að knjesetja vinnulýðinn og kúga hann til þess að vinna fyrir hið lægsta kaup, sem þeir krefjast. Þessir atvinnurekendur segja sem svo, að það borgi sig ekki að reka þessa atvinnu með því kaupi, sem sett er upp, og taka því þann upp, að hætta atvinnurekstrinum. Háttv. þm. sagði, að jafnvel í friðsælustu hjeruðum væri upp kominn sá óvildarandi, að menn væru farnir að gera verkföll. En hverjum er það að kenna öðrum en atvinnurekendum, sem eru svo ósanngjarnir og óbilgjarnir, að þeir vilja ekki bæta kjör verkalýðsins? Annars hefir hv. þm. sennilega átt við Borgarnes með þessum „friðsælu hjeruðum“. Jeg skal fræða hann á því, að verkamannafjelagið þar, sem nýlega gerði verkfall, er undir stjórn læknisins í Borgarnesi, sem sagt er að eigi að vera frambjóðandi íhaldsflokksins í Mýrasýslu við næstu kosningar. Jeg efast ekki um, að formaður fjelagsins hafi staðið að verkfallinu. Honum er það ekki heldur láandi. Hann hefir sjeð sem var, að atvinnurekendur þarna hafa verið svo ranglátir, að ekki var um annað að gera en þetta.

Hv. þm. sagði, að opin leið væri að kæra til landsstjórnarinnar út af misfellum, sem mönnum þættu vera á landhelgisgæslunni. En sjer ekki hv. þm., hve erfitt þetta er? Þótt það sje á allra vitorði, hvílík vanhirða hefir átt sjer stað við Snæfellsnes í vetur, þá getur verið erfitt að sanna þetta. Eina ráðið er þá að hreyfa málinu á löggjafarþingi þjóðarinnar, svo að einhver styr verði um það. Upp úr því, að málinu var hreyft hjer, hafðist þó a. m. k. rjettarrannsókn. Hv. þm. Vestm. fór ekki út í rjettarhöldin. Ef hann hefði gert það, gat varla farið hjá, að hann sjálfur sæi, að ekki var vanþörf á að hreyfa málinu.

Loks talaði hv. þm. um „hirðisbrjef“, sem jeg hefði sent til Vestmannaeyja, þegar hann bauð sig fram. Út af þessu verð jeg að játa, að fyrst þegar jeg kyntist honum, áleit jeg hann sæmilega frjálslyndan og sanngjarnan mann. En í þeim íhaldsfjelagsskap, sem hann hefir hjer komist í, hefir hann spilst svo, að hann er nú lítið eða ekkert betri en hinir. Þetta sýnir, hve forsjáll jeg hefi verið að senda brjefið og vara við honum strax.