16.03.1927
Neðri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2511 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Jörundur Brynjólfsson:

Það er ekki að undra, þótt þessu máli sje veitt athygli. Málið er stórt og getur haft mikla þýðingu fyrir þjóðina. Jeg geri ráð fyrir, að menn leggi misríka áherslu á viss atriði þess. Það getur haft tvennskonar þýðingu. Sem stóriðjufyrirtæki getur það haft í för með sjer, að það taki til sín mikinn vinnukraft frá atvinnuvegunum. Það hafa engar upplýsingar komið fram um þetta, sem þó hefði verið æskilegra til þess að gera málið ljóst. Nú hafa kunnugir menn máli þessu fullyrt, að fjelagið þurfi ekki á svo miklum vinnukrafti að halda, og síst erlendum, að menn þurfi að óttast, að tungu og þjóðerni geti stafað nokkur hætta af því. Hitt atriðið er samgöngubótin, sem fæst við þetta. Jeg býst við því, að menn hafi þess vegna fylgt málinu af enn meiri athygli, að þeir sjái þörfina á því að fá bættar samgöngur við hin gróðursælu hjeruð eystra. Þetta hefir mikið verið rætt, og skal því ekki fjölyrða um það frekar. Þetta atriði málsins hefir stjórnin lagt áherslu á að leysa. Jeg kann henni þakkir fyrir umhugsun sína um þetta mál. Jeg er viss um, að menn hafa ekki alment gert sjer grein fyrir því, hve mikið framfaraspor hjer er stigið bæði fyrir hjeruðin eystra og eins Reykjavík, með því að járnbrautin verði lögð. Það er fyrsta skilyrðið fyrir öllum verklegum framkvæmdum, að samgöngurnar sjeu greiðar, og það spursmál verður ekki leyst án járnbrautar.

Jeg get lýst yfir því um leið og jeg tjái fylgi mitt við þetta mál, að jeg tel þetta mál þess eðlis, að rjett sje nú þegar að gera sjer grein fyrir því, hve langt á að ganga í því að veita sjerleyfi; og jeg get lýst yfir því, að jeg hefði ekki fylgt þessu sjerleyfi, hefði það ekki staðið í sambandi við járnbrautarlagninguna, því að jeg tel sjálfsagt að ganga ekki lengra á þeirri braut fyrst um sinn en að samþykkja þetta sjerleyfi. Jeg tel rjettast, að fyrst sje fengin reynsla um, hvernig þessi tvö sjerleyfi, Dynjanda og þetta, takist, áður en fleiri eru veitt. Þetta eru varúðarráðstafanir, sem hverjum þjóðfulltrúa er skylt að gæta, að ekki sje gengið lengra í veitingu sjerleyfa en hagsmunir þjóðfjelagsins leyfa. Og þótt jeg helst hefði kosið, að við hefðum getað lagt járnbraut að Þjórsá fyrir eigið fje, þá finst mjer samt, sem við eigum ekki að hafna þessu tilboði.

Jeg býst við, að þetta samgöngumál verði ekki leyst fyrst um sinn án þessarar úrlausnar, sem hjer liggur fyrir. En verði það ekki leyst með þessu leyfi, þá koma dagar og þá koma ráð, þá verður að leita einhvers annars ráðs. En jeg hefi enga von um, að Alþingi fari að samþykkja að leggja járnbraut austur fyr en þessi leið hefir verið reynd. Og kjörin eru svo aðgengileg, að ekki er áhorfsmál að reyna, hvernig hún tekst. Jeg tel landið sleppa vel við lausn þessa máls, ef það þarf ekki að leggja fram nema 2 milj. kr. Þetta er svo þýðingarmikið, að bað er ekki áhorfsmál fyrir ríkissjóð að leggja þetta fram. Þá tel jeg ekki eftir hlutaðeigandi hjeruðum að leggja á sig þær kvaðir, sem frv. gerir ráð fyrir. Og þótt þær kvaðir sjeu allmiklar, finst mjer þeim beri skylda til að taka þær á sig, þar sem þau eiga líka að njóta hlunnindanna af fyrirtækinu, ef það reynist kleift að hrinda því af stað. Mjer finst því tilvinnandi, að hjeruðin leggi þessar kvaðir á sig.

En það er annað atriði, sem er mjög þýðingarmikið í þessu máli, og það er, að landið hafi hjer íhlutunarrjett, ekki aðeins um það, hvar og hvernig járnbrautin verði bygð, hvar verði stöðvar og hver flutningsgjöldin, heldur og um fyrirtækið í framtíðinni. Um það hljóða ákvæðin í 9. gr., þar sem segir, að ríkissjóður geti, hvenær sem er á leyfistímanum, tekið fyrirtækið í sínar hendur. Þetta tel jeg besta og þýðingarmesta atriðið í frv. Hjer er um svo þýðingarmikið mál að ræða, sem mjög tekur til hagsmuna þegnanna, að ríkisstjórnin verður að hafa hjer íhlutunarrjett. Því að það er með allra þýðingarmestu málefnum hvers þjóðfjelags, hvernig samgöngumálunum er fyrir komið. Og þar sem nú svo er ástatt um þjóð vora, að hún er þess ekki megnug að koma í framkvæmd svo fljótt sem vera bæri þeim samgöngubótum, sem nauðsynlegar eru til framfara og menningar, þá er þess enn meiri þörf, að ríkisstjórnin hafi gott vald á þessu fyrirtæki. En jeg tel, að með 9. gr. sje vel fyrir þessu sjeð. Yfir höfuð get jeg lýst því yfir, að ákvæði frv. um þetta eru nauðsynleg.

Hinu verður ekki neitað, að jeg er ekki ókvíðinn um, að fjelagið geti ekki uppfylt þetta atriði frv., sem sje járnbrautarlagninguna. Um hitt atriðið verður heldur ekki vitað, en jeg ætla ekki að fjölyrða um það. Mjer mun reynast auðvelt að fyrirgefa þeim, þótt sjerleyfið komist ekki lengra áleiðis, ef við aðeins fáum járnbrautina.

Jeg get svo verið stuttorður um málið. Jeg hefi á síðasta þingi talað allmikið um það, og þarf því ekki að fjölyrða um það frekar. Ekki ætla jeg heldur að hlaupa fram fyrir hv. frsm. til þess að andmæla hv. þm. V.-Húnv. Jeg býst við, að hv. frsm. andmæli því, sem þarf, í ræðu hans. Þó get jeg ekki stilt mig um að víkja ofurlítið að brtt. hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. N.-Þ. Jeg get skilið það atriði brtt., sem vill nema burt fjárframlag ríkissjóðs til járnbrautarinnar. Hv. flm. eru engir járnbrautarvinir og viðurkenna ekki svo nauðsyn þá, sem er á samgöngubótum þessum, að þeir vilji fara að leggja nokkra byrði á ríkissjóð. Kemur mjer þetta því ekkert undarlega fyrir sjónir. En á því furðar mig, að þeir skuli ekki skirrast við að nema burt íhlutunarrjett landsstjórnarinnar um fyrirtækið. Nái brtt. þessi fram að ganga, þá hefir það enn meiri þýðingu en þótt fjárframlag ríkissjóðs yrði felt burtu. Jeg veit, að hv. flm. þekkja til þess, hve óheillavænleg áhrif það hefir haft fyrir hinar minni þjóðir, sem orðið hafa að fá fje frá stórþjóðunum til samgöngubóta eða þvíumlíks, ef þær hafa ekki haft íhlutunarrjett eða hönd í bagga með fyrirtækinu. Jeg hygg, að okkar fámennu og fátæku þjóð beri ekki hvað síst í þessu að vera mjög varfærin. Mjer finst þess ekki gæta í till. hv. þm., að þeir hafi haft eins góða gát á þessu atriði og æskilegt hefði verið. Um hitt get jeg verið þeim sammála, að við eigum ekki að ráðast í þau fyrirtæki, sem haft geta í för með sjer mikið rót á þjóðarhag vorum og landbúskapnum í heild sinni, eða ef um innflutning erlends verkafólks er að ræða. En eftir upplýsingum, sem fengnar eru, þurfum við ekki að kvíða því, þótt fyrirtæki þetta komi til framkvæmda, að innflutningur verkafólks geti haft nokkur áhrif á þjóðfjelag vort í þessu tilliti. En jeg get lýst því yfir, að ef málið væri svo afleiðingaríkt, þá mundi jeg ekki fylgja því fram, þrátt fyrir nauðsyn þá, sem er á bættum samgöngum. Háttv. þm. V.-Húnv. drap á það, að þótt þetta atriði væri felt burt úr 9. gr., þá gæti Alþingi eftir sem áður gert það, sem það vildi, því að altaf væri hægt að taka fyrirtækið eignarnámi, ef fullar bætur koma fyrir. En jeg gæti búist við, að með því móti yrði það ríkissjóði mun dýrara en eftir ákvæðum 9. gr., því að það er ekki hægt að hafa eftirlit með því, hvað fyrirtækið kann að kosta leyfishafa, ef frv. verður breytt samkvæmt till. háttv. þm. Mjer finst þá óviðfeldið orðalag 8. gr., þar sem talað er um, hvað hlutaðeigandi hjeruð eigi að láta af hendi, ef ríkið á hjer engan íhlutunarrjett að hafa. Annars vona jeg, að háttv. þdm. fallist ekki á brtt. þessar. Einnig vonast jeg til, að háttv. flm. haldi þeim ekki stíft fram, eins og þær nú eru úr garði gerðar. En jeg geri mikinn mun á því, hvort nema skuli burt fjárframlagið til járnbrautarinnar eða ákvæðið um íhlutunarrjett ríkisins.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meira um málið að sinni og þykist ekki með ræðu minni hafa gefið tilefni til frekari deilu um málið.