18.03.1927
Neðri deild: 33. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 2589 í B-deild Alþingistíðinda. (1883)

23. mál, járnbrautarlagning og virkjun Urriðafoss

Sveinn Ólafsson:

Vegna sjúkleika hefi jeg ekki getað hlýtt á sókn og vörn þessa máls. En af því að jeg hefi ritað undir nál. samgmn. með fyrirvara, þá verð jeg að gera grein fyrir honum með nokkrum orðum.

Jeg skal ekki fara neitt inn á það efni, sem umr. hafa sjerstaklega snúist hjer um, heldur halda mjer við fyrirvarann. Eins og mönnum er kunnugt, stóðu hjer fyrir nokkrum árum langar og harðar deilur um það, hvernig ráðstafa skyldi vatnsrjettindum í landinu. Jeg skal ekki fara hjer út í aðalþátt þeirrar deilu, en aðeins minnast á eitt atriði, sem þar kom fram, en það var sú breytilega af staða manna til spurningarinnar um það, hvort leyfa skyldi útlendingum að nota vatnsorkuna eða ekki. Í þeirri deilu komu fram nöfnin „opingáttarstefna“ og „innilokunarstefna“, eftir því hvort menn vildu neita útlendingum um notkun orkunnar eða selja þeim þau hlunnindi í hendur. Jeg skal kannast við það, að jeg var í þeim flokki manna, sem nefndir voru innilokunarmenn. Jeg hefi frá upphafi verið óvenjulega lítiltrúaður á ágæti þeirra útlendu menningarstrauma og hagræðið af því, og hikandi við að veita útlendingum slík rjettindi yfir afllindum landsins, sem hjer er ráðgert. Mjer var það mjög óljúft, er útlendu fjelagi var á síðasta þingi veitt sjerleyfi til orkuvinslu í stórum stíl. Jeg gerði þá tilraun til þess að tryggja það, að úr þeim framkvæmdum yrði ekki tómur hjegómi, en svo sem kunnugt er, voru tillögur mínar um af heimta tryggingarfje feldar. Nú stendur hjer líkt á, og þó um stærra fjelag og virkjunarleyfi að ræða. En áður en þetta mál kom til Alþingis, var ríkisstjórnin og stjórn fjelagsins búin að leggja þann samningsgrundvöll, sem annaðhvort verður að byggja á og taka að mestu leyti óbreyttan eða þá að hafna. Jeg skal nú kannast við það, að þegar um þetta útlenda fyrirtæki er að ræða, þá er á fleira að líta en einföld rjettindi útlendingunum til handa. Hjer er líka að ræða um það að fá þá samgöngubót, sem landsmenn hafa lengi þráð, en ríkið er ekki af sjálfsdáðum fært um að ráðast í fyrst um sinn. Jeg tek það fram, að hefði ekki verið þetta sjerstaka tækifæri, þessi möguleiki, þó valtur sje, til þess að fá lagða járnbraut austur um heiði, þá mundi jeg hiklaust hafa mælt á móti sjerleyfi þessu, í hvaða mynd, sem það hefði verið. Jeg hefi eftir atvikum látið mjer lynda, að meðnefndarmenn mínir í samgmn. hafa fallist á þær frekari kröfur, sem brtt. í nál. sýna. Þar eru tekin upp öryggisákvæði, sem gera það að verkum, að fjelagið getur ekki algerlega bótalaust byrjað á verkinu og látið það svo að engu verða nje heldur fengið einkaumráð vatnsmiðlunar í Þjórsá. Jeg skal taka það fram, að jeg hafði hugsað mjer viðurlögin við vanefndum framkvæmda strangari, en meðnefndarmenn mínir í samgmn. töldu, að slíkt mundi geta leitt af sjer, að samningar tækjust ekki, og fjell jeg því frá þeim, enda álít jeg, að þótt geymslufje (depositum) væri heimtað til tryggingar framkvæmdum, þá væri ekki með því girt fyrir misfellur þær og þjóðfjelagslegu hættu, sem leitt getur af því, að útlendir menn fái yfirráð vatnsorkunnar í landinu og of mikil sjerrjettindi.

Með þessum formála get jeg lýst því yfir, að jeg mun greiða atkvæði með þessu frv., en tek það jafnframt fram, að jeg tel það með öllu óforsvaranlegt að ganga að slíkum kröfum frá útlendum fjelögum um virkjunarleyfi, nema reistar sjeu skorður við ráðríki þeirra og svo standi á sem hjer, að mikilsverð hlunnindi sjeu í boði, svo sem járnbrautarlagningin að þessu sinni.