16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætla ekki að ræða þetta mál nú af neinu kappi, því að það mun verða tími til þess síðar, og jeg var líka svo óheppinn, að jeg misti töluvert af því, sem hæstv. forsrh. (JÞ) tók fram um fjárhagshlið þessa máls. Jeg náði aðeins í tvær glefsur, sem jeg vil benda á, til þess að hindra misskilning. Hæstv. ráðh. tók það fram viðvíkjandi þessum hjeruðum, að þau flyttu ekki út vörur fyrir einn einasta eyri; jú, það er víst mikið satt í því. En ef hæstv. forsrh. vill telja manni trú um, að fyrir það sjeu íbúar þessara hjeraða nokkurskonar píslarvottar, þá er það ekki rjett. Og af hverju? Af því að þeir selja vörur sínar fyrir hærra verð án þess að flytja þær út, og þeim hefir heldur ekki orðið skotaskuld úr því að koma vörum sínum hingað á markaðinn. Þá tók hæstv. ráðh. það fram, að það yrðu svo miklar tekjur af járnbrautinni, sem ríkissjóður fengi, að það mundi verða langt til upp í þessar tvær miljónir, er hann legði til. En jeg trúi því ekki og hefi aldrei trúað því, að rekstur járnbrautar gefi tekjur, þó ríkið tæki hann að sjer. En þær tekjur, sem frv. ákveður, að fjelagið greiði í ríkissjóð, finst mjer að vel sje hægt að þiggja án þess ríkissjóður kaupi þær við 2 milj. kr. framlagi. Þá mintist hæstv. ráðh. á rjett mat. Við getum ekki gert þetta mat upp nema með áætlunum, sem jeg ekki trúi á, og því þarf jeg ekki að nefna það. En eitt nefndi hæstv. ráðh., sem ríkið losnaði við að leggja fje í; það er nýr vegur. En þessi vegur kemur alveg eins fyrir því, ef sá vegur, sem nú er, verður ófullnægjandi bílvegur. Það má náttúrlega segja, að þetta sje spádómur hjá mjer, en það er alls ekki hægt að hugsa sjer, að við losnum við að gera bílveg austur, því að þeir halda áfram að ganga þrátt fyrir það, þó að járnbrautin komi.

Jeg skal svo láta útrætt um þetta. Jeg hefi ekkert haft á móti því, að málið gangi til 2. umr. og nefndar. Jeg hefi aðeins bent á þetta atriði til athugunar fyrir nefndina, hvort ríkissjóður geti ekki alveg losnað við þennan tilkostnað, og þótt hæstv. forsrh. standi á móti því, að ríkissjóður losni við þetta framlag, þá þykist jeg alveg eins hafa rjett til að benda á þetta fyrir því.