16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Klemens Jónsson:

Jeg get ekki látið þetta mál ganga til 2. umr. án þess að fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum. Hv. þdm. er kunnugt, að jeg hefi haft nokkur afskifti af málinu, og fyrst hæstv. atvrh. (MG) getur ekki verið viðstaddur, stendur mjer næst að gera nokkra grein fyrir, hvers vegna það er fram komið. En fyrst vil jeg leyfa mjer að færa hæstv. stjórn þakkir fyrir að hafa tekið frv. að sjer og borið það fram sem sitt mál.

Aðalatriði þessa frv. eru tvö: Sjerleyfi til að virkja Urriðafoss og járnbrautarlagning austur að Þjórsá.

Viðvíkjandi fyrra atriðinu skal jeg skýra frá því, að fyrir 12 árum eða svo var myndað í Noregi fossafjelagið Titan. Á næstu 2 árum keypti það, eða fjekk umráðarjett á annan hátt yfir öllu vatnsmegninu í Þjórsá, og hefir því haft þennan eignarrjett í 10 ár. Um Urriðafoss má geta þess sjerstaklega, að umráðin yfir honum eru fjelaginu að nokkru leyti beint heimiluð af landsstjórninni sjálfri sem eiganda Kálfholts. Eftir að Titan hafði fengið þessi vatnsrjettindi var þegar tekið að framkvæma mælingar og rannsóknir. Unnu aðallega að því verki G. Sætersmoen, norskur vatnsvirkjunarsjerfræðingur, og Sigurður Thoroddsen. Árangurinn af þessum ítarlegu rannsóknum var gefinn út í bók 1918, „rauðu bókinni“ svokölluðu. Ef hv. þm. hafa ekki allir kynt sjer þessa bók, er þeim velkomið að fá hana hjá mjer.

Kostnaður við þetta alt saman, ferðalög, rannsóknir og mælingar, varð geysimikill. Það fer víst ekki fjarri, að hann hafi verið upp undir 1 miljón króna, og það fje alt hafa einstakir hluthafar lagt fram, án þess að fá einn eyri í rentu.

Meðan fossanefndin var að vinna og ekki var búið að skipa vatnamálunum á Alþingi, var engin von til þess, að fjelagið gæti fengið sjerleyfi til virkjunar. Þetta var mikið tjón fyrir landið, því mjer er kunnugt um, að árin 1918–’19 hafði fjelagið nægilegt fje til þess að byrja virkjun og hefði gert það, ef leyfi hefði fengist þá. En hvort það hefði orðið hagur fyrir fjelagið, er annað mál, því að þá dundi yfir í Noregi samskonar dýrtíð og fjárkreppa og hjer. Fjelagið hefði þó sennilega byrjað á mannvirkjum, líklega járnbrautarlagningu austur, og þótt það hefði orðið að hætta, gat vel farið líkt hjer eins og á Seyðisfirði, þegar Garðarsfjelagið rjeðst þar í mannvirki um aldamótin, en varð að hætta. Kaupstaðurinn fjekk bryggjuna og hefir lifað á henni síðan. Eins hefði landið fengið þau mannvirki, sem byrjað var á, fyrir ekkert eða lítið verð. Jeg held, að það hafi verið illa farið, að fjelagið fjekk ekki sjerleyfi þá.

Eftir að vatnamálin voru afgreidd á þinginu 1923, og sjerstaklega eftir að sjerleyfislögin 1925 um vatnavirkjun voru á komin, gat verið ástæða til þess fyrir Titan að leita sjerleyfis. En þá var enn ilt útlit í Noregi og peningamarkaður slæmur. Nú er þetta breytt til hins betra, og eins er ástandið breytt hjer, því að í fyrra gekk Alþingi inn á að veita sjerleyfi til virkjunar Dynjanda, og þar með var brotin sú mótstaða, sem hjer hefir verið ríkjandi, nefnilega hræðslan við erlent fje og innflutning erlends verkafólks.

Þegar svo var komið, að Alþingi fór að veita sjerleyfi, hvatti jeg Titan til þess að sækja um leyfi á ný. Einn af stjórnendum fjelagsins kom síðan hingað í fyrra vor til þess að athuga málið. Þegar jeg var staddur í Kaupmannahöfn síðastl. sumar, áttum við hæstarjmflm. Aall tal við hæstv. forsrh. um málið og fengum hjá honum liðlegar undirtektir. Síðan fór jeg til Ósló og átti þar fund með stjórn fjelagsins. Þá var ákveðið að sækja um leyfi til að virkja Urriðafoss. Stjórnin tók líklega í málið, en setti strax að skilyrði, að fjelagið legði járnbraut austur að Þjórsá. Þegar hæstv. atvrh. sigldi núna um áramótin ætlaði jeg að verða honum samferða, en af því gat ekki orðið vegna veikinda minna. Í þessari ferð átti hæstv. atvrh. tal við hrm. Aall, og náðist samkomulag um málið þeirra á milli og varð að samningum, að atvrh. flytti frv. — Þetta er saga málsins rjett sögð.

Þegar litið er á frv., leynir sjer ekki, að meira ber á járnbrautinni en virkjuninni. Þetta er eðlilegt, því að um virkjun eru sjerstök lög og samningurinn er auðvitað bundinn við þau lög. Jeg skal þó, Alþingi til upplýsingar, drepa á nokkur atriði í sjerleyfisbeiðni fjelagsins. Jeg skal geta þess, að jeg hefi nokkur eintök af þessari beiðni, og standa þau hv. þm. til boða.

Tilætlunin er að reisa orkuver hjá Urriðafossi og flytja orkuna loftleiðis að Skildinganesi. Þar á að byggja iðjuver. Er áætlað, að orkan þangað komin muni verða 81500–136000 hestöfl, eftir vatnsmegni, sem er mismunandi eftir árstíðum. Kostnaður er áætlaður 41 miljón króna, og er miðað við verðlag í Noregi fyrri hluta árs 1914, að viðbættum 50% .

Áætlað er, að þurfa muni 600 verkamenn til að reisa orkuverið og að það taki 3–4 ár. Það er beinlínis tekið fram, að notaður verði að langmestu leyti innlendur vinnukraftur, en um útlenda sjerfræðinga fer eftir nánari skilyrðum. Við iðjuverið ætti ekki að þurfa nema örfáa útlendinga. Í beiðninni er tekið fram (í 12. gr.), hvað fjelagið ætli sjer að framleiða. Jeg treysti mjer ekki til að þýða greinina svo í lagi sje, en þykir ekki við eiga að lesa hana hjer á norsku, enda eiga hv. þm. kost á að kynna sjer efni hennar. Það er sjerstaklega tekið fram, að áburðarefni verði framleitt, og skuldbindur fjelagið sig til þess að láta 10% af þeirri framleiðslu til landbúnaðarþarfa. Annars eru öll nánari ákvæði bundin með lögum.

Jeg hefi nú skýrt frá gangi málsins og innihaldi beiðninnar. Um járnbrautarmálið get jeg verið fáorður. Það var þaulrætt í fyrra og hefir oft verið rætt hjer áður. Jeg skal aðeins taka það fram, að virkjunarmálið hefir altaf verið sett í samband við járnbrautarmálið, og sennilega kemst hvorugt málið áleiðis nema í sambandi við hitt. Þegar jeg hefi haldið þingmála fundi með kjósendum mínum í Rangárvallasýslu, hefir jafnan verið viðkvæðið hjá bændum, og ekki síður hjá konunum, að sveitirnar væru að leggjast í eyði, fólkið yndi þar ekki og leitaði til kaupstaðanna, einkum Reykjavíkur, og það bæri helst við köldum húsakynnum í sveitinni. Timburhúsin eru ekki eins hlý og baðstofurnar voru áður.

Verði þetta frv. að lögum og komist í framkvæmd, vinst þetta: 1. Verkafólk í Reykjavík, Hafnarfirði og nærsveitunum fær fasta atvinnu í 6 ár. 2. Sömuleiðis fá mjög margir verkamenn fasta atvinnu við orkuverið hjá Þjórsá og við iðjuverið í Skildinganesi. 3. Landbúnaðurinn fær nægan áburð og ódýrari en hingaðtil. 4. Suðurlandsundirlendið fær ódýran hita og ljós og greiða leið fyrir flutning afurða á markað. — Að öllu þessu athuguðu og þegar allar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar, skil jeg ekki annað en hv. þdm. finnist með þessu stórt spor stigið í framfaraáttina.

Ef til vill verður spurt, hvort líkindi sjeu til þess, ef frv. verður að lögum, að úr framkvæmdum verði af hendi fjelagsins. Því get jeg svarað játandi, eftir þeim kunnleika, sem jeg hefi á málinu. Að vísu er fresturinn til byggingar járnbrautarinnar í stysta lagi. En úr því stjórn fjelagsins hefir sjeð sjer fært að ganga inn á það skilyrði, má ætla, að hún geti staðið við það. Þeim, sem lagt hafa í kostnað við rannsóknir og undirbúning, hlýtur að vera áhugamál, að úr framkvæmdum verði. Mjer er kunnugt um, að margir af ríkustu mönnum Noregs hafa lagt fje í þetta fyrirtæki og tel jeg víst, að þeim muni vera áhugamál að halda áfram. Jeg veit af sögusögn hr. Aalls, að fjelagið hefir góð sambönd við Hamborg, en Hamborg er einhver mesta peningalind heimsins nú. Ef frv. nær fram að ganga með litlum breytingum, má fastlega vænta þess, að úr framkvæmdum verði.

Jeg þarf svo ekki frekar út í þetta að fara að sinni, en leyfi mjer að styðja till. hæstv. forsrh. um að vísa frv. til samgmn.