17.03.1927
Neðri deild: 32. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Umr. hafa nú staðið það lengi, að jeg held, að þeim ætti nú senn að verða lokið, enda ætla jeg að verða stuttorðari en sá hv. þm., sem nú var að hætta. Jeg þarf aðeins að svara þeim fáeinum orðum, hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og hv. 1. þm. Reykv. (JakM).

Jeg skildi hv. 2. þm. N.-M. svo, að hann hefði í fyrra verið andvígur járnbrautarfrv., en nú virðist hann óánægður yfir því, að það frv. skyldi ekki borið fram nú. Stjórnin leit svo á, að ekki mundi til neins að bera frv. fram í sama formi og á síðasta þingi, það mundi ekki komast áfram í gegnum þingið, enda kom það ekki fram hjá hv. þm., að hann hefði skift um skoðun frá í fyrra og væri nú orðinn með járnbraut. Hitt er aftur á móti rjett hjá honum, að til endanlegra úrslita kom aldrei í fyrra, enda veit hann vel, að það var alment álitið þá, að nægilegt fylgi skorti, og þess vegna beittu menn sjer ekki eins mikið fyrir því að koma málinu áfram. Þess vegna vildi stjórnin ekki höggva í sama farið aftur.

Jeg veit ekki, hvort jeg hefi skilið hv. 2. þm. N.-M. rjett, en mjer virtist hann halda því fram, að Dynjandisjerleyfið væri fallið úr gildi, af því að fjelagið vantaði fjeð. En jeg vil þá benda honum á það, að enn er von um lausn á því máli, og það áður en langt um líður.

Þá mintist hann á, að hlutafje Titans mundi ekki nóg til þess að hægt væri að byrja á því að virkja Urriðafoss, og virtist draga þetta út úr orðum hv. frsm. (KIJ). En um þetta hefir ekkert verið sagt, heldur hitt, að fengist þetta sjerleyfi með þeim kjörum, sem forgöngumennirnir telja sig geta gengið að, þá mundi ganga betur að fá nægilegt fje til virkjunar. Hitt er vitanlegt, eins og þegar hefir verið tekið fram, að það er ekki meiningin að byggja út allan fossinn í einu, heldur smátt og smátt.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að enn væru margir fossar í Noregi, sem betri mundu til virkjunar en þeir, sem um er talað hjer á landi. En þetta er ekki rjett, að dómi þeirra manna, sem þetta eiga að þekkja. Mjer hefir t. d. sagt einhver mesti fagmaður í þessu efni, Stuevold-Hansen, að fossarnir í Þjórsá væru betur fallnir til virkjunar heldur en fossar yfirleitt í Noregi vegna hins jafna vatnsmagns Þjórsár árið um kring. En það hefir afarmikla þýðingu, þegar byggja á út fossa, að krafturinn sje sem jafnastur alt árið. Margfalt meiri munur á minsta og mesta vatnsmegni í ánum í Noregi.

Það er rjett, sem sami hv. þm. (ÁJ) hjelt fram, að margir hafa tapað á fossavirkjun í Noregi, sem er heldur ekki neitt undarlegt, þegar þess er gætt, að ýms ung fjelög byrjuðu starfsemi sína einmitt á þeim árum, er dýrtíð var þar mest í landi. En annari er þetta talsvert einkennileg röksemdaleiðsla. Mundi ekki rjettast að láta útlendinga sjálfa ráða, hvort þeir vilja láta fje sitt til þessa fyrirtækis? Er ástæða til fyrir okkur að gerast fjárhaldsmenn þeirra? Vilji þeir leggja fje sitt í fossavirkjun hjer, ættum við að lofa þeim það. Þeir, sem byrja á slíku, gera það í þeim tilgangi að hafa gott af því. En það gengur upp og niður þar eins og annarsstaðar, sumir græða en aðrir tapa.

Þá sagði sami hv. þm., að hann hefði enga trú á, að fjeð til virkjunar kæmi frá Noregi. En um það hefir ekkert verið sagt. Það hefir verið talað um, að fjeð mundi aðallega koma úr öðrum löndum, t. d. frá Svíþjóð og Þýskalandi. Mjer hefir einmitt skilist, að gert væri ráð fyrir, að það mundi litlu nema, sem Norðmenn legðu sjálfir af mörkum í fyrirtækið.

Þá skildist mjer af orðum hv. 2. þm. N.-M., að hann teldi það synd, að ríkið legði ekki járnbrautina á eiginn kostnað, af því að við ættum von á svo miklum og góðum viðskiftavin, þar sem Titan er með alla sína miklu flutningaþörf. Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (ÁJ) hefir tekið eftir því, að þó að virkjunin sje fyrir austan, við Urriðafoss, þá á iðjuverið að vera hjer og framleiðslan, svo að flutningar fjelagsins verða langt um minni með brautinni en hann vill vera láta, nema í byrjun.

Þá sagði hann að síðustu, að sín ótrú á fyrirtækinu væri jafngóð og trú okkar, sem höldum fram frv. En það fer vitanlega eftir því, hverju bygt er á. Jeg held, að hann viti miklu minna um þetta mál en jeg og hv. frsm. Síðan jeg fór af stað í utanför mína hefi jeg aflað mjer mikilla upplýsinga um þetta mál, en hv. 2. þm. N.-M. hefir ekki, svo jeg viti, gert hið sama, og hjá mjer hefir hann engra upplýsinga leitað. Jeg veit ekki, hvort hann hefir leitað til hv. frsm. (KIJ: Nei, alls ekki). Jeg verð þá að álíta, að mín trú á málinu sje betri og veigameiri en ótrú hv. 2. þm. N.-M., því að jeg byggi á traustari grundvelli en hann.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) mintist á sjerstöðu sína gagnvart Dynjanda í fyrra. En hann verður að virða mjer til vorkunnar, þó að jeg vissi ekki, hverju fram fór um málið í fjárhagsnefnd. En hitt kemur mjer undarlega fyrir sjónir, að maður, sem er eins skapi farinn og heitur í ræðum eins og hv. 1. þm. Reykv., skyldi sitja kyr í stólnum, hafi hann verið eins harður á móti sjerleyfinu í fyrra eins og hann vill nú vera láta. Og sje eins mikil hætta á ferðum með því að veita leyfi til þess að virkja Urriðafoss eins og hann lætur, þá hlýtur sú sama hætta að vofa yfir vestra í sambandi við þá virkjun, sem þar var leyfð á síðasta þingi. Jeg verð því að segja, að það hafi verið illa gert af honum í fyrra að benda ekki okkur hinum, fávitringunum, á þessa afskaplegu hættu. Annars get jeg tekið undir það með honum, að þetta frv. sje alt annars eðlis en sjerleyfisfrv. í fyrra, og það af þeim ástæðum, að hjer fylgir með svo stórfeld samgöngubót, að slík hefir aldrei verið í boði. Svo að hafi verið ástæða til að samþ. sjerleyfi Dynjandi til handa í fyrra, þá er ekki minni ástæða til að verða við beiðni Titans, þegar litið er á þau fríðindi, sem fylgja.

Þá er það mannfjöldinn, sem vinna á að virkjuninni. Hv. 1. þm. Reykv. taldi, að 2500 manns mundi þurfa við verkið, og hafði það víst eftir hv. 1. þm. Árn. En jeg hefi það eftir góðum heimildum, að það muni aldrei þurfa nema um 600 manns, þegar verkið er komið í fullan gang, svo að 2500 er svo langt frá rjettu lagi, að undarlegt er, að nokkur skuli halda því fram í alvöru.

Jeg sje litla ástæðu til að karpa um orðalagið á 9. gr. Hún er orðuð eins og aðrar fyrirskipanir í lögum: að leyfishafi reki og framkvæmi þetta eða hitt. Hjer er því ekki um annað að ræða en venjulegan boðhátt í lögum.

Þá vildi hann halda því fram, að fjelagið gæti hætt að reka brautina. En þá hefir það líka fyrirgert rjetti sínum, og fer þá um það samkvæmt 11. gr. sjerleyfislaganna, og hana hefir hv. þm. að líkindum lesið.

Orðatiltækið að ráðherra ákveði flutningsgjald með brautinni þýðir ekki það, að ráðherra sje skyldugur til að samþykkja hvaða taxta sem er, heldur hitt, að sjerleyfishafi verður að hlíta í þessu efni því, sem ráðherra vill fallast á og samþykkir. En út frá hinu er gengið, að enginn ráðherra fari fram á það, sem kalla má að sje ósanngjarnt. Allar þessar aðfinslur háttv. þm. eru ekki á neinum rökum bygðar, og ætti því ekki að þurfa að eyða mörgum orðum um þær.

Jeg kippi mjer ekki upp við það, þó til mín sje beint, að ekki sje alt tekið upp í þetta sjerleyfisfrv., sem þörf er á. Það er með vilja orðað eins rúmt og það er, því að ætti að hafa lögin jafnítarleg og hv. 1. þm. Reykv. virðist halda fram, þyrfti ekkert leyfisbréf. En hjer er aðeins um sömu leið að ræða sem altaf hefir verið farin í þessu efni.

Þá hjelt sami hv. þm. því fram, að engir hagsmunir manna væru bundnir við virkjun fossins, heldur væru þeir bundnir við járnbrautina eingöngu. Því er vitanlega ekki að neita, að margir hagsmunir fylgja slíkri samgöngubót, en þó mætti líka líta á hitt og að það verði að telja mikla hagsmuni fyrir hjeruðin austan fjalls að geta fengið ódýrt rafmagn. Og úr því Kaupmannahöfn þykir það svara kostnaði að leiða rafmagn frá Svíþjóð, eins og hv. 1. þm. Árn. benti á, þá má nærri geta, að bændur austan fjalls mundu taka því fegins hendi að geta lýst og hitað bæi sína.

Líka mætti benda á, að í sambandi við virkjunina gefst bændum kostur á tilbúnum áburði fyrir væga borgun, en það er eitt af skilyrðunum fyrir aukinni ræktun landsins. En fyrir mjer er aðalatriðið sú mikla samgöngubót, sem liggur í byggingu járnbrautarinnar.

Þá hjelt sami hv. þm. því fram, að afleiðingin af virkjun fossins og allra þeirra breytinga, sem fylgdi, yrði sú, að stór hluti landsins norðan og austan mundi leggjast í eyði. Eitthvað heldur hann þá, að glæsilegt verði í hjeruðunum austan fjalls, ef þangað flykkist fólk í þúsundatali úr öðrum landsfjórðungum. Menn mundu ekki fjölsækja hingað, væri ekki annað að finna en fátækt og dauða. Jeg get ekki búist við, að hann hafi þá ótrú á landsmönnum, að þeir mundu sækja þangað, sem þeir yrðu sveltir og þrælkaðir. Svo að eitthvað er þetta undarlegt hjá honum. Hann hefir mestu ótrú á virkjuninni, telur, að hún muni mikilli bölvun valda þarna austanfjalls, en gerir þó ráð fyrir, að þar rísi upp það Gósenland, sem gleypi alt fólkið úr öðrum landsfjórðungum.

Viðvíkjandi beitunni, sem hann var aftur að minnast á, þá vil jeg segja það, að jeg fyrir mitt leyti vil heldur taka beittan öngul en beran. Hann tók beran öngul í fyrra; nú stendur honum til boða beittur öngull. Og jeg get bætt við, að fyrir mjer er það hreinasta tálbeita að fá 83 km. járnbraut og önnur fyrirtæki fyrir einar 2 miljónir króna.

Þá hjelt hann því fram, að gengi þessi virkjun vel, þá yrði haldið áfram að veita sjerleyfi á sjerleyfi ofan, þangað til öll Þjórsá væru virkjuð, en af því mundi leiða þá bölvun yfir land og lýð, sem ekki væri hægt að gera sjer nú hugmynd um. Jeg verð að segja það, að hann beri ekki mikið traust til þeirra manna, er sæti eiga á Alþingi í framtíðinni, ef hann ætlar þeim að veita framhaldssjerleyfi, sem auðsætt er, að verði þjóðinni til ills eins.

Hitt þykir mjer sennilegra, að kæmi til þess að veita framhaldssjerleyfi, þá yrði það því aðeins gert, að alt hefði gengið vel þangað til; en það er ekki til neins að ætla sjer að fyrirbyggja vitleysu eða ranglæti í framtíðinni með því að hindra, að þetta frv. nái fram að ganga.

Jeg vona fastlega, að það verði samþykt þrátt fyrir hina löngu og harðorðu ræðu hv. 1. þm. Reykv.

Hv. þm. hefir ekki lýst yfir því, hvort hann er vinveittur járnbraut eða ekki, og get jeg því geymt mjer að rökræða við hann um það, þangað til hann hefir lýst yfir því, að hann sje andstæður járnbraut.

Hv. þm. vjek að því, að þetta fjelag væri svo aumt, að það gæti alls ekkert gert, en í hinu orðinu útmálaði hann þær óttalegu afleiðingar, sem það hefði fyrir þjóðina að hleypa inn erlendu fjármagni. Mjer virðist dálítil mótsögn í þessu. En jeg get fullvissað hann um, að það er satt, að þektir erlendir fjármálamenn hafa lýst því yfir, að þeir mundu leggja fram fje til fyrirtækisins, ef hagfelt sjerleyfi fengist. Mjer er sjálfum kunnugt um þetta, og þess vegna er það ekki rjett, hver sem það segir, að fjelagið sje þannig, að það geti ekki haft framkvæmdir um virkjun og járnbrautarlagningu. En þær ljótu myndir, sem hv. þm. málaði á vegginn, getur hann skemt sjer við að horfa á sjálfur. (JakM: Útlendir fjármálamenn leggja ekki fje í fyrirtækið, nema þeir telji það óhætt). Já, ef þeir telja það óhætt. En þetta fyrirtæki er einmitt þannig vaxið, og hefi jeg þar fyrir mjer orð Hansens vatnamálastjóra í Noregi, sem þekkir allra manna best til. Á hans áliti byggi jeg meira heldur en áliti hv. 1. þm. Reykv., þótt hann segi sjálfur, að hann hafi hugsað mikið um málið.