21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

9. mál, réttur erlendra manna til að stunda atvinnu á Íslandi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ástæðan fyrir því, að jeg beindi fyrirspurn til hæstv. ráðh. (MG) um það, hvort stjórnin mundi treysta sjer til að setja ákvæði í væntanlega reglugerð um það, að erlendir menn, sem hingað koma til atvinnu, ættu að sanna með vottorði áður en þeim væri leyft á land, að þeir væru lausir við alla hættulega kvilla, — var sú, að mjer virðast ákvæði 3. gr. frekar eiga við þá menn, sem þegar eru komnir hjer á land, er lögin koma í gildi. En ef hæstv. ráðh. (MG) álítur, að frv. heimili að taka þetta ákvæði upp í reglugerð, þá þarf jeg ekki að eyða fleiri orðum að því.

Hvað snertir brtt., sem háttv. 5. landsk. (JBald) flytur, þá er óþarfi fyrir mig að fara að deila við hann um nauðsyn þeirra. Meiri hl. nefndarinnar álítur, að vel sje unandi við þetta tímatakmark, sem í frv. stendur. Jeg hefi ekki heyrt hv. þm. koma með neinar sannanir, sem jeg álít nægar, fyrir því, að bráðnauðsynlegt sje, að lögin gangi í gildi þegar í stað. Hann er líka alveg í vafa um það, hvort það eru 50, 100 eða 200 erlendir verkamenn, sem koma til Siglufjarðar eða Norðurlands á sumrin. Jeg heyri sagt af mönnum, sem til þekkja, að fáir sjeu þangað fluttir til vinnu fyrir utan einstöku fagmenn.

En þetta finst mjer ekkert aðalatriði í málinu, hvort lögin ganga í gildi 2–3 mánuðum fyr eða síðar. Háttv. þm. verður að færa betri sannanir fyrir því en hann hefir gert, að þetta sje stórt fjárhagsatriði. En nú veit hann ekkert um það, hve marga menn er hjer um að ræða.

Mjer virðist það vera sameiginlegt áhugamál okkar allra að stemma stigu fyrir því með lögum, að hingað geti komið, þegar svo ber undir, hópur verkamanna, sem tækju vinnu frá landsmönnum. Og við ættum ekki að þurfa að deila um það, hvort slík lög eigi að ganga í gildi nokkrum mánuðum fyr eða seinna. Jeg verð að segja, að jeg felst frekar á ástæður hæstv. stjórnar, að lögin gangi í gildi eins og frv. ákveður heldur en brtt. hv. 5. landsk. (JBald) á þskj. 33. Hv. þm. verður líka að gæta að því, að þetta frv. felur í sjer ákvæði, sem geta valdið talsverðum breytingum á aðstöðu þeirra manna, sem þegar eru komnir án þess að ugga neitt að sjer. Og það er ekki rjett að gera það alt of fyrirvaralaust, að ráða að þeim mönnum.

Að mínu áliti er rjettara, að þeim sje gefinn hæfilegur frestur.