18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2572 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

1881Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg verð að hafa sömu aðferðina og aðrir hv. þm., sem hafa talað nokkuð um málið við þessa umr., að tala um það á víð og dreif, því að jeg tók ekki til máls við 1. umr.

Jeg verð að líta á þetta mál kannske nokkuð öðruvísi en sumir aðrir hv. þdm. hafa gert, fyrst og fremst út frá þeirri stjórnmálastefnu, sem jeg fylgi, og auk þess af því að jeg er Reykvíkingur og álít mjer skylt að gæta hagsmuna þess bæjar.

Jeg er ekki sammála háttv. 1. þm. Reykv. um það mál, að stóriðja komi inn í landið. Jeg er því fylgjandi, að nýir atvinnuvegir kæmu inn í landið, að minsta kosti ef ekki væri farið lengra út í það en svo, að ekki þyrfti að taka útlendinga á hverjum tíma hingað í atvinnu, heldur tæki stóriðjan aðeins við fólksfjölguninni. Ef hjer kæmi fossavirkjun og stóriðja þróaðist, þá mundi ekki leiða svo litla atvinnu af því. Hinsvegar álít jeg það miklu heppilegra, ef ríkið sjálft ætti orkuverin heldur en að þau væru látin í hendur einstakra fjelaga. Hitt væri aftur spurning, hvort ekki væri hægt að selja aflið til iðju handa ýmsum fjelögum, og jafnvel gefa sjerleyfi til stóriðju. En sá, sem hefir orkuna í sínum höndum, hann hefir í rauninni öll umráð yfir fyrirtækjunum, og álít jeg, að þannig trygði ríkið sjer miklu víðtækari yfirráð og áhrif heldur en með því að láta einstök fjelög fá sjerleyfi fyrir bæði iðju- og orkuver.

Það er nauðsynlegt, bæði fyrir alt Suðurlandsundirlendið og Reykjavík, að fá betri flutninga sín á milli en verið hefir. Það kunna að vera skiftar skoðanir um það, hvort ekki sje hægt að koma því í framkvæmd með betri bílvegum, en jeg er þeirrar skoðunar, að því verði eins og sakir standa best fyrir komið með járnbrautarlagningu. Hinsvegar álít jeg líka, að hagsmuna almennings muni betur gætt með því, að ríkið leggi hana og reki hana, heldur en ef hún væri í höndunum á einstöku fjelagi.

Þá er það sá hluti málsins, sem sjerstaklega snýr að Reykjavík. Það mun öllum vera kunnugt um, að það, sem Reykjavík vanhagar mest um, er rafmagn. Rafmagnið úr Elliðaárstöðinni er svo að segja þrotið, uppselt. Það koma nær daglega til rafmagnsstöðvarinnar fyrirspurnir um það, hvort ekki sje hægt að fá meira rafmagn til iðju, og þar á meðal er frystihúsið, sem ætlast er til, að sett verði upp hjer við höfnina. Það hefir farið fram á að fá 600 hestöfl fyrir sig, en því hefir verið neitað. Það hefir ekki verið hægt að lofa meiru en 30 hestöflum; en þetta er nær ekkert af því afli, sem það þarf, svo að annaðhvort verður aldrei byrjað á því fyrirtæki eða það verður að byggja sjálft sjerstaka stöð handa sjer. Við þetta verður ekki lengi unað. Það verður að fá meira rafmagn handa bænum, og sama máli er að gegna um Hafnarfjörð. Þar eru nú tvær úreltar, gamlar rafstöðvar, sem dottið geta út sögunni, þegar minst varir. Það hefir oft verið talað um, að Hafnarfjörður og Reykjavík, og kannske austursveitirnar líka, ættu að slá sjer saman um að koma sjer upp rafveitu. Nú kann að verða sagt, að þetta mál yrði leyst án þess að ríkið eignaðist orkuver, og kæmi það þó Reykjavík að notum og sveitunum í kring, ef h/f Titan fengi sjerleyfi til virkjunar. En það er ýmislegt við það að athuga, og þá fyrst og fremst það, að rafmagnið, sem Reykjavík liggur mest á, kemur ekki fyr en eftir árið 1937, ef beðið er eftir virkjun á Urriðafossi, en það er enginn vafi á því, að Reykjavík verður að fá mikið rafmagn löngu fyrir þann tíma. Þess vegna er það víst, að Reykjavík verður að heimta það að fá keypt fossarjettindi, sem hagkvæm sjeu til að auka við rafmagn sitt, eða heimta það af ríkisstjórninni, að hún leggi í það að virkja ný vatnsföll. Þetta mál hefir verið töluvert rannsakað, og það vatnsfallið, sem hugsað hefir verið um, er Sogið. Það er viðurkent, að það er besta vatnsfallið í landinu til virkjunar, ef til vill hagkvæmasta vatnsfallið í Norðurálfunni. Það hefir sýnt sig, þegar bornir hafa verið saman þeir útreikningar, sem gerðir hafa verið um Sogið, og þeir, sem gerðir hafa verið fyrir fossafjelagið Titan, að rafmagnið úr Soginu verður töluvert ódýrara, og þar að auki hefir Sogið þann kost, að það er hægt að virkja það smám saman. Sú áætlun, sem gerð hefir verið um þetta, er á þá leið, að ef tekin væru 10000–15000 hestöfl og rafmagnið leitt til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og um þær sveitir, sem á leiðinni eru, Grafning og Mosfellssveit, þá kostaði stöðin við Sogið ásamt lagningu til bæjarmarka Reykjavíkur ekki meira en 41/9 milj. kr., og ef bætt yrði við bæjarkerfið í Reykjavík og Hafnarfirði því, sem þyrfti, þá yrði það, mjög hátt reiknað, samtals 51/2–6 milj. kr., auk kerfis þess og stöðva, sem fyrir eru og feldar væru inn í þessa rafveitu. Það ætti ekki að vera ofvaxið Reykjavík, því að Elliðaárstöðin ásamt bæjarkerfi kostaði 4 milj. kr., og það rjeðist bærinn í að gera. Þegar á það er litið, að Hafnarfjörður og suðursveitirnar eiga hjer líka hlut að máli, þá ætti að vera hægt að ráðast í að ná í þetta rafmagn strax, ekki síst ef ríkið hlypi undir bagga. Það hlyti líka að verða svo, þó að Titan kæmi, því að það mundu verða svo miklar kröfur gerðar úr Reykjavík um að fá aukið rafmagn löngu fyr, að það yrði að leggja í að virkja Sogið hvort sem væri, enda þótt Titan tæki að sjer að útvega Reykjavík sjerstaklega ódýrt rafmagn á sínum tíma. Nú verð jeg að segja það, að enda þótt svo sje, þá kynni jeg að greiða atkvæði með því, að þetta mál færi hjeðan úr deildinni, ef trygt væri með því, að járnbrautin kæmist á. En af þeim umr., sem hjer hafa farið fram, þá sjest engin trygging fyrir því, og jeg skil ekki, að það mundi geta komið fyrir á nokkru öðru þingi en Alþingi Íslendinga, að menn fari fram á það að fá sjerleyfi fyrir jafnmikilli virkjun og hjer er farið fram á, án þess að geta sýnt nokkurn vott þess, að þeir hafi peninga til hennar. Þó að hæstv. atvrh. segi okkur, að það sje sín trú, að fyrirtækið muni komast í framkvæmd, þá tel jeg það ekki mikið að marka. En ef sannanir væru fyrir hendi um það, að peningar væru til, þá held jeg, að auðvelt væri að leggja þær sannanir fram fyrir þingnefnd að minsta kosti. Menn hafa heyrt um það undanfarið, hvernig h/f Titan væri statt, t. d. að eitt hlutabrjef þess, sem hljóðaði upp á 9000 krónur, var selt á 301 krónu, svo að það virðist ekki benda á það, að sú miljón, sem búið er að leggja í þetta verk, sje mikils virði nú. í öðru lagi er auðsjeð, að ef þeir menn, sem sitja í stjórn Titans hjer á landi, hefðu álitið, að hlutabrjef þessa fjelags væru mikils virði, þá hefði það verið auðvelt fyrir þá að bjóða 302 kr. í þessi hlutabrjef, og græða þá laglegan skilding á þeim síðar. Fyrir mínum sjónum verður þetta svo, að ef leyfið yrði veitt, sem sumir halda fram að sje skaðlaust, þá hefði það þó það í för með sjer, í fyrsta lagi, að ekki yrði hugsað um járnbrautina á meðan fjelagið gæti beðið með að framkvæma verkið, og í öðru. lagi, að það mundi minka áhuga manna fyrir því að fá rafmagn og orku til þessara tveggja bæja, sem þó er mjög aðkallandi, og að ráðist yrði í að virkja Sogið, sem jeg álít miklu heppilegra.

Jeg ætla ekki að skifta mjer mikið af afgreiðslu málsins við þessa umr., en komi ekki einhver þau öryggisákvæði sem brtt. við frv. fram við 3. umr., sem færi ríkissjóði eitthvað fyrir það að láta hlutafjelagið Titan hafa rjett til þessa sjerleyfis, ef ekkert verði af framkvæmdum, þá mun jeg greiða atkvæði á móti málinu út úr deildinni.