16.02.1927
Neðri deild: 7. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Klemens Jónsson:

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara að munnhöggvast hjer við hv. 1. þm. Reykv. Það eru ekki miklar röksemdir, þótt hann segi, að fjelagið hafi gert áætlanir út í bláinn. Fyrst sagði hann reyndar, að það hefði engar áætlanir gert. Hv. þm. slær þessu sýnilega fram til þess að segja eitthvað, af því að hann er þessu máli óvinveittur. Þessi sami hv. þm. gerði það, sem jeg hefði eiginlega átt að gera; hann las upp 12. gr. Jeg gerði það nú ekki, af því að jeg bjóst við, að háttv. deildarmenn myndu vera jafnófróðir eftir sem áður, og það hygg jeg einnig, að þeir sjeu eftir hinn skörulega upplestur hv. 1. þm. Reykv. Auk þess var það siður hjer í fyrri tíð að leyfa ekki upplestur á útlendu máli. Þá gat hv. þm. þess, að ósamræmi hefði verið milli þess, sem jeg hefði sagt, og þess, sem hæstv. forsrh. hefði sagt. En jeg stend við, að það er ekki í erindinu beiðni um að leggja járnbraut austur að Þjórsá. En það er beiðni um að leggja vegi, járnbrautir, hafnir o. s. frv. Það hefi jeg skilið svo, sem fjelagið þyrfti sjerstakar járnbrautir, svo sem frá Eyrarbakka að Þjórsá, hjeðan út á Skildinganes o. s. frv. Og við þetta á sú beiðni.

Út af ræðu hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) get jeg verið fáorður. Hann vildi mótmæla því, að hjer væri um að ræða stefnubreytingu frá því í fyrra. Jeg held, að jeg muni það rjett, að þessi hv. þm. var á móti sjerleyfi því, sem veitt var í fyrra, svo það er ekki hægt við því að búast, að hann hafi skift um skoðun; en það skyldi gleðja mig, ef hann hefði gert það. Hann kvaðst vera hræddur við að veita sjerleyfi; þá mundu fleiri beiðnir á eftir koma. En hann talaði þó gætilegar um það en háttv. 1. þm. Reykv. og taldi ekki, að þeim mundi rigna niður. En jeg verð nú að segja það, að jeg þekki ekki nema tvö virkjunarfjelög hjer fyrir utan Titan, og jeg er þess fullviss, að það á langt í land, að annað fjelagið leiti sjerleyfis, því að það er gjaldþrota. Áður en slíkar beiðnir koma, verður. líka reynsla fengin um þessi sjerleyfi, og ef sú reynsla sýnir, að hættulegt sje að veita sjerleyfi, þá er sjálfsagt, að þingið taki í taumana. Þá mintist þessi háttv. þm. á það, að ekki væri rjett að styrkja stóriðjuna. Nefndi hann togarana í því sambandi og taldi þá gagnlega landinu, en sá galli væri þó þar á, að togaraútvegurinn hefði dregið fólkið úr sveitunum. Það er rjett. En þetta frv. miðar að því að halda fólkinu í sveitunum, því að það verður til þess að auka þægindin þar, eins og jeg drap á í fyrstu ræðu minni. Þá mintist háttv. þm. á ræktun landsins. Allir eru sammála um það að efla hana og auka. En ekkert miðar frekar til þess en einmitt þetta frv. Það ýtir undir ræktunina að fá ódýran tilbúinn áburð og járnbraut. Jeg minnist þess, að hv. 2. þm. Árn. (JörB) fór mörgum orðum um það í ítarlegri ræðu, sem hann hjelt um járnbrautarmálið í fyrra, hve mikil áhrif járnbraut mundi hafa á ræktun landsins. Mjer finst því, að hv. 2. þm. G.-K. ætti að vera með þessu frv., því að með því rætast best hugsjónir hans um ræktun landsins.